Ásdís Thoroddsen um „Veðrabrigði“: Kjarni myndarinnar er hvarf kvótans

Ásdís Thoroddsen. (Mynd: Fréttatíminn)

Ásdís Thoroddsen ræðir við Fréttatímann um nýjustu mynd sína, heimildamyndina Veðrabrigði sem nú er sýnd í Bíó Paradís í nokkra daga. Sögusviðið er Flateyri og myndin lýsir því hvernig tilfinning situr eftir í litlu sjávarþorpi þegar kvótinn er seldur í burtu.

Úr viðtalinu:

„Þegar ég fékk ég þetta verkefni í hendurnar var búið að taka upp mikið efni, sem var aðallega myndir af fólki í þorpinu við vinnu sína og nokkur viðtöl,“ segir Ásdís Thoroddsen sem frumsýndi í gær heimildamyndina Veðrabrigði. „Það voru erlendir kvikmyndagerðamenn, Þjóðverji og Bandaríkjamaður, sem byrjuðu að taka upp á Flateyri árið 2009 en þeir komu hingað til lands á höttunum eftir sögum þar sem „innflytjendavandinn“ kæmi við sögu. Þeir voru sem sagt að velta fyrir sér sambýli Íslendinga, Pólverja og Filippseyinga, og völdu til þess Flateyri. Þessir menn lentu svo í vandræðum með fjármögnun og leituðu því til íslensks framleiðanda, Hjálmtýs Heiðdals hjá Seylunni, sem gat fjármagnað verkefnið með því skilyrði að leikstjórinn væri íslenskur.“

Dramatísk atvinnusaga

„Efnið sem ég fékk í hendurnar hafði verið tekið upp á þeim tíma þegar sem fólk var enn að jafna sig á því að kvótinn hafði horfið úr þorpinu árið 2007 og óöryggið var viðvarandi. Það var verið að reyna að halda uppi atvinnustarfsemi í þorpinu og þetta kom skýrt fram í myndunum,“ segir Ásdís sem fékk frjálsar hendur með efnistök og ákvað að kjarni myndarinnar væri hvarf kvótans úr þorpinu frekar en sambýli Íslendinga og innflytjenda, enda þar allt í sómanum. „Ég fékk að móta efnið á minn eigin hátt, sem mér líkaði mjög vel. Það er dálítið eins og myndhöggvarar vinna, maður horfir á steininn, finnur hvað er inni í honum og byrjar svo að meitla,“ segir Ásdís sem bætti svo við sínum eigin upptökum. „Við fórum þangað fimm sinnum, fyrst í desember 2013 og síðast haustið 2014, og á þeim tíma var þessi dramatíska atvinnusaga þorpsins í gangi. Það var verið að reyna að rétta úr kútnum eftir þessi áföll og framvindan kemur í ljós í myndinni.“

Lýsir tilfinningunni í þorpinu

Ásdís segist ekki hafa lagt upp með að lýsa þorpinu á einhvern ákveðinn hátt heldur miðli hún því sem fyrir augu bar. „Og því miður var ástandið frekar dapurt, vegna þessa atvinnuóöryggis. Afdrif kvótahafans sem fór burt kemur til dæmis ekkert fram í myndinni. Hann á að hafa keypt meðal annars tvær blokkir í Berlín fyrir kvótapeningana og sonur hans er kominn í ferðabransann í Reykjavík. En ég fór ekki í neina rannsóknarblaðamennsku í þessari mynd heldur reyndi ég að lýsa tilfinningunni sem eftir sat. Vangaveltum fólksins í þorpinu. Það var ákveðin depurð í gangi en á hinn bóginn er alltaf fólk sem vill halda uppi góðri stemningu og vill gefa til samfélagsins, hvernig sem fer. Það sem erfiðast í þessu þorpi, eins og svo mörgum öðrum, er einhæfni atvinnulífsins. Frumatvinnugreinarnar eru til staðar en það vantar smáiðnað og nýsköpun. Það kemur fyrir einn maður í myndinni sem reynir að breyta þessu og hann hefur allar forsendur til þess, en svo kom hrunið,“ segir Ásdís sem vill annars ekki gefa of mikið uppi um framvindu sögunnar eða stemninguna í þorpinu. „Fólk verður að upplifa þetta í myndinni.“

Source: Kjarni myndarinnar er hvarf kvótans – Fréttatíminn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR