Samkomulagið: Langt frá tillögum Kvikmyndaráðs, óljós fyrirheit um hækkun síðar á samningstíma

kmí-logo-með-myndÍ Samkomulagi um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð árin 2016-2019, sem undirritað var í síðustu viku, er KMÍ gert kleift að auka nokkuð styrkhlutfall á hvert verkefni en ekki er gert ráð fyrir fjölgun þeirra. Leikið sjónvarpsefni býr áfram við skarðan hlut, en vilyrði er gefið um hækkun til sjóðsins á síðari hluta samningstíma.

Helstu markmið

Helstu markmið samkomulagsins eru eftirfarandi:

  • Auka fjármagn í Kvikmyndasjóð og auka hlutfall framleiðslustyrks úr Kvikmyndasjóði af heildarframleiðslukostnaði einstakra verkefna.
  • Áhersla skal lögð á barnaefni og kappkostað að a.m.k. eitt slíkt verkefni verði framleitt árlega.
  • Jafna hlut kynjanna í kvikmyndagerð með því að tryggja jafnt styrkhlutfall úr Kvikmyndasjóði til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda. Í því skyni verði veittir tímabundnir sérstakir handrita- , þróunar- og framleiðslustyrkir til kvenna.
  • Styðja sérstaklega við konur og karla sem eru að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndagerð.
  • Stuðningi við kvikmyndahátíðir og þá sem sýna listrænar kvikmyndir verður haldið áfram.

Þá verða tillögur um varðveislu kvikmyndaarfsins og kvikmyndamenntun teknar til athugunar og unnar áfram í mennta- og menningarmálaráðuneyti og skoðuð verður sérstaklega útfærsla miðastyrkja sem og fyrirkomulag um varðveislu eldri kvikmynda.

Hækkun um tæp 30% á þremur árum

Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir að framlög til kvikmyndagerðar hækki um alls 240 milljónir króna næstu þrjú ár. Hækkunin nemur rétt tæpum 30 prósentum.

Hún nær ekki þeim markmiðum sem sett voru í samkomulaginu frá 2006 og aldrei hafa náðst – og sjá má í þessu grafi, þar sem rauða línan stendur fyrir þær 700 milljónir króna á uppfærðu verðlagi sem samningsaðilar urðu þá ásáttir um að sjóðurinn þyrfti:

kmí þróun 2008-2019

Hækkunin er hvergi nærri þeim tölum sem Þórhallur Gunnarsson framleiðslustjóri Sagafilm benti nýlega á að þyrfti í sjóðinn.

Þá er hún og óraveg frá þeim tillögum sem Kvikmyndaráð lagði fram um síðustu áramót og gerðu ráð fyrir að framlög til kvikmyndagerðar hækkuðu um rúma 1.3 milljarða króna á árunum 2016-2021 – eða um 190%:

kvikmyndaráð-skipting kvikmynda 2016-2021

Til einföldunar og til að bera saman sambærileg tímabil má orða þetta svona:

  • Samkomulagið við árslok 2019: 1.05 milljarðar króna.
  • Tillögur Kvikmyndaráðs við árslok 2019: 1.8 milljarðar króna.
  • Mismunur: um 750 milljónir króna.

Margt óljóst um innlenda fjármögnun leikins sjónvarpsefnis

Í samkomulaginu er ekki gert ráð fyrir að aukið hlutfall umráðafjár sjóðsins fari í leikið sjónvarpsefni, enn er miðað við að það sé 18% meðan bíómyndir fá 65% og heimildamyndir 17%. Í tillögum Kvikmyndaráðs var gert ráð fyrir nokkrum breytingum á hlutföllum eins og sjá má á grafinu að ofan.

Í viðauka samkomulagsins er vísað til Þjónustusamningsins við RÚV og bent á að þar sé RÚV uppálagt að verja “8% af heildartekjum sínum árið 2016 í kaup á efni af sjálfstæðum framleiðendum og mun það hlutfall hækka á tímabilinu í 11% árið 2019.”

Þetta eru tölur sem rokka á bilinu 500-700+ milljónir króna, en óljóst er um skiptingu þessa fjár, sem meðal annars getur falið í sér kostnað við talsetningu barnaefnis, upptökur á stórum dagskrárliðum, ýmiskonar þætti og annað, auk leikins efnis, bíómynda og heimildamynda.

Í viðaukanum er einnig vísað til RÚV mynda: “Sérstaklega hefur verið samið um að a.m.k. 80% af 200 m.kr. verði varið til meðframleiðslu og/eða kaupa á sýningarrétti leikins efnis og heimildamynda í samstarfi við sjálfstæða framleiðendur.”

Þarna eru því 160 milljónir króna eyrnamerktar leiknu efni og heimildamyndum (í Þjónusamningnum eru settir fyrirvarar um mótframlög) en ekkert minnst á hækkanir á tímabilinu hvað það efni varðar sérstaklega né kveðið á um skiptingu fjár milli leikins efnis, bíómynda og heimildamynda. (Sjá nánar liði 2.1.1 og 2.1.2 á bls 3 í Þjónustusamningi.)

Þó má vísa til yfirlýstst markmiðs RÚV í dagskrárstefnu sinni (bls 17, neðarlega) þar sem segir að “Ætíð verði boðið upp á tvær nýjar sjónvarpsþáttaraðir á hverju starfsári hið minnsta. Að auki er gert ráð fyrir að reglulega verði farið í gerð sjónvarpsmynda.”

Hækkuninni ætlað að auka hlutfall hvers styrks, ekki til fjölgunar verkefna

Í samkomulaginu er hvergi minnst á fjölgun verkefna, aðeins talað um að “auka hlutfall framleiðslustyrks úr Kvikmyndasjóði af heildarframleiðslukostnaði einstakra verkefna.”

Hér er klausan um fjármögnun í samkomulaginu:

kmi-aurar-2017-2019

Og svona lítur þetta út með hækkunum milli ára:

Samkomulagið 2016-2019 - Hækkanir milli ára

Hækkun framlaga í m.kr.201720182019
Leiknar kvikmyndir45,55258,5
Heimildamyndir11,913,615,3
Leikið sjónvarpsefni12,614,416,2
SAMTALS HÆKKUN708090

Hafa þarf í huga að innan leikinna mynda er einnig veitt til stuttmynda, handritsgerðar og verkefnaþróunar. KMÍ hefur því möguleika á að hækka framlag til hvers verkefnis að einhverju leyti, auk þess að bæta í handritsstyrki og þróun. Vandséð er þó að hægt sé að fjölga verkefnum, nema þá hugsanlega smærri myndum, enda er í samkomulaginu sett “það markmið að halda áfram að styðja sérstaklega við konur og karla sem eru að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndagerð”.

Óljóst vilyrði um hækkun á seinni hluta samningstíma

Í lokaklausu samkomulagsins eru gefin vilyrði fyrir frekari hækkunum á síðari hluta samningstímans:

Fyrir liggur viljayfirlýsing dags. 26. október 2016, undirrituð af fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra um að hækka framlög á fjárlögum til Kvikmyndasjóðs á næstu árum. Í yfirlýsingunni er lýst yfir vilja til að við fjárlagagerð fyrir árin 2018 og 2019 verði veittar 125 m.kr. til Kvikmyndasjóðs Íslands, alls 250 m.kr. umfram það sem gert er ráð fyrir í samkomulagi þessu.

Því gæti svo farið að við lok samningstíma hafi sjóðurinn alls um 1.3 milljarða til umráða í stað 1.05 milljarða sem samkomulagið gerir formlega ráð fyrir.

Óvíst er hvað úr verður en fari svo verður sjóðurinn loks (að líkindum) komin í þá stærð sem samkomulag náðist um 2006. En þá verða liðin 13 ár frá því samkomulagi og gerbreytt staða í kvikmyndagreininni með tilliti til örrar þróunar á kvikmynda- og sjónvarpsmarkaði, dreifingu myndefnis sem og hlutfalls innlendrar framleiðslu í landinu andspænis hinni erlendu, sem gerist sífellt umsvifameiri.

Tekið er á þessu með óljósum hætti í samkomulaginu, þar sem stendur:

Áfram verði unnið að úfærslu markmiða samkomulagsins með samstarfi aðila þess og Kvikmyndaráðs. Hver aðili um sig getur óskað eftir því að einstök ákvæði samkomulags þessa eða samkomulagið í heild verði tekið til endurskoðunar, enda séu færð fyrir því efnisleg rök. Endurskoðun skal þá hefjast svo fljótt sem vera má.

Við blasir að sú endurskoðun þarf að hefjast núna.

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR