Starfsfólk RÚV gagnrýnir RÚV-skýrslu og biður um vinnufrið

RÚV loftmyndStarfsmannasamtök Ríkisútvarpsins sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem lagt er út af RÚV-skýrslunni og viðbrögðum við henni. Þar kemur meðal annars fram að starfsfólk RÚV sé langþreytt á ófaglegri umræðu og óskar eftir því að stjórnmálamenn og aðrir sýni þá sjálfsögðu kurteisi að byggja mál sitt á staðreyndum.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Skýrsluhöfundar skauta framhjá raunverulegri hagræðingu og jákvæðum viðsnúningi í rekstri RÚV ohf.

Á hverju hausti þegar vinna við fjárlagafrumvarp stendur yfir hefst sama atburðarásin þar sem þyrlað er upp moldviðri í kringum starfsemi RÚV ohf. Þeir sem vilja hag fyrirtækisins sem minnstan tala hátt og finna starfseminni og starfi okkar flest til foráttu í þeim augljósa tilgangi að stuðla að því að Alþingi skeri enn eina ferðina niður fjárveitingar til RÚV.

Mikil fækkun starfsfólks

RÚV hefur hagrætt mikið á undanförnum árum og veitir nú landsmönnum meiri þjónustu með mun færra starfsfólki og fyrir minna fjármagn en áður. Frá 2007 hefur verið hagrætt mjög mikið í rekstri RÚV og starfsmönnum meðal annars fækkað um tæplega eitt hundrað.

Andstæðingar RÚV hagræða staðreyndum

Fyrir rúmu ári gall í andstæðingum RÚV að fyrirtækið þyrfti að hagræða og ná tökum á rekstrinum. Þá var líka kallað eftir því að RÚV lækkaði skuldir. Nú, ári síðar, hefur RÚV nýlega kynnt uppgjör sem sýnir algeran viðsnúning og hallalausan rekstur. Starfsfólk hefur rýmt stóran hluta af nýtanlegu rými í Útvarpshúsinu og RÚV leigt frá sér til Reykjavíkurborgar sem skilar miklum ávinningi. Nýfrágengin sala á byggingarrétti á lóðinni við Efstaleiti mun svo leiða til mestu skuldalækkunar í sögu RÚV. Það er því óhætt að segja að markverður árangur hafi náðst. En nýtur félagið góðs af þessum góða árangri í umræðu andstæðinga RÚV? Nei, þvert á móti er eins og þeir verði bara enn ákveðnari í að fela þennan góða rekstrarárangur sem náðst hefur á undanförnum árum.

Viðsnúningur í rekstri RÚV

Staðreyndin er sú að RÚV ohf. hefur verið yfirskuldsett frá stofnun og allar stjórnir þess hafa frá upphafi bent á það. Frá stofnun RÚV ohf. hefur ríkið haldið eftir hátt í þremur milljörðum króna af útvarpsgjaldinu sem almenningur taldi sig vera að greiða til RÚV. Framlög til RÚV eru margfalt lægri en allra systurstofnananna á Norðurlöndunum og jafnvel þótt borin séu saman framlög á hvern einstakling (per capita), þá fær RÚV minna en þær flestar, þrátt fyrir fámenni þjóðarinnar. Alger viðsnúningur hefur orðið í rekstri RÚV ohf. síðustu misserin eins og ársreikningar félagsins staðfesta.

Við óskum  eftir vinnufriði

Við starfsfólkið óskum eftir því að stjórnmálamenn og aðrir sýni þá sjálfsögðu kurteisi að byggja mál sitt á staðreyndum. Starfsfólk RÚV er langþreytt á ófaglegri umræðu.

Fyrir hönd stjórnar Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins,

Gunnar Magnússon, formaður
Ragna Fossberg, gjaldkeri

Sjá hér: Starfsfólk RÚV biður um vinnufrið | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR