Skjaldborg II: Veröld sem er

Í öðrum pistli sínum af þremur um Skjaldborg 2017 fjallar Ásgeir H. Ingólfsson um myndirnar Í kjölfar feðranna, Vopnafjörður 690, A Portrait of Reykjavík, Siggi’s Gallery, Bonjour mammon, Lesbos og Jóa.


Síðasti pistillinn fjallaði um tiltölulega nýliðna fortíð – en hátíðin kallaðist auðvitað á við samtímann líka (með þeirri eðlilegu seinkun sem vinnsla heimildamynda óneitanlega veldur). Sú mynd sem tengir þetta máski hvað best er Í kjölfar feðranna – mynd Ingvars Þórissonar og Margrétar Jónasdóttur um nokkra íslenska athafnamenn sem ákveða að sigla alla leið frá Noregi til Íslands á segllausum árabát, fyrstir manna.

Þessir menn minna lítið á forfeður sína víkingana við fyrstu sýn, við hittum þá fyrst fyrir á nútímalegum skrifstofum og svo við undirbúningsvinnu – og satt best að segja leiddist mér hálfpartinn framan af. Þolraunin er áhugaverð – en þetta voru bara talandi hausar, menn sem mögulega voru að fara að vinna afrek, jú, jú, en þeir virkuðu ekki sérstaklega áhugaverðir. En sem betur fer lifnaði yfir myndinni þegar báturinn lagði af stað – og líklega mætti vel klippa megnið af formálanum af og gera miklu þéttari mynd.

Í KJÖLFAR FEÐRANNA: Auður kemur til landsins, áhafnarmeðlimir frá vinstri: Ingvar Ágúst Þórisson. Háfdán Freyr Örlýgsson. Svanur Wilcox. Skipstjórinn Kjartann Jakob Hauksson.

Kontrastarnir sem birtust þarna sýndu samt vel hver helsti munurinn á þeim og forfeðrunum var; forfeðurnir áttu ekki annarra kosta völ en nútímamennirnir, aðalpersónur sögunnar, lifðu í heimi þar sem þessi háski hafði verið þróaður í burtu, að minnsta kosti í vestrænari hluta hans. En það eru ekki svo margar kynslóðir síðan og því virðist enn einhver óræð þörf til staðar til að láta reyna á þolrifin, þótt áskorunin sjálf sé núna oft orðin eina ástæðan, ekki landafundir eða lífsafkoma.

Á fyrsta hluta ferðarinnar fáum við svo að finna fyrir því að þetta er enginn hægðarleikur – einn áhafnarmeðlimur verður heiftarlega sjóveikur og heldur engu niðri, sem er ekki gott þegar menn þurfa allan sinn styrk við að róa. En við upplifum myndina líka helst í gegnum þennan mann, hinir eru allir þöglu sjóaratýpurnar á meðan sá sjóveiki lýsir sjálfum sér sem lattélepjandi auglýsingastofumanni í Reykjavík (þótt hann hafi keppt í róðri á háskólaárum). Hann er tenging okkar landkrabbanna við þolraunina, við yrðum sjálfsagt flest jafn ónýt og hann eftir nokkurra daga siglingu.

Þegar hann þarf svo að hverfa frá borði hafði ég áhyggjur af því hvort myndin myndi lifa það af – en sem betur fer var varamaður hans járnkarl og síkjaftandi skemmtikraftur. Seinna leysir meira að segja annar leikstjórinn af í róðrinum – skemmtilegt tvist sem hefði verið gaman að sjá gert meira við, en um leið var þetta skemmtilega hversdagslega leyst líka.

690 VOPNAFJÖRÐUR.

Frá Bosníu til Vopnafjarðar

Fyrir löngu síðan var ég staddur í hæðum Banja Luka, höfuðborgar serbneska hluta Bosníu, og ræddi við átján ára dóttur leigubílstjórans sem ég gisti hjá (löng saga) og man aðallega þetta: hún átti í sama ástar/haturs sambandi við foreldrana og Banja Luka og ég átti við Akureyri og mína fjölskyldu þegar ég var átján.

Þessi torræðu og þversagnakenndu tengsl við fæðingarbæinn eru merkilega lík þótt Banja Luka sé tíu sinnum stærri en Akureyri. Svo maður tali ekki um Vopnafjörð, sem er 25 sinnum minni en Akureyri og nærri þrjúhundruð sinnum minni en Banja Luka, sem er þó fráleitt nein heimsborg.

Það er samt ýmislegt í gangi í póstnúmerinu 690 Vopnafirði, þótt fábreytnin skíni líka í gegn. Þetta er portrett af bæjarfélagi – rammað inn af póstnúmerinu, rétt eins og í 101 Reykjavík Hallgríms, sú bók snérist ekki um að skrifa hina endanlegu bók um staðinn heldur að endurskilgreina hann, horfa á hann út frá þeirri nútímaskilgreiningunni sem póstnúmerakerfið er frekar en út frá fornum örnefnum.

Við sjáum ótal íbúa Vopnafjarðar, unga og aldna, og fáum að heyra hvað þeim finnst um þennan bæ. Myndin er sjaldnast tekin upp á sama tíma og hljóðið, þannig að manni finnst maður vera að hlusta á hugsanir frekar en að hlusta á viðtöl, það er ótrúleg nánd sem Karna leikstjóri nær að galdra fram hér, bæði í orðum og myndum.

Vopnfirðingum finnst sannarlega ýmislegt misjafnt um bæinn sinn, gott sem og slæmt – og það er helsti galdur myndarinnar; hún tekur enga afstöðu, hún nær í gegnum margröddun sína að birta okkur þá þversagnakenndu afstöðu sem flest okkar hafa til æskustöðvana.

Sjálfur man ég þetta atriði best: ungur strákur sparkar bolta í mark í sumarblíðunni, aleinn. Ég man nákvæmlega hvað hann sagði, en samt ekki. Ég man bara að hann sagði það sama og ég sagði áður en ég fór, það sama og dóttir leigubílstjórans í Banja Luka sagði – hann orðaði vel hvað það er erfitt að fara og hvað það er erfitt að vera.

Þetta er í vissum skilningi mannfræðileg esseyjumynd, en hleypur þó undan þeim skilgreiningum – en hún er gullfalleg og fangar heim sem flestir kannast við þótt þeir hafi aldrei komið á Vopnafjörð – og var satt best að segja langbesta mynd hátíðarinnar, hvað sem öllum Einurum líður, gullfalleg og ærleg svipmynd af þorpi – og eitthvað fallegt við að sjá hana hérna á Patreksfirði, bænum sem Jón úr Vör orti einmitt Þorpið um.

PORTRAIT OF REYKJAVIK.

Gestsaugun

Það er líklega ómögulegt að ræða Ísland í dag án þess að ræða hið nýja fjölþjóðlega Ísland, með öllum sínum ferðalöngum sem og expötum. Tveir þeirra voru með stutta mynd á sunnudagsmorgninum og það var forvitnilegt að skoða aðeins hvernig þeir útlendingar sem ekki eru á fullu í ímyndarsköpun sjá þessa skrítnu eyþjóð. Hinn mexíkanski Juan Albarran sýndi A Portrait of Reykjavík, sem hefði alveg eins getað heitið A Portrait of the Artist as a Young Man – því þráðurinn er ekkert síður hvernig mexíkani getur farið til Reykjavíkur að finna sjálfan sig, ekkert síður en Vopnfirðingar.

SIGGI’S GALLERY.

Mahesh Raghavan fylgir hins vegar honum Sigga eftir, gömlum sjóara sem nú tálgar styttur af miklum móð, í myndinni Siggi‘s Gallery. Mér þótti sérstaklega fallegt hvernig Siggi talar ekki um að vera á eftirlaunum heldur einfaldlega um að vera nú meistari eigin tíma– tíma sem hann notar nú til þess að tálga ættartré jafnt sem styttur.

BONJOUR MAMMON.

Eini útigangsmaðurinn í bænum

Diddi býr í Keflavík – nema að hann býr hvergi. Hann er sagður er eini heimilislausi maðurinn í Keflavík og við fylgjum honum eftir í daglegu lífi í Bonjour mammon. Líf hans virðist þó ekkert svo svakalegt, allavega ekki það sem við fáum að sjá, en við fáum þó ágætis innsýn inní fortíð þar sem Didda er mikið í mun að leiðrétta ljótar sögur um sjálfan sig – en í gegn skín þó harmurinn yfir því sem þó gerðist. Diddi er skemmtilegur karakter, dæmigerður íslenskur róni um margt, en bæjarfélagið í Keflavík virðist þó halda ágætlega utan um hann. Hetja myndarinnar er svo eiginlega hárgreiðslukona myndarinnar, sem sér um að halda karlinum snyrtilegum á götum bæjarins.

LESBOS.

Svo lendum við á Lesbos í samnefndri mynd um flóttamanneyjuna miklu, mynd sem fékk sérstök verðlaun dómnefndar. En ég er orðinn leiður á þessum myndum, þótt ég muni bara eftir þremur í svipinn – Eldur á hafi (Fuocammare)  og mynd sem Gísli Einars á RÚV gerði um ástandið. Allar eru þær nefnilega sama marki brenndar – hér er talað við vestræna fólkið sem er að hjálpa en flóttamennirnir eru jafn andlitslausir og fyrr. Þeir eru bara nafnlaus massi eins og í ótal fréttamyndum – einmitt þarna ættu heimildamyndir að bæta við því sem vantar, ekki bara að endurtaka óm fréttatímanna, sem ef eitthvað er hafa staðið sig betur í að tala við fólkið sjálft. Að því sögðu er ég frekar tilbúinn að taka viljann fyrir verkið hjá Lúðvíki Páli heldur en hjá RÚV og ítalska verðlaunaleikstjóranum – hann er altént að fara þarna algjörlega á eigin vegum og mögulega ekki með budget á bak við sig til að borga túlkum. En samt, þetta er orðið þreytt – ég bíð enn eftir heimildamynd sem virkilega tekst á við þetta viðfangsefni af þeirri vigt sem það á skilið í staðinn fyrir að koma heim og fá verðlaun fyrir það eitt að fylgjast með.

JÓI.

En ef Lesbos fjallar um heimsviðburðina þá er Jói eins fjarri þeim og hugsast getur. Hún fjallar um samnefndan Jóa, Jóhannes, sem á ekki marga vini. Tvo eða þrjá er sagt og þá er mamma hans talin með. Það er ekki tekið fram hvort heimildamyndagerðarkonurnar tvær séu líka taldar. Þetta er örstutt og þrælskemmtileg mynd, líklega sú skemmtilegasta á hátíðinni – þótt maður efist á köflum um að hún sé sannarlega heimildamynd, frekar að Jói sé að leika einhverja ansi ýkta útgáfu af sjálfum sér. Máski er þessi Jói bara lúðalega útgáfan af Sacha Baron Cohen?

En svo má spyrja sig, hefði Jói getað unnið? Ég er ekki að segja að hún hafi verið nógu góð til að vera sigurmynd, þótt góð hafi hún verið – en geta fimm mínútna myndir unnið klukkutíma myndir? Er það ekki bara allt annað sport, eins og að bera saman skáldsögu og stutt ljóð? Hughrifin eru einfaldlega allt annars eðlis. Og þar sem dómnefndarverðlaunum var bætt við í ár mætti alveg íhuga að bæta við stuttmyndaverðlaunum næst.

 

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR