„Hjartasteinn“ og „Fangar“ í keppni í Gautaborg

Baldur Einarsson og Blær Hinriksson fara með aðalhlutverkin í Hjartasteini.

Fjöldi íslenskra kvikmynda verða sýndar á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg, sem fer fram dagana 27. janúar til 6. febrúar. Gautaborgarhátíðin er nú haldin í 40. sinn og er stærsta kvikmyndahátíð Norðurlanda. Verkin eru sex talsins; kvikmyndirnar Hjartasteinn, Rökkur og Sundáhrifin, sjónvarpsþáttaröðin Fangar og stuttmyndirnar Ungar og Ljósöld

Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson mun taka þátt í keppninni um Drekaverðlaunin (Dragon Award) fyrir bestu norrænu kvikmynd. Hún er ein af átta norrænum myndum sem keppa um þessi eftirsóttu verðlaun, en verðlaunaféð er 1 milljón sænskra króna og er það ein hæsta upphæð sem hægt er að vinna til á kvikmyndahátíðum heimsins.

Fangar, ný sjónvarpsþáttaröð í leikstjórn Ragnars Bragasonar sem er nú í sýningum á RÚV verður sýnd sem hluti af Nordic Light: TV Drama sýningarröðinni og mun við sama tilefni keppa um ný handritsverðlaun sem Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn stendur fyrir. Fimm norrænar sjónvarpsþáttaraðir munu keppa um 200.000 sænskra króna verðlaunafé.

Rökkur, ný dramatísk hrollvekja eftir Erling Óttar Thoroddsen mun taka þátt í Nordic Light sýningarröð hátíðarinnnar og verður jafnframt lokamynd hátíðarinnar. Sundáhrifin eftir Sólveigu Anspach heitna mun einnig verða sýnd í Nordic Light sýningarröðinni.

Stuttmyndirnar Ungar eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur og Ljósöld eftir Guðmund Garðarsson verða sýndar í stuttmyndahluta Nordic Light sýningarraðarinnar.

Opnunarmynd hátíðarinnar er hin finnska Tom of Finland, sem er meðframleidd af Ingvari Þórðarsyni og skartar Þorsteini Bachmann í veigamiklu aukahlutverki, auk þess sem Ólafur Sigurvinsson fer með lítið hlutverk.

Einnig verður sænska kvikmyndin A Serious Game með Sverri Guðnasyni í aðalhlutverki sýnd sem hluti af sænskum retróspektív fyrir árið 2016.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR