“Hrútar” fá góðar viðtökur í bíóum víða um heim

hrútar-bandarísk plakatHrútar Gríms Hákonarsonar hefur verið sýnd víða um heim á undanförnum mánuðum og gengið vel í miðasölunni. Myndin opnaði í Svíþjóð um síðustu helgi og alls sáu hana þá 2,351 gestur.

Sænskir gagnrýnendur eru almennt mjög sáttir og gefa flestir 4 eða 5 stjörnur, sjá t.d. Dagens Nyheter hér.

Þá opnaði hún einnig í Ástralíu um síðustu helgi og er önnur vinsælasta myndin í hópi mynda með takmarkaða dreifingu (limited release), en í 10. sæti á heildarlistanum. Tekjur opnunarhelgina námu 126,551 dollurum, en heildartekjur nema alls 298,028 dollurum (rúmum 37 mkr.) að meðtöldum forsýningum. Upplýsingarnar koma frá vikulegri miðasöluskýrslu Motion Picture Distributors Association of Australia sem Klapptré hefur undir höndum, en einnig má skoða tölur á vef MPDAA hér.

Myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum í byrjun febrúar og gengur enn þar í landi, auk þess sem VOD dreifing er framundan. Samkvæmt BoxOfficeMojo hefur hún halað inn um 142 þúsund dollara (um 17,6 mkr.). Sé miðað við meðal miðaverð í Bandaríkjunum á þessu ári (8,17 dollarar) má áætla að um 17-18 þúsund manns hafi séð myndina þar í landi. Viðbrögð gagnrýnenda hafa almennt verið mjög góð eins og sjá má hér.

Í Póllandi hafa um 40 þúsund manns séð myndina samkvæmt upplýsingum á facebook síðu myndarinnar.

Klapptré sagði frá því fyrir skömmu að myndin hefði tekið inn um 180 þúsund pund í bresku miðasölunni og var því jafnframt spáð að hún myndi fara yfir 200 þúsund pund. Nýrri tölur liggja ekki fyrir. Sé miðað við seinni heildartöluna og meðal miðaverð 2015 (7,21 pund – nýrri tölur liggja ekki fyrir) má áætla að um 27-28 þúsund manns hafi séð myndina þar á bæ.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR