Karl Óskarsson kvikmyndatökumaður tilnefndur til British Arrows Craft Awards fyrir auglýsingu um Arla skyr

Karl Óskarsson við tökur á Arla skyr auglýsingunni s.l. vetur.
Karl Óskarsson við tökur á Arla skyr auglýsingunni s.l. vetur.

Karl Óskarsson er tilnefndur til British Arrows Craft Awards fyrir bestu kvikmyndatöku vegna auglýsingar um Arla skyr. Um er að ræða fagverðlaunin í breskum auglýsingum fyrir sjónvarp, kvikmyndahús og vefmiðla.

Þetta er annað árið í röð sem Karl er tilnefndur til þessara virtu verðlauna. Hann hefur í hátt á þriðja áratug verið meðal fremstu tökumanna í evrópskum kvikmyndaiðnaði á sviði auglýsingagerðar, en hóf sinn feril á Íslandi á áttunda áratugnum eftir nám í London International Film School.

Karl hefur hlotið fjölmörg verðlaun fyrir kvikmyndatöku í auglýsingum eins og sjá má hér. Þá hefur hann einnig verið verðlaunaður fyrir stuttmynd Elfars Aðalsteinssonar, Sailcloth (sem meðal annars hlaut Edduverðlaunin 2013, Karl hlaut einnig tilnefningu) og hlaut kvikmyndaverðlaun Tékklands (Tékkneska ljónið) fyrir kvikmyndatöku bíómyndarinnar 3 Seasons in Hell í leikstjórn Tomas Masin árið 2010 (hann hlaut einnig tilnefningu til Edduverðlauna fyrir sömu mynd).

Auglýsingin um Arla skyrið vakti mikla athygli fyrr á árinu, en hún var tekin upp hér á landi í febrúar síðastliðnum. Leikstjóri auglýsingarinnar, Dougal Wilson, er einnig margverðlaunaður og hlaut meðal annars aðalverðlaun auglýsingahátíðarinnar í Cannes í sumar. Auglýsingin um Arla skyrið er einnig tilnefnd fyrir litgreiningu (best colorist) og leikmynd (best production design). Ásamt Karli eru tökumenn á borð við Robbie Ryan (Philomena, Fish Tank, The Angel’s Share) og Anthony Dod Mantle (127 Hours, Antichrist, Slumdog Millionaire, Sveitabrúðkaup) tilnefndir til verðlaunanna.

British Arrows Craft Awards verða afhent í London þann 23. nóvember næstkomandi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR