Morgunblaðið um “Eiðinn”: Römm er sú taug

Baltasar Kormákur í Eiðinum.
Baltasar Kormákur í Eiðinum.

Hjördís Stefánsdóttir skrifar um Eiðinn Baltasars Kormáks í Morgunblaðið og gefur myndinni fimm stjörnur. “Sjónræn umgjörð og allur frágangur myndarinnar eru frámunalega hrífandi. Kvikmyndataka, klipping, tónlist, listræn útfærsla á leikmynd, búningum og gervum og allir aðrir formlegir þættir giftast í nostursamlega gæðaheild,” segir Hjördís meðal annars í umsögn sinni.

Umsögn Hjördísar fer hér á eftir:

Allt frá því að Baltasar Kormákur steig fram með leikstjórnarfrumraun sína, 101 Reykjavík (2000), hefur hann látið mikið til sín taka í kvikmyndageiranum, jafnt hér heima sem ytra. Frami hans og frægð hefur vaxið ört og nú má segja að hann hafi áunnið sér titil heimsfrægs kvikmyndahöfundar sem státað getur af blómstrandi höfundarverki. Eiðurinn, nýjasta mynd Baltasars, sækir í stef úr mörgum fyrri verka hans. Flest þeirra eru tregafullar örlagasögur um einstæðar persónur í örvæntingarfullu kappi við tímann – hetjur sem leggja allt í sölurnar í baráttu við skelfilega glæpi, fjölskylduharmleiki og baldin náttúruöfl. Líkt og í Eiðnum var hinn fullkomni glæpur útgangspunktur A Little Trip to Heaven (2005); vá steðjar að fjölskyldu hetjunnar í Reykjavík-Rotterdam (2008) og endurgerðinni Contraband (2012); feður reyna að bjarga dætrum sínum í Mýrinni (2006) og Innhale (2010); á meðan tortímandi náttúruöfl setja sterkan svip á Djúpið (2012) og sjónvarpsþáttaröðina Ófærð (2015). Þessar frásagnir eru auk þess allar afar raunsæjar og hafa flestar sterka skírskotun í váleg samfélagsmein samtímans.

Eiðurinn er saga fjölskyldu sem fer forgörðum. Hún segir af hjartaskurðlækninum Finni (Baltasar Kormákur) sem nýtur velgengni í starfi og farsældar í einkalífinu. Á besta aldri virðist Finnur hafa allt til alls þar til hann áttar sig á að að eldri dóttir hans Anna (Hera Hilmarsdóttir) er komin á glapstigu með líf sitt. Hún er komin í neyslu og orðin ástfangin af Gretti, harðsvíruðum dópsala (Gísli Örn Garðarsson). Finnur er staðráðinn í að koma dóttur sinni aftur á réttan kjöl en finnur fljótt til smæðar sinnar og vanmáttar enda við ramman reip að draga. Finnur missir sjónar á öllu því er áður skóp líf hans og einkalífið tekur að splundrast eftir því sem örvænting hans og þráhyggja magnast. Undir lokin blindast hann af heift og leggur á ráðin um hið fullkomna morð. Þar með fótumtreður hann hornstein tilveru sinnar: Eiðinn sem hann sór þegar hann tók að starfa sem læknir um að hann myndi aðeins nota gáfur sínar og getu til að líkna sjúkum en aldrei í því skyni að valda miska eða tjóni.
Handrit myndarinnar er runnið undan rifjum leikarans Ólafs Egilssonar en það byggist að hluta á hans eigin reynslu af því að hafa horft á eftir systur sinni inn í hið fúla fen eiturlyfjanna. Hann, líkt og aðalpersónan Finnur, ætlaði að einhenda sér í vonlausa björgunaraðgerð með öllum tiltækum ráðum. Ólafur og hans fjölskylda sluppu með skrekkinn og hann áttaði sig á að það er ekki hægt að þvinga aðra til betra lífs með offorsi eða stjórnsemi, þótt ætlunin sé göfug. Saga hans og myndarinnar á erindi við áhorfendur því hún virðist vera að verða ásækið leiðarstef í íslensku samtímalífi. Í fjölmiðlum birtast sífellt tilkynningar um »týndar« unglingsstelpur og samtvinnaðar ljótar sögur af misindismönnum sem hugsanlega voru rændir barnæskunni. Allir á Íslandi virðast þekkja beint eða óbeint til svona fórnarlamba eða fjandmanna svo frásögn Eiðsins gæti virkað sem víti til varnaðar þeim sem eiga í sömu glímu og Finnur; betra væri að þeir leituðu sér hjálpar en að þeir tortímdu sér og sínum í vonlausri heift.

Römm er sú taug er bindur ástríkan föður við uppkomna dóttur sína. Ást hans verður átakanleg þegar hún rennur honum úr greipum. Taugin þenst og hjartað slær óþyrmilega. Tíminn tifar og virðist vera að þrjóta. Finnur getur ekki sleppt og reynir með offorsi að endurheimta barn sitt úr helju. Flestir foreldrar myndu bugast í svona aðstæðum, á meðan aðrir, eins og Finnur, gjótharðna og fyllast stórmennskubrjálæði og fítonskrafti, tilbúnir að berjast út í rauðan dauðann og brenna allar brýr að baki sér. Breyskleiki og ást á öðrum getur orðið hverjum sem er að falli. Á ögurstundu losnar stundum mikil illska og ólga úr læðingi innra með mestu gæðablóðum. Allir geta framið hroðalega glæpi undir ákveðnum kringumstæðum – þótt fæstir séu færir um að hemja bræði sína um stundarsakir til að leggja á ráðin um hinn fullkomna glæp.

Óttar og Anna eru ungmenni á villigötum. Þau eiga sér skörðótta forsögu og hafa sína djöfla að draga en umfram allt eru þau mannleg. Ást þeirra er í vissum skilningi skaðleg en sönn engu að síður og því ekki furða að Óttar sé ragur að sleppa takinu af Önnu. Þau, ásamt Sólveigu (Margrét Bjarnadóttir), eiginkonu Finns, og yngri dótturinni Hrefnu (Auður Aradóttir), falla í skuggann af ægivaldi aga hans, bræði og þráhyggju. Sjónarhorn frásagnarinnar og framvinda myndarinnar eru lituð af ástríðu og heift hans. Þetta sést vel í átakanlegri senu eftir miðbik myndarinnar þegar Hrefna biður pabba sinn að gleyma sér ekki. Á öðrum stað spilar hún angistarfullu vögguvísuna »Sofðu unga ástin mín« á píanó á meðan foreldrarnir sitja aðskildir í huggulegri stofu heimilisins. Þögull texti vísunnar verkar eins og nístandi merkingarauki þar sem faðirinn virðist sturlaður af heift og hefndarþorsta og móðirin buguð af sorg yfir mannsmissi sínum. Hrefna og hundurinn Boli eru saklaus vitni að hildarleik aðstandenda sinna. Þau eru næm á umhverfið og stigmagnandi tilfinningaspennuna og reyna með sínum hætti að stilla til friðar.

Sjónræn umgjörð og allur frágangur myndarinnar eru frámunalega hrífandi. Kvikmyndataka, klipping, tónlist, listræn útfærsla á leikmynd, búningum og gervum og allir aðrir formlegir þættir giftast í nostursamlega gæðaheild. Stórbrotin þyrluskot sem sýna Finn reyna að hjóla úr sér bræðina eins og trylltur eldibrandur um þjóðvegi, í myrkri og fimbulkulda, umvafinn snævikysstum mosabreiðum og gráu úfnu hrauni eru vægast sagt krassandi. Það sama má segja um magnaða og nærgætna innanhússlýsingu sem virkar alúðleg, nánast kærleiksrík og í hrópandi ósamræmi við ríkjandi aðstæður þar sem spennuþrunginn og mikill tilfinningafjandi leikur lausum hala. Mýkt og harka takast á út í gegnum myndina, jafnt í sviðsmynd og búningum sem innan söguheimsins. Gler af ýmsum toga virðist notað til að skilja að þessar andstæður mýktar og hörku, kulda og hlýju, hins ytra og innra, reglu og óreiðu. Finnur þarf tíðum að kljást við spegilmynd sína í myndinni en sárast þykir honum eflaust þegar Sólveig lokar á hann og slítur tengsl þeirra með því að skýla sér bak við ógagnsæ sólgleraugu þegar laganna verðir fara að láta að sér kveða.

Myndin er byggð á sterku handriti og vandaðri persónusköpun. Persóna Finns yfirskyggir reyndar aðrar persónur en það gerir sálfræðitrylling og tilfinningaspennu myndarinnar enn ágengari. Baltasar er feiknasterkur í sinni rullu og það sama má segja um aðra leikara. Hera, Gísli Örn, Margrét og Auður ljá persónum sínum magnað líf og gera þær svo áhugaverðar að áhorfendur myndu gjarnan vilja bjarga þeim undan skugga Finns og fá að kynnast þeim betur. Aðrir aukaleikarar í hlutverkum lögreglumanna og lækna skila sínu einnig prýðilega. Myndin er raunsæ og vísar í viðvarandi samfélagsmein án þess byggja um of á sönnum atburðum. Íslenskur veruleiki og persónuleg reynsla aðstandenda er uppspretta átakanlegs skáldskapar sem getur gengið nærri og snert strengi í hjörtum áhorfenda.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR