spot_img

Bestu (og verstu) myndirnar 2015

Rammi úr Me and Earl and the Dying Girl.
Rammi úr Me and Earl and the Dying Girl.

Árið 2015 stóðu akkúrat 15 myndir uppúr – níu  fyrir að vera frábærar og sex fyrir að vera skelfilegar. Það að bæta einni við efst eða fjórum neðst hefði hreinlega ekki verið sanngjarnt.

Listinn miðast einfaldlega miðað við hvað undirritaður sá nýtt í bíó á almanaksárinu 2015 – ýmist á Íslandi, Bretlandi eða Tékklandi og á kvikmyndahátíðum á borð við Karlovy Vary, Stockfish og Skjaldborg (öðrum hátíðum missti ég því miður af) – en ef undan eru skildar hátíðarmyndir utan alfaraleiðar og einhverjir Óskarskandídatar sem við Evrópubúar sjáum flestir ekki fyrr en á þessu ári þá hugsa ég að ég hafi náð að sjá það helsta – þótt það eigi kannski síður við um botnbaráttuna, ég hef vonandi náð að forðast það allra versta.

Bestu myndir ársins gerast í Berlín og Osló, Svíþjóð og Balkanskaganum, en flestar þó í Bandaríkjunum, enda einokar Hollywood flesta bíósali Evrópu. Það var samt sýn aðkomumanna á Bandaríkin sem var forvitnilegust þetta árið; ein leikstýran er af persneskum ættum og fædd í Englandi, annar leikstjórinn er mexíkanskur, sá þriðji frönskumælandi Kanadabúi og sá fjórði Breti. Eini leikstjórinn sem er fæddur í Bandaríkjunum er svo Alfonso Gomez-Rejon, uppalinn í Texas, rétt við landamæri Mexíkó. Sem er kannski viðeigandi á þessu mikla þjóðflutningaári.

Topp 9:

Blind – Eskil Vogt

Það er örlítið kraftaverk að sjónrænasta upplifun ársins hafi verið um blindan rithöfund – en það er um margt galdur myndarinnar, hún fjallar um ímyndunaraflið, hvernig það getur bæði verið heilandi en líka eyðileggjandi. Myndin fjallar jöfnum höndum um þörfina fyrir að tengjast og þörfina fyrir að vera einn – og hreinlega um það hvernig myndirnar á tjaldinu eiga uppruna sinn í hausnum á okkur ekki síður en í raunveruleikanum. Ég var í hálfgerðri leiðslu þegar ég gekk út úr bíósalnum og þurfti að segja öllum frá upplifuninni, þannig að það er best að halda því áfram hér.

Sicario – Denis Villeneuve

Örlítil játning: Mér fannst margverðlaunuð tónlist Jóhanns Jóhannssonar í The Theory of Everything ekkert sérstök, eiginlega hálf vemmileg. Tónlistin í Sicario er hins vegar magnaðasta kvikmyndatónlist ársins og á skilið öll verðlaun í heimi, það hvernig hún byggir hægt og örugglega upp þrúgandi spennu í magnaðri mynd um öngstræti fíkniefnastríðsins gæti verið kennsluefni í kúrsum um uppbyggingu kvikmyndatónlistar.

Villeneuve sýnir landamærabyggðir Mexíkó og Bandaríkjanna sem hálfgert helvíti á jörð og Emily Blunt er fantagóð í aðalhlutverkinu – en það er hins vegar Benicio Del Toro sem stelur myndinni og hefur sjaldan verið betri. Myndin er um margt lík hinni ágætu mynd Coen-bræðra No Country for Old Man – nema Sicario er umtalsvert raunsærri og meira sannfærandi, en samt enn martraðarkenndari.

Victoria – Sebastian Schipper

Ég var spenntur fyrir Victoriu af sömu ástæðu og flestir; heil bíómynd skotin í einni töku af Íslandsvininum Sturlu Brandth Grøvlen (norskur tökumaður sem skaut einnig Hrúta og Hjartastein). Og afrek Sturlu er vissulega mikið – en maður gleymir því fljótlega – sem er afrek út af fyrir sig. En þessi eina taka þýðir hins vegar að maður sekkur miklu dýpra ofan í söguna en ella, enda klippingar ósjaldan leið til þess að leyfa áhorfandanum að anda, minna hann á að þetta sé jú bara bíómynd.

En það sem situr í manni er stórleikur Victoriu myndarinnar, hinnar spænsku Laia Costa, sem þarf auðvitað að leika þetta allt í einni töku – og hún er nánast alltaf í mynd, til að mynda er eitt aðalatriði myndarinnar ekki sýnt, af því hún bíður í bílnum á meðan á því stendur – þessi mynd er um hennar upplifun – en hún er líka um djammið og einsemdina. Við hittum Victoriu á djamminu, eina, hún er lífsglöð og skemmtileg – en samt skelfilega einmana, eins og við komumst betur að um miðja mynd – og fylgir þessum nýju vinum sínum í einkennilegri einsemdardjammörvæntingu í svarthöl næturinnar alla leið niður í niðursveiflu morgunsins.

Birdman or (the Unexptected Virtue of Ignorance) – Alejandro González Iñárritu

Höldum áfram að tala um kvikmyndatökumenn. Mögulega er merkilegasti kvikmyndagerðarmaður nútímans ekki leikstjóri heldur tökumaðurinn Emmanuel Lubezki – sem hafði tekið Children of Men og Gravity á undan Birdman, sem var forveri Victoriu í því að skjóta eina mynd í einni töku – þótt hér sé það að vísu blekking, þökk sé nokkrum nærri ósýnilegum klippingum.

Enda eru þetta allt öðruvísi myndir, Birdman er ekki þrúgandi eins og Victoria heldur miklu frekur stútfull af leikgleði, gleði yfir því að gera bíómynd. Hún er bæði meta-uppgjör Batman-leikarans Michael Keaton við fortíðina, að hætti Being John Malkovich og JCVD, hún er um þær skrítnu manneskjur sem leikarar geta verið – en hún er samt fyrst og fremst um bíó – og þá gleði að geta stokkið fram af þaki og vita að þú lifir það af.

Sólstingur (Zvizdan) – Dalibor Matanic

Hér sjáum við þrjá serbnesk-króatíska elskendur með áratugs millibili, 1991, 2001 og 2011. Alltaf jafngamla, alltaf leikna af sömu leikurum. Engin þeirra gerist beinlínis í stríðinu – en Júgóslavíustríðin geysuðu með hléum á árunum 1991 til 1999. Það er líka sáralítið minnst á stríðið – en það er þó alltumlykjandi. Þetta þýðir að ástarsögurnar þrjár eru í raun gjörólíkar – þrátt fyrir að maður hafi á tilfinningunni að leikararnir séu í raun alltaf að túlka sömu manneskjur, bara manneskjur sem fæddust inní mismunandi aðstæður.

Við sjáum hvernig þau bæði virðast ágætlega heilsteyptir karakterar fyrir stríðið – enda hafa þau væntanlega sloppið við alvarleg trámu í æsku – en svo er hún brotin og eyðilögð árið 2001 og hann brotinn og eyðilagður árið 2011. Mótlætið bregður sér nefnilega í mismunandi líki og við brotnum ekki öll við sams konar mótlæti – hún ársins 2001 virðist hafa bugast við mótlæti stríðsins á meðan hann komst sæmilega heill í gegnum það, hann ársins 2011 virðist hins vegar hafa bugast við allt öðruvísi mótlæti, eftirköst stríðsins og foreldra sem geta ekki fyrirgefið.

Blowfly Park – Jens Östberg

Sverrir Guðnason  leikur hér uppgjafaríshokkístjörnu sem er með allt á hornum sér eftir að besti vinurinn hverfur. Það sem er samt magnaðast við myndina er ekki mannshvarfið eða fléttan í kringum það, ekki heldur hegðun aðalpersónunnar sem verður sífellt óútreiknanlegri –  nei, það sem er magnaðast er hið ósagða. Við fáum aldrei að vita hvað gerðist í fortíðinni sem gæti mögulega útskýrt hegðun aðalpersónurnar – en við sitjum uppi með alls kyns getgátur, sem þýðir að myndin situr í manni lengi á eftir.

A Girl Walks Home Alone at Night – Ana Lily Amirpour

Það var engin mynd jafn falleg og jafn töff á árinu. Leikstýran býr til svart-hvítt hvergiland Ameríku þar sem allir tala persnesku, hvergiland sem aðeins flakkarar með tvo menningarheima í blóðinu eins og hin íransk-bandaríska Amirpour geta búið til – en þeir geta gefið okkur hinum vegabréfsáritun þangað í eins og tæpa tvo  klukkutíma. Svo er tónlistin frábær, ef Sicario státaði af bestu instrumental tónlist ársins var besta sungna tónlistin í þessum vampírublús í Vonduborg.

Steve Jobs – Danny Boyle

Michael Fassbender gerði tvær atlögur að Shakespírskum karakterum þetta árið – og hann negldi það í seinna skiptið. Uppbyggingin – þar sem allri þessari dramatík er troðið í þrjú atriði – tekur af öll tvímæli um að hér sé ekki reynt að segja hefðbundna sanna ævisögu, heldur er verið að vinna með erkitýpu, ekki ólíkt því sem Shakespeare gerði með alla sína kónga. Jobs er þó ekki síður afkomandi spítustráksins Gosa, því þótt báðir séu mennskir að sjá dreymir þá báða um að vera mennskir í alvörunni. Munurinn er bara sá að það er ekki nóg fyrir Jobs, hann vill vera Gepetto líka og búa til maskínur sem skilja manneskjur.

Me and Earl and the Dying Girl – Alfonso Gomez-Rejon

Sundance kvikmyndahátíðin árið 2015 var hátíð unglinganna. Stærstu smellirnir voru þessi og Dope – en hvorug náði hins vegar að fóta sig almennilega í almennum bíósýningum og virðast því miður flestum gleymdar núna. Það er þó sannarlega að ósekju, eins og ég komst að þegar ég sá þær báðar sama kvöldið í bíói í Brixton. Dope er stórskemmtileg á löngum köflum – þótt nokkur óþarflega kjánaleg atriði komi í veg fyrir að hún komist á þennan lista – en Me and Earl and the Dying Girl er frábær út í gegn.

Plottið hljómar kannski ískyggilega líkt The Fault in Our Stars, sæmilegustu unglingamynd sem datt þó alltof oft í væmnisúpuna sem hún reyndi að gagnrýna – en munurinn er að þessi er miklu fyndnari, enda stunda Greg („Me“ í titlinum) og Earl það að gera stórskemmtilegar endurgerðir á helstu verkum kvikmyndasögunnar – með sérstakri áherslu á meistara Werner Herzog.

Tíunda sætið:

Ef ég væri svo neyddur  til þess að velja tíundu myndina þá gætu þessar ágætu myndir allar átt séns á góðum degi:

Fúsi, Hrútar, The Gift, Room, What We Do in the Shadows, Star Wars Episode VII: The Force Awakens, Inside Out, The Martian, Winter Sleep, Leviathan, Óli prik, While We’re Young, Hvað er svona merkilegt við það, Mad Max: Fury Road, Sacred Virgin, The Brand New Testament, Tale of Tales, Dope og The Walk.

Sex verstu myndir ársins:

Macbeth – Justin Kurzel

Ég leit aldrei jafn oft á klukkuna í bíó og á Macbeth, sem er sú flatasta og hugmyndasnauðasta Shakespeare-bíómynd sem ég hef séð. Heimurinn sem Kurzel býr til er ósannfærandi grámi og maður fékk á tilfinninguna að hann hefði skipað leikurum að tala eins og vélmenni – sem virkar alls ekki með leikrænan Shakespearskan texta. Marion Cottilard óhlýðnast þó og er fyrir vikið eina manneskjan með lífsmarki á tjaldinu.

Amy – Asif Kapadia

Skólabókardæmi um hvernig ekki á að gera heimildamynd um rokkstjörnu. Í fyrsta lagi er myndin alltof stíluð á harðsnúnustu aðdáendurna – þótt mér hafi fundist Amy flott söngkona fannst mér ég hálfutangátta í þessari tilbeiðslu sem myndir er á köflum. Það er svo ennþá verra hvernig tónninn minnir um margt á andstyggðartónin í bresku slúðurpressunni, sem myndin þykist þó gagnrýna.

The Last Witch Hunter – Breck Eisner

Upphafsatriðið í The Last Witch Hunter er í einhverjum skilningi snilld – nánar tiltekið í þeim skilningi að það er svo vont að allt sem kemur á eftir er skömminni skárra, þannig að maður labbaði út úr bíó og hugsaði; þetta var nú ekki jafn slæmt og það leit út fyrir að verða. En djöfull var það nú slæmt samt.

Goodbye to Language – Jean-Luc Godard

Stundum er nóg að vera stórt nafn. Ef maður heitir Godard virðist til dæmis nóg að henda myndavélinni í nokkra tilviljunakennda hringi og sýna það svo í bíó og ólíklegustu gagnrýnendur taka andköf, hérna er hins vegar ekkert merkilegt að gerast og réttast að segja bara Bless Godard.

Sleeping With Other People – Leslye Hedland

Grófari nútímaútgáfa af When Harry Met Sally … Það var altént  ætlunin. Raunin varð hins vegar húmorslausa og andstyggilega útgáfan af When Harry Met Sally …, indí-mynd sem trúir samt í hjartanu á allar verstu Hollywood klisjurnar.

Ricki and the Flash – Jonathan Demme

Þessi mynd á eiginlega ekkert skilið að vera hérna. Hún er ágætlega skrifuð af Diablo Cody og skemmtilega sérviskuleg um margt – en vandinn er bara að Meryl Streep einfaldlega nennir þessu ekki lengur og bíður okkur uppá slappasta leik ársins.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR