Morgunblaðið um “Aumingja Ísland”: Ómarkviss hrunsaga

Bendikt Erlingsson er sögumaður myndarinnar.
Bendikt Erlingsson er sögumaður myndarinnar.

Hjördís Stefánsdóttir skrifar í Morgunblaðið um heimildarmynd Ara Alexanders, Aumingja Ísland. Hún gefur myndinni tvær og hálfa stjörnu og segir tengingar og úrvinnslu efnisatriða ekki nægilega skarpar og að heildin hefði verið sterkari ef moðað væri úr minna efni.

Umsögn Hjördísar fer hér á eftir:

Heimildarmynd Ara Alexanders Ergis Magnússonar Aumingja Ísland – Sturlungaöld um aldir alda var frumsýnd í Bíó Paradís fyrir skemmstu. Ari Alexander lauk myndlistarnámi frá Parsons School of Design í París og málverk hans, innsetningar og myndbandsverk hafa verið sett upp í sýningarsölum víða um heim. Með tímanum hefur Ari Alexander fært sig meira yfir í kvikmyndagerð og þá aðallega gerð heimildarmynda um málefni líðandi stundar eða um listir og listamenn. Meðal helstu mynda hans má nefna Syndir feðranna(2007) sem afhjúpaði hið illræmda og langþaggaða Breiðavíkurmál og Gargandi snilld (2005) sem fjallar um uppgang íslenskrar popptónlistar í samtímanum.

Þegar bankakerfið á Íslandi hrundi eins og léttvæg spilaborg árið 2008 og þjóðin sat eftir í kreppu fallinna rústa fór Ari Alexander að mynda atburðarásina og reyna að átta sig á afleiðingum hrunsins fyrir íslenskt samfélag. Eins og aðrir landsmenn stóð hann þrumulostinn frammi fyrir hildarleik glæpsamlegra svika, siðblindrar firringar og undanbragða sökudólganna og blóðheitum, heiftugum mótmælum fjöldans, sem fylgdu honum. Smám saman fannst Ara Alexander hann geta lesið í gegnum hrunið stærri sögu lands og þjóðar. Hann fékk Jón Proppé til liðs við sig og saman rýndu þeir í Íslandssöguna. Þeim fannst margt af því sem hrunið velti upp kallast á við kvikmyndina Ern eftir aldri (1975), en þá mynd gerði faðir Ara, Magnús Jónsson, í tilefni ellefu hundruð ára afmælis Íslandsbyggðar. Með aðstoð Benedikts Erlingssonar horfðu þeir síðan enn lengra aftur og sáu hrunið speglast í átökum íslenskra valdamanna á Sturlungaöld sem leiddi til þess að þjóðin tapaði sjálfstæði sínu. Úr öllum þessum sögulestri og greiningu þremenninganna sprettur myndin Aumingja Ísland og hún veltir upp þeirri áleitnu spurningu hvort það séu örlög íslensku þjóðarinnar að fljóta endurtekið sofandi að feigðarósi, værukær og blinduð af drýldnu þjóðarstolti.

Aumingja Ísland fer um víðan völl en byggist á þremur myndrænum söguþáttum: Rannsakandi kvikmyndun Ara á margþættum eftirköstum hrunsins, senum úr mynd föður hans, Ern eftir aldri, og nýjum senum sem sýna Benedikt Erlingsson fara á slóðir átaka Sturlungu og ýmist segja frá eða einleika flókna bardaga sögufrægrar fortíðar. Framvindan er laus í rásinni og erfitt er að henda reiður á boðskap eða bera kennsl á markvissa úrvinnslu efnis. Nýja myndefnið er einnig stundum hrátt og skröltandi á meðan hljóðið er oft lélegt og skerandi hátt. Myndin hefst á rammafrásögn með handritshöfundum og Benedikt í Bíó Paradís að horfa á myndina en þeim viðauka hefði betur verið sleppt því hann teygir lopann óþarflega og dregur frá heildinni með afsakandi og duttlungafullum athugasemdum. Einnig hefði þurft að herða efnislega á tengslum heildarinnar við spunaþræði Benedikts þar sem hann veður sérviskulega um fjöll og firnindi, þyljandi upp úr Sturlungu. Vissulega má segja að átök, deilur og dramb hafi sameinað þjóðina frá því að hún missti fullveldi sitt eftir erjur á Sturlungaöld en þessar senur ríma því miður illa við annað í myndinni. Það sama má segja um langan kafla um vinnu og aðbúnað Lofts Gunnarssonar og annarra verkamanna sem komu að gerð Kárahnjúkavirkjunar. Sú saga er áhugaverð í sjálfu sér en passar illa inn í heildarfrásögn þessarar myndar.

Framvinda myndarinnar er sterkust þegar nýtt myndefni nær að kallast á við eldra myndefni Ern eftir aldri. Sú heimildarmynd var afskaplega umdeild og fékkst lengi vel hvergi sýnd. Hún hefst á þjóðhátíðinni á Þingvöllum árið 1974 og leggur út af sjálfsmynd þjóðarinnar í skoplegri en mjög hvassri þjóðfélagsádeilu. Allar senurnar sem birtast úr eldri myndinni eru óviðjafnanlegar. Fegurðardrottningin Bryndís Schram birtist sem fjallkona Íslands. Hún rómar ágæti lands og þjóðar með því að fara með skondna þjóðrembulega tölfræði á meðan Böðvar Guðmundsson syngur háðsvísur um ágæti ameríska hersins. Bryndís Schram birtist einnig sem nútíma fjallkona myndarinnar þótt hún hafi sýnilega misst alla trú á fyrra froðusnakk. Fjallkonan Lukka Sigurðardóttir gengur til liðs við Bryndísi og leiðir land, þjóð og erlenda þjóðarleiðtoga í allan sannleika um stöðu, þrek og þor hinnar eiginlegu íslensku þjóðar á tímum mótlætis og kreppu. Atriðin með Lukku og Bryndísi eru mjög vel heppnuð og verka eins og flott leiðarstef í myndinni. Einnig er tónlist myndarinnar góð og nokkuð ber á eftirminnilegri grafík og myndblöndun. Áhrifamesta sena myndarinnar lýsir hátindi búsáhaldabyltingarinnar. Hún er óhugnanleg og stuðandi en vel unnin og gæti staðið ein og sér sem sterk örsaga en í þeirri staðreynd kjarnast galli Aumingja Íslands. Tengingar og úrvinnsla efnisatriða eru ekki nægilega skarpar og heildin hefði verið sterkari ef moðað væri úr minna efni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR