„Réttur 3“ sýnd á vegum Channel 4 í Bretlandi

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir í þáttaröðinni Réttur 3.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir í þáttaröðinni Réttur 3.

Breska sjónvarpsstöðin Channel 4 hefur keypt sýningarréttinn að þáttaröðinni Réttur 3 sem Baldvin Z leikstýrði. Þáttaröðin verður sýnd á sérstakri VOD rás stöðvarinnar, Walter Presents, sem sérhæfir sig í þáttaröðum á erlendum tungumálum.

Þáttaröðin hefur einnig verið seld til HBO Europe sem mun sýna hana í Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi. Sölufyrirtækið Red Arrow annast sölu á heimsvísu.

Sagafilm framleiddi þessa níu þátta röð sem sýnd var á Stöð 2 á síðasta ári. Handrit skrifuðu Andri Óttarsson og Þorleifur Örn Arnarson.

Walter Presents heitir eftir stjórnandanum Walter Iuzzolino og fór í loftið á síðasta ári. Áherslur rásarinnar snúast um þáttaraðir sem notið hafa vinsælda í sínum heimalöndum og fengið góða dóma eða verðlaun. Meðal þátta sem rásin hefur sýnt eru Deutschland 83 frá Þýskalandi, Dicte frá Danmörku og Mammon frá Noregi en allir þessir þættir hafa verið sýndir hér á landi.

Sjá nánar hér: Walter Presents Iceland’s Case | News | C21Media

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR