Kjarninn segir maðk í mysu RÚV-skýrslu

útvarpshúsið_efstaleiti1Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans leggur útaf RÚV-skýrslunni og segir svo virðast sem tilgangur hennar sé að setja af stað neikvæða umræðu um framtíð RÚV- enn eitt árið. Hann kallar jafnframt eftir vitrænni stefnumótun um framtíð RÚV.

Þórður segir niðurstöðu skýrslunnar þá að rekstur RÚV er ósjálfbær en að sú niðurstaða hafi legið fyrir árum saman.

Þ.e. stjórnendur RÚV telja sig ekki geta rekið fyrirtækið samkvæmt þeim þjónustusamningi sem er í gildi miðað við þær tekjur sem því er skammtað.

Þórður spyr ennfremur hvað sé að baki, hver hafi leyft RÚV að haga málum með þessum hætti:

Í skýrslunni kemur einnig fram, og hefur ekki verið borið til baka, að áætlanir sem RÚV vinnur eftir í dag geri ráð fyrir því að RÚV fái hærra útvarpsgjald en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi og að 3,2 milljarða króna lán vegna lífeyrisskuldbindinga hverfi úr efnahag fyrirtækisins. Stjórnendur RÚV hafa væntanlega ekki ákveðið að reka fyrirtækið með þessum hætti og sjá svo til hvort þeir myndu komast upp með það. Einhver pólitískur ráðamaður hefur sagt þeim að þeir mættu það. Og samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá því í maí er sá ráðamaður Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.

Þá segir Þórður að engin þörf hafi verið á að skipa nefnd til að komast að þessari niðurstöðu um fjármál RÚV.

Raunar er einungis liðið tæpt ár síðan að stjórn RÚV lét PwC vinna úttekt „á tilteknum atriðum er varða fjárhag Ríkisútvarpsins ohf.“. Hægt er að lesa hana hér.

Þórður er vægast sagt tortrygginn á tilgang skýrslunnar og ætlun höfundanna sem og þeirra sem skipuðu þá til verksins:

Það var einhver önnur ástæða fyrir því að setja saman þessa nefnd. Þess vegna fjallaði skýrsla nefndarinnar lika um breytingar í tækni og neytendahegðun og hvaða áhrif þær hefðu á ríkisfjölmiðilinn og hlutverk hans, þrátt fyrir að engin nefndarmanna hafi neina sýnilega sérþekkingu á fjölmiðlum.

Breytingar á fjölmiðlaumhverfi er risastórt og verðugt verkefni fyrir stjórnvöld að greina, bæði RÚV vegna og til að ramma betur inn starfsumhverfi allra fjölmiðla. Sú upplýsingabylting sem við erum að lifa er stærsta samfélagsbreyting frá iðnbyltingunni og þær leiðir sem neytendur velja til að nálgast efni hafa umpólast á örfáum árum.

Nálgun nefndarinnar á verkefnið er því miður yfirborðskennd og illa unnin. Hún tekur saman tölur um breytingar á áskriftarfjölda og áhorf og ber síðan saman rekstur RÚV við hluta af rekstri 365 miðla, stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtækis landsins. Sá samanburður er greinilega gerður á forsendum 365 þar sem stór hluti rekstrarkostnaðar fyrirtækisins (kostnaður við íþróttastöðvar þess), sem sannarlega á að falla undir framleiðslu- og dagskrárgerðarkostnað, er felldur út. Auk þess þarf RÚV að sinna ýmiskonar skilgreindri, og kostnaðarsamri efnisframleiðslu samkvæmt þjónustusamningi við ríkið, sem 365 þarf ekki að gera.

Og í kjölfarið setur ritstjóri Kjarnans fram þessa greiningu:

Samandregið er því skýrslan endurtekning á þegar upplýstri fjárhagsstöðu RÚV, óvönduð greining á því fjölmiðlaumhverfi sem er við lýði hérlendis og skakkur samanburður á rekstrarkostnaði RÚV og 365 miðla. Framsetning hennar, sem er svört, er síðan sniðin að þeim pólitíska vilja sem er ríkjandi innan beggja stjórnarflokkanna um að grafa undan RÚV.

Meðal annars vegna þess að stjórnmálamennirnir eru ósáttir við fréttaflutning af sér og sínum flokkum.

Þá kallar hann eftir skýrri stefnumörkun um málefni RÚV og íslenska fjölmiðlamarkaðarins:

RÚV mun samt standa af sér þessa aðför og í ljósi þess að kosið verður 2017 verður þetta líkast til sú síðasta í bili. Það er nefnilega enginn áhugi hjá meirihluta almennings að einkavæða eða leggja niður RÚV. Og hæpið að stjórnmálamenn séu að fara að leggja í þann slag á kosningavetri.

Ósnert pólitískt tækifæri

Í ljósi þess mikla stuðnings sem rekstur ríkisfjölmiðils hefur í samfélaginu vekur athygli að ekkert stjórnmálaafl virðist sjá sér tækifæri í að marka skýra stefnu um framtíð RÚV.

Stjórnmálamenn hafa alltaf viljað fikta í RÚV sjálfum sér til framdráttar. Áður fyrr var það gert í gegnum pólitískar ráðningar og afskipti pólitísk skipaðra útvarpsráðsmanna. Eftir að sú misnotkun var ekki liðin lengur hafa stjórnmálamenn beitt fjárveitingavaldinu í staðinn.

Þessu þarf að breyta. RÚV þarf að fá skilgreint hlutverk, skilgreinda tekjustofna og óhæði frá auglýsingamarkaði. Þetta hlutverk og þessir tekjustofnar þurfa að vera skýrt skilgreindir í lögum og í kjölfarið eiga stjórnmálamenn ekki að skipta sér með neinum hætti að fyrirtækinu, svo lengi sem það heldur sér innan skilgreindra kostnaðarmarka. Það á að fá frið til að móta langtímastefnu um að sinna öflugri dagskrárgerð, menningarhlutverki og fréttaþjónustu.

Markaður mótaður af hagsmunaaðilum

Samhliða ætti stjórnmálafl að sjá tækifæri í að bjóða upp á skýra sýn um bætt starfsumhverfi allra fjölmiðla á Íslandi. Það er rík krafa á meðal almennings um aðhald fjölmiðla og viti borna lýðræðislega umræðu. Hvorugt verður að veruleika ef faglegir fjölmiðlar, þeir sem veita slíkt aðhald og bjóða upp á slíka umræðu, eiga bara að starfa á hugsjóninni einni saman.

Sjá nánar hér: Pólitík ræður fjölmiðlun | Kjarninn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR