Nanna Kristín Magnúsdóttir: Konur geta sagt alls kon­ar sög­ur

Nanna Kristín með verðlaunaskjal fyrir Unga í París.

„Ég lít ekki svo á að kon­ur ein­ar eigi að segja sög­ur um kon­ur fyr­ir kon­ur. Auðvitað er mik­il­vægt að segja sög­ur kvenna og skrifa bita­stæð hlut­verk fyr­ir leik­kon­ur. Við kon­ur get­um hins veg­ar sagt alls kon­ar sög­ur og ég vil hafa fullt frelsi til að segja þær sög­ur sem mig lang­ar til,“ seg­ir Nanna Krist­ín Magnúsdóttir leikstjóri og handritshöfundur verðlaunamyndarinnar Unga í viðtali við Morgunblaðið.

Í viðtalinu segir meðal annars:

„Það kom mér skemmti­lega á óvart að hljóta aðal­verðlaun hátíðar­inn­ar. Ég hélt að mynd­in kæmi bara til greina sem besta drama­tíska stutt­mynd­in og þegar önn­ur mynd hlaut þau verðlaun var ég al­veg slök þegar til­kynnt var um aðal­verðlaun­in,“ seg­ir Nanna Krist­ín Magnús­dótt­ir sem leik­stýrði og skrifaði hand­ritið að Ung­um (Cubs) sem á dög­un­um var val­in Besta evr­ópska mynd­in úr hópi 73 kvik­mynda í öll­um flokk­um á kvik­mynda­hátíðin ÉCU –The Europe­an In­depend­ent Film Festi­val í Par­ís.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá hátíðinni var það sam­dóma álit dóm­nefnd­ar að veita Ung­um aðal­verðlaun­in. Í um­sögn dóm­nefnd­ar, sem skipuð er fag­fólki í kvik­mynda­gerð, seg­ir: „Mynd­in ber framúrsk­ar­andi sjálf­stæðri kvik­mynda­gerð gott vitni með því að segja góða sögu ein­stak­lega vel. Að mati dóm­nefnd­ar er leik­stjór­inn afar fær í því að segja sögu, hef­ur gott vald á leik­hópi sín­um og stór­kost­lega hæfi­leika til að skapa til­finn­inga­leg viðbrögð í frá­bærri mynd. Við erum sann­færð um að Nönnu bíði stór­kost­leg framtíð í kvik­mynda­geir­an­um og ósk­um henni velfarnaðar.“

Lær­dóms­ríkt að fylgj­ast með viðbrögðum áhorf­enda

„Þessi verðlaun eru mjög góð fyr­ir mynd­ina, sem ferðast nú milli ólíkra hátíða,“ seg­ir Nanna Krist­ín og tek­ur fram að stund­um fel­ist aðalviður­kenn­ing­in hrein­lega í því að vera val­in inn á vandaðar hátíðir. „Þannig voru Ung­ar vald­ir inn á hátíðina South by Sout­hwest í Aust­in í Texas, sem er mjög stór og flott hátíð. Þannig er þetta ekki alltaf spurn­ing um að vinna, þó að það sé auðvitað góður bón­us,“ seg­ir Nanna Krist­ín, en Ung­ar hafa verið sig­ur­sæl­ir á ár­inu.

Þannig var mynd­in val­in besta ís­lenska stutt­mynd­in á Alþjóðlegu kvik­mynda­hátíðinni í Reykja­vík (RIFF), hlaut Edd­una sem besta stutt­mynd­in og val­in besta ís­lenska stutt­mynd­in á Nort­hern Wave kvik­mynda­hátíðinni í Snæ­fells­bæ. Í upp­hafi árs var hún val­in besta alþjóðlega stutt­mynd­in á Flic­ker­fest-stutt­mynda­hátíðinni í Ástr­al­íu, hlaut áhorf­enda­verðlaun á FEC-Europe­an Short Film Festi­val á Spáni og sér­stakt hrós (e. special menti­on) frá ann­ars veg­ar dóm­nefnd og hins veg­ar áhorf­end­um á In­ternati­onale Kurzfilmwoche í Re­gens­burg í Þýsklandi í mars.

„Þetta verður verðlauna­mynd af því að það er val­inn maður í hverju rúmi. Þetta er mikið hæfi­leika­fólk sem ég er svo lán­söm að starfa með,“ seg­ir Nanna Krist­ín þegar hún er beðin að skýra gott gengi Unga. Í aðal­hlut­verk­um eru Ólaf­ur Darri Ólafs­son, Ragn­heiður Ugla Gauts­dótt­ir Ocares og Agla Bríet Gísla­dótt­ir.

„Fyr­ir mig sem kvik­mynda­gerðar­konu er mjög gam­an að fara á milli hinna ólíku kvik­mynda­hátíða og fylgj­ast með viðtök­un­um á mynda minna,“ seg­ir Nanna Krist­ín, sem einnig fylgdi fyrstu stutt­mynd sinni sem nefn­ist Tvíliðal­eik­ur (Play­ing With Balls) og frum­sýnd var í Toronto 2014, eft­ir á hátíðum, en sú mynd er enn að flakka milli hátíða.

„Það er afar lær­dóms­ríkt að fylgj­ast með viðtök­um áhorf­enda og skynja mun­inn á viðtök­um eft­ir þjóðerni,“ seg­ir Nanna Krist­ín og viður­kenn­ir fús­lega að hún fylg­ist á sýn­ing­um frek­ar með áhorf­end­um en mynd­inni sinni á hvíta tjald­inu. „Ég læri mjög mikið á því líka. Ég hef ekki enn lent í því að áhorf­end­ur fari í sím­ann sinn. Mynd­in held­ur greini­lega at­hygli fólks.“

Ólafur Darri Ólafsson í hlutverki föðurins í Ungum.
Ólaf­ur Darri Ólafs­son í hlut­verki föður­ins í Ung­um.

Á tíma­mót­um vegna skilnaðar

Að sögn Nönnu Krist­ín­ar leiðir þátt­taka í hátíðum stund­um til spenn­andi verk­efna. „Þannig var ég t.d. beðin um að koma til Eng­lands í haust og kenna í há­skóla þar, sýna mynd­ina mína, tala um hana og kenna kúrs í kvik­mynda­gerð,“ seg­ir Nanna Krist­ín, sem sjálf lærði hand­rita­gerð í Vancou­ver í Kan­ada.

Spurð hvort hún sé far­in að leggja drög að næstu mynd seg­ist Nanna Krist­ín vera að und­ir­búa sjón­varps­seríu fyr­ir RÚV sem nefn­ist Pabbahelg­ar sem hún bæði skrif­ar og leik­stýr­ir, en sem stend­ur er verk­efnið í fjár­mögn­un­ar­ferli. „Serí­an fjall­ar um konu kring­um fer­tugt sem stend­ur á tíma­mót­um vegna skilnaðar. Hún þarf að hugsa lífið aðeins upp á nýtt. Þetta er svo­kallað „dra­me­dy“ þar sem reynt er að finna léttu hliðarn­ar á drama­tík­inni án þess þó að þetta sé gam­ansería.“

Innt eft­ir því hvernig hug­mynd­in að Ung­um hafi komið til henn­ar seg­ir Nanna Krist­ín að hún hafi komið í bút­um. „Meg­inþema mynd­ar­inn­ar snýr að því að dæma hlut­ina ekki við fyrstu sýn. Annað mik­il­vægt þema snýr að því að við for­eldr­ar ætt­um að vera dug­legri að hlusta á börn­in okk­ar og gefa þeim tíma í stað þess að ein­blína á all­ar hætt­urn­ar í kring­um okk­ur,“ seg­ir Nanna Krist­ín og bend­ir á að í raun sé það móðirin í mynd­inni sem gefi dótt­ur sinni morðvopnið óaf­vit­andi.

For­dóm­ar gagn­vart karl­mönn­um

„Mér finnst gam­an að líta á mál sem eru í umræðunni frá öðrum vinkli. Kveikj­an að mynd­inni var at­vik sem vin­ur minn sagði mér frá. Hann er ein­stæður faðir og á dótt­ur sem langaði að bjóða vin­konu sinni í heim­sókn að gista. Mamma vin­kon­unn­ar hringdi í vin minn og bað hann að hitta sig á kaffi­húsi til að at­huga hvort hann væri trausts­ins verður, eins og hún orðaði það við hann. Á þess­um tíma var ég sjálf ein­stæð móðir og það sló mig að það myndi eng­inn biðja mig að sanna að ég gæti séð um börn líkt og hann þurfti að gera. Þarna birt­ast for­dóm­ar gagn­vart karl­mönn­um. Auðvitað lif­um við á hættu­leg­um tím­um, en við meg­um ekki vera of hrædd til að treysta ná­ung­an­um. Það væri hræðilegt ef ná­ungakær­leik­ur­inn hyrfi úr sam­fé­lag­inu. Á sama tíma þurf­um við auðvitað að gæta barn­anna okk­ar. Við kon­ur njót­um trausts til að sjá um börn­in hvort held­ur er á heim­il­inu eða í skóla­kerf­inu, þó að við fáum ekki laun í sam­ræmi við þá ábyrgð og okk­ur er því miður oft ekki treyst stjórn­un­ar­stöður nema þá í skjóli kynja­kvót­ans. Í jafn­rétt­isum­ræðunni virðist hins veg­ar stund­um gleym­ast að það hall­ar líka á karla á sum­um sviðum.

Ástæða þess að ég valdi dans­inn sem íþrótt var að skapa kontr­ast milli fágaðrar hreyf­inga ball­etts­ins og þess hvernig stúlk­urn­ar dilla sér við dæg­ur­tónlist og syngja texta sem þær hafa ekki hug­mynd um hvað þýða og eiga ekki að vita hvað þýða. Þetta er meðal stóru pæl­ing­anna sem liggja að baki Ung­um sem end­ar svo auðvitað að lok­um sem bara lít­il saga.“

Ungar var valin Besta evrópska myndin úr hópi 73 kvikmynda ...
Ung­ar var val­in Besta evr­ópska mynd­in úr hópi 73 kvik­mynda í öll­um flokk­um á kvik­mynda­hátíðin ÉCU –The Europe­an In­depend­ent Film Festi­val í Par­ís.

Neit­ar að láta binda sig á til­tek­inn bás

Að sögn Nönnu Krist­ín­ar hef­ur verið lær­dóms­ríkt að sitja fyr­ir svör­um hátíðargesta um Unga. „Áhorf­end­ur virðast skilja mynd­ina eins og ég lagði upp með, sem er auðvitað gam­an, en alls ekki sjálf­gefið. Ég fæ mikið af spurn­ing­um um ís­lenska kvik­mynda­gerð og kon­ur í fag­inu. Það kem­ur fólki alltaf jafn­mikið á óvart að ég sé margra barna móðir og starf­andi leik­kona sam­hliða kvik­mynda­gerðinni, því marg­ir skilja ekki hvernig það sé hægt. Ég er líka oft spurð af því hvers vegna ég sem kona sé að fjalla um karl­mann,“ seg­ir Nanna Krist­ín og tek­ur fram að hún neiti að láta binda sig á til­tek­inn bás.

„Ég lít ekki svo á að kon­ur ein­ar eigi að segja sög­ur um kon­ur fyr­ir kon­ur. Auðvitað er mik­il­vægt að segja sög­ur kvenna og skrifa bita­stæð hlut­verk fyr­ir leik­kon­ur. Við kon­ur get­um hins veg­ar sagt alls kon­ar sög­ur og ég vil hafa fullt frelsi til að segja þær sög­ur sem mig lang­ar til,“ seg­ir Nanna Krist­ín. Þess má að lok­um geta að Ung­ar eru aðgengi­leg­ir í Sarpi Sjón­varps­ins til 14. maí.

Sjá nánar hér: „Verðlaun eru góður bónus“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR