Fegurðin í myrkrinu, viðtal við Rúnar Rúnarsson

Rúnar Rúnarsson. (Mynd: Sigtryggur Ari/DV)

Rúnar Rúnarsson kvikmyndaleikstjóri ræðir Þresti, karlmennsku og fegurðina, auk ferilsins og vinnuaðferða sinna í viðtali við Kristján Guðjónsson hjá DV.

Þar segir meðal annars:

„Þessi bylgja sem er að koma upp núna í íslenskri kvikmyndagerð er að miklum hluta afsprengi stuttmyndadaga og stuttmyndasjóðs. Dagur Kári var alltaf að djöflast á stuttmyndadögum, Árni Óli, Grímur, Benni Erlings gerði fyrst tvær stuttmyndir í gegnum stuttmyndasjóð áður en hann gerði Hross í oss. Þetta er nauðsynlegt því það er svo erfitt að fjármagna bíómyndir þegar maður er að byrja. Sérstaklega á Íslandi þar sem við erum svo háð erlendu fjármagni. Maður verður að hafa eitthvað í höndunum, að geta sýnt að maður valdir því að koma sögu til skila. Ef maður getur ekki gert það á 15 mínútum getur maður bara sleppt því að reyna það á einum og hálfum,“ segir Rúnar.

Síðasti bærinn vann til yfir hundrað verðlauna á kvikmyndahátíðum og var meira að segja tilnefnd til Óskarsverðlaunanna árið 2004. Hún hefur vafalaust opnað ótal dyr. Fannst þér þú nokkuð þurfa að fara í skólann?
„Á þeim tíma var verið að þrýsta á mig að henda strax í mína fyrstu mynd í fullri lengd, en mér fannst ég ekki tilbúinn til þess. Það höfðu svo margir góðir hjálpað mér að gera Síðasta bæinn og mér fannst eins ég hefði, eins og maður segir á góðri íslensku, „overachieve-að.“ Það var eins og ég hefði komið inn af varamannabekknum í Meistaradeildinni á einhvern undarlegan hátt og meira að segja lagt upp eitt mark eða skorað. Mér fannst eins og ég hefði spilað yfir getu, þannig að ég ákvað að halda áfram í náminu,“ segir Rúnar og segist ekki sjá eftir þeirri ákvörðun.

Og síðar:

Karlmennska á krossgötum

Myndirnar þínar fjalla oftar en ekki um fólk sem upplifir breytingar á högum sínum og stendur á krossgötum – þetta eru ýmist unglingar (Smáfuglar, Þrestir) eða gamalmenni (Síðasti bærinn, Eldfjall). Hvað er það við þessi æviskeið sem fær þig til að vilja segja sögur af þeim?

Karlmenn sem eru aðeins yngri eru bæði aldir upp í þeirri menningu að þeir eigi ekki að bera tilfinningar sínar á borð, en samt er það krafa á nútímamanninn að hann sé opinn og tilfinninganæmur.

„Það sem mér finnst áhugavert í ungdóminum er þetta augnablik þegar maður tapar sakleysi sínu. Þetta er áhugaverður tími í lífi allra og þetta ástand hefur verið mér endalaus uppspretta hugmynda. Varðandi eldri kynslóðina þá kemur ákveðin þyngd í að fólk leysi sín vandamál. Þú átt ekki margar krossgötur eftir þegar þú ert kominn á aldur. Þar er kominn mjög þröngur tímarammi sem þú hefur til að bæta þitt líf, ef það er markmiðið.“

Myndirnar finnst mér hverfast um óhjákvæmilegar breytingar sem koma á tilfinningaróti hjá persónunum – hvort sem það er að vera fluttur á elliheimili í Síðasta dalnum, vera nauðfluttur til föðurins á Vestfjörðum í Þröstum eða fara á eftirlaun í Eldfjalli – en þær eiga svo erfitt með að tjá þessar tilfinningar sínar. Þarna finnst mér skapast svo mikill tregi og melankólía.

„Já, ég er líka svolítið að fást við karlmannsímyndina almennt séð. Það er ekkert séríslenskt við að karlmenn – og sérstaklega eldri karlmenn – eigi erfitt með að tjá sig. Þeir sem eru aðeins yngri eru bæði aldir upp í þeirri menningu að þeir eigi ekki að bera tilfinningar sínar á borð, en samt er það krafa á nútímamanninn að hann sé opinn og tilfinninganæmur. Það er þessum „wannabe-nútímamanni“ ekki endilega eðlislægt. En ætli þetta taki ekki þrjár kynslóðir? Eins og með lönd sem hafa verið stríðshrjáð, þar sem það tekur að lágmarki þrjár kynslóðir til að komast yfir stríðið.“

Það hafa einmitt margir bent á að þetta sé ungum íslenskum karlkyns kvikmyndaleikstjórum hugleikið. Það eru margar myndir sem eru að kljást við stirð karlmannssambönd – og oftar en ekki úti á landsbyggðinni.

„Já, já, Danir segja mjög oft sögur af framhjáhaldi og íslenskir kvikmyndagerðarmenn um karlmenn sem kunna ekki að tjá sig.“

Sjá nánar hér: Fegurðin í myrkrinu – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR