spot_img

[Stikla] Heimildamyndin “Brotið” frumsýnd 13. október

Haukur Sigvaldason.

Heimildamyndin Brotið eftir Hauk Sigvaldason, Stefán Loftsson og Maríu Jónsdóttur var frumsýnd í Bíó Paradís í gær. Myndin er um mannskaðaveðrið í apríl 1963 á Norðurlandi sem tók 16 mannslíf og áhrif þess á samfélagið á Dalvík.

Stiklu myndarinnar má sjá að neðan, en undir henni er birt úr umfjöllun Fréttatímans um myndina og samtal við Hauk Sigvaldason.

Úr umfjöllun Fréttatímans:

Annar hver maður í sjávarþorpum þekkir einhvern sem hefur misst vin eða ættingja á sjónum en samt er ekki talað um harminn sem því fylgir. Haukur Sigvaldason vill rjúfa þessa þögn með heimildamyndinni Brot en hann missti föður sinn þegar hann var fimm ára.

Þann 9.apríl árið 1963 gekk óveður yfir Norðurland með þeim afleiðingum að sextán sjómenn fórust, þeirra á meðal sjö frá Dalvík. Haukur Sigvaldason ákvað að gera heimildamyndina Brot um atburðinn en faðir hans var einn þeirra sem komu aldrei heim af sjónum þennan dag.

„Dagana fyrir slysið var búið að vera hið besta vorveður og það reiknaði engin með þessu því spáin gerði ekki ráð fyrir neinni veðrabreytingu. Menn voru alveg grandalausir þegar þetta veður brast á. Hitinn fór úr 10 gráðum niður í mínus ellefu gráður með stórhríð og hávaðaroki. Ég missti pabba en hann og Gunnar bróðir hans voru á Val E110 frá Dalvík sem fórst þennan dag. Þeir báðu Esjuna um aðstoð og hún kom að bátnum og fylgdi honum eftir, en þeir vildu ekki fara um borð. Veðrið hélt áfram að versna og það kom að því að það kom brot á Valinn sem fórst við hlið Esjunnar. Pabbi var á dekki og lenti í sjónum þegar brotið skall á en náðist um borð í Esjuna, þá lífvana. Hann var ekki nema tvær mínútur í sjónum en hefur bara dauðrotast á að fá bátinn yfir sig. Gunnar bróðir hans var inní stýrishúsi og sást aldrei meir.“

„Með þessari mynd langar okkur að heiðra minningu þessara sjómanna því við Íslendingar höfum gert allt of lítið af því. Okkur er tamara að tala lítið um svona slys,“ segir Haukur. Hann var nýorðinn fimm ára þegar hann missti föður sinn en man atburðina vel. „Ég man þegar ég kom fram á gang með móður minni þegar læknirinn kom og tilkynnti henni að pabbi hefði dáið. Ég man líka vel þann við viðsnúning og þær breytingar sem urðu á öllu heimilishaldi í kjölfarið. Slysið hafði líka mikil áhrif á þorpið, sjö sjómenn í blóma lífsins hurfu snögglega en það var ekki mikið verið að ræða það. Það var ekkert talað við okkur börnin og önnur börn tóku lítið tillit til þess sem hafði gerst, því þeim var ekki kennt það. Börn geta verið grimm og óvægin en það var líka tíðarandinn á þessum tíma. Fullorðna fólkið leið líka vítiskvalir vegna ástvinamissis en gat heldur ekki rætt það við nokkurn einasta mann.“

Haukur bendir á að gríðarlegur viðsnúningur hafi orðið á slysavörnum á sjó. Árið 2008 var það fyrsta í sögunni sem enginn sjómaður fórst en frá árinu 1900 til 1980 fórust um 4000 íslenskir sjómenn. „Fólk leit á þetta sem óhjákvæmilegan fórnarkostnað og fólk hafði stillt líf sitt inn á það að sjómenn kæmu kannski einn daginn ekki aftur heim. En að sjálfsögðu hafði það mótandi áhrif að missa frá sér eina af fyrirmyndum sínum í lífinu, föðurímyndina. Í þessu tilfelli fóru tveir bræður í sama slysinu og það hafði að sjálfsögðu mjög þung áhrif á alla sem tengdust fjölskyldunni. Við viljum rjúfa þessa þögn, horfast í augu við hlutina og gera fortíðina upp.“

Sjá nánar hér: Þorpið þagnaði eftir sjóslysið | Fréttatíminn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR