Að fanga rétta útlitið

Áslaug Dröfn útbýr gervi Steinunnar Ólínu í Föngum (mynd: Lilja Jónsdóttir).

Kristján Guðjónsson hjá DV ræðir við Áslaugu Dröfn Sigurðardóttur gervahönnuð um verk hennar í sjónvarpsþáttunum Föngum.

Viðtalið fer hér á eftir:

„Við erum svo ofboðslega fegurðarfötluð í dag og það var virkilega gaman að þurfa ekki að fylgja þeim staðli við gerð þessara þátta. Það er rosalega gaman að fá leyfi frá leikstjóra, tökumanni og öllum til að prófa sig áfram og til dæmis vinna með skugga sem eru ekkert sérstaklega fegrandi fyrir leikarana. Hugmyndum var kastað fram og voru svo metnar óháð því hvort það færi þeim vel. Það var ekki meginmarkmiðið,“ segir Áslaug í samtali við blaðamann DV.

Nýtur sín best í bíóinu

Áslaug Dröfn, sem er upphaflega lærð hárgreiðslumeistari en stundaði síðar nám í gervahönnun, hefur verið viðriðin kvikmyndabransann í meira en áratug, eða frá því að hún tók þátt í risakvikmynd Clints Eastwood Flags of Our Fathers sem var tekin upp að hluta til á Íslandi árið 2004. Síðan þá hefur Áslaug eiginlega meikað það í meikinu, tekið þátt í fjölda alþjóðlegra kvikmynda og þáttaraða á borð við Game of Thrones, Promotheus, Noah og The Secret Life of Walter Mitty auk fjölmargra íslenskra verkefna. „Ég hef aðeins verið í leikhúsi líka, en ég nýt mín best í bíó og sjónvarpi,“ segir Áslaug Dröfn um starfsvettvanginn.

„Starfið felst fyrst og fremst í að hjálpa til við að setja karakterinn á leikarann, að sjá til þess að hann sé trúverðugur. Þetta þarf maður að gera í samvinnu við rosalega marga. Fyrst og fremst er það náttúrlega leikarinn – sem er efniviðurinn – en svo eru það leikstjóri og handritshöfundur, búningahönnuður og svo framvegis. Þannig að starfið snýst mjög mikið um samvinnu.“

Leikararnir lífga karakterana við

Áslaug segir að það sem einkenni Fanga sé meðal annars áherslan á að hafa raunsæislegt útlit á persónunum. „Ragnar hefur gert þetta að minnsta kosti einu sinni áður – í sjónvarpsþáttunum Heimsendir. Þá var líka lagt upp með að persónurnar þyrftu hvorki að vera óeðlilega ljótar eða sætar. Áherslan var frekar á að áhorfendur gætu tengt þær við fólk sem það kannast við: „Já, ég hef séð þessa týpu eða þennan karakter einhvers staðar.“ Þannig var ekki lögð áhersla á að gera stelpurnar í Föngum ófríðar heldur fyrst og fremst að gera þær trúverðugar,“ segir Áslaug og segir það frískandi að taka þátt í verkefni þar sem ekki sé verið að láta persónurnar uppfylla óraunhæfa fegurðarstaðla.

Hún segir að innblásturinn að útlitinu hafi meðal annars komið úr hinum ýmsu heimildarmyndum um líf innan veggja fangelsis og svo úr bíómyndum. Hún segir að vinnan að Föngum hafi þó fyrst og fremst einkennst af tilraunagleði því mörgum hugmyndum var kastað fram og hún hafi því prófað sig áfram í átt að réttu útliti. „Við gerðum rosalega mikið af prufusminkum og það var ýmislegt prófað. Til dæmis prófuðum við margar tegundir af hárkollum á Dóru [Halldóru Geirharðsdóttur, sem leikur stjórnmálakonuna Valgerði] áður en við ákváðum að klippa hana stutt.“

En hvað með persónu Diddu, sem Steinunn Ólína leikur, hvað getur þú sagt okkur um hennar útlit?

„Raggi sendi mér ákveðna punkta sem hann vildi vinna með. Svo hittumst við Steinunn nokkrum sinnum. Hún var algjörlega „all in“ og vildi bara gera þetta að mögnuðum karakter. Það er svo gaman þegar leikkona leyfir manni að fara með hana alla leið – hún var aldrei með áhyggjur að þetta yrði eitthvað asnalegt eða myndi ekki virka. Við prófuðum alls konar útlit, prófuðum mýkri útgáfu af Diddu og prófuðum að setja greiðslur í hana, að hafa hana með ör og ýmislegt annað,“ segir Áslaug en vill þó ekki taka of mikinn heiður fyrir Diddu: „Þó að ég setji eitthvert smink á leikarana þá eru það fyrst og fremst þeir sem lífga karakterana við.“

Að fegra stórstjörnurnar

Áslaug segir ekki mikinn mun á að vinna að alþjóðlegum stórmyndum og íslenskri sjónvarpsþáttaröð enda sé fagmennskan og reynslan orðin svo mikil í kvikmyndaiðnaðinum á Íslandi. Hún segir þó að vissulega sé allt miklu stærra í sniðum í Hollywood-myndunum og fær hún til dæmis sjaldnast að vera með puttana í andlitinu á stórstjörnunum – sem mæta á tökustaðinn með sín eigin teymi.

„En stundum þarf maður samt að stökkva til. Þegar Russell Crowe og Jennifer Connelly voru hérna við tökur á Noah þurfti ég eflaust að færa til einn eða tvo hárlokka – en þá kom maður að þeim aftan frá svo þau tækju örugglega ekki eftir að það væri ég sem væri að laga, en ekki manneskjan sem átti að sjá um þau,“ segir Áslaug og hlær.

Source: Að fanga rétta útlitið – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR