RÚV með leikið íslenskt efni á hverjum sunnudegi í vetur

Ólafur Darri Ólafsson fer með aðalhlutverkið í Ófærð.
Ólafur Darri Ólafsson fer með aðalhlutverkið í Ófærð.

Í fyrsta sinn í sögu sinni býður RÚV uppá leikið íslenskt efni á hverjum sunnudegi í vetur. Þarna verður að finna meðal annars þrjár leiknar þáttaraðir (auk tveggja annarra sem verða á dagskrá á öðrum tímum vikunnar) og fjölda nýrra og nýlegra íslenskra bíómynda, auk eldri mynda sem hafa verið endurbættar með stafrænni tækni.

Leiknar þáttaraðir:

Ófærð, spennusería í tíu þáttum úr smiðju Baltasars Kormáks og Rvk. Studios. Höfuðlaust lík finnst í firði við lítið sjávarþorp. Erfitt er að bera kennsl á hinn látna en nokkuð ljóst er að lát hans hefur borið að með saknæmum hætti. Á sama tíma lokast heiðin og allt verður ófært. Hugsanlega er morðinginn ennþá í bænum og kemst ekki burt. Ólafur Darri Ólafsson, Ilmur Kristjánsdóttir og Ingvar E. Sigurðsson fara með aðalhlutverkin en leikstjórn er í höndum Baltasars, Óskars Þórs Axelssonar, Baldvins Z. og Barkar Sigþórssonar. Sigurjón Kjartansson og Clive Bradley eru handritshöfundar. Þáttaröðin hefst um jólin.

Ligeglad_1920X700Ligeglad, gamanþáttaröð þar sem leikkonan og uppistandarinn Anna Svava Knútsdóttir fer í ævintýralegt ferðalag til Danmerkur með söngvaranum Helga Björnssyni og leikaranum Vigni Rafni Valþórssyni. Arnór Pálmi Arnarson og Anna Svava skrifa handrit, Arnór Pálmi leikstýrir. Hefst í mars á næsta ári.

Frímínútur, gamanþáttaröð þar sem menningarvitinn Frímann Gunnarsson kryfur samfélagsmálin eins og honum einum er lagið. Í þáttunum ræðir Frímann jafnrétti, málfrelsi, leigumarkaðinn, klámvæðingu, menntakerfið, frumskóg internetsins, landsbyggðastefnuna og kvótakerfið svo fátt eitt sé nefnt og skýrir fyrir fullt og allt. Gunnar Hansson leikur Frímann en leikstjóri er Ragnar Hansson. Þættirnir hefjast í október.

Í Stundinni okkar bjóða Gói og Brandon leikhússtjóri upp á ógleymanleg ævintýri og fræðandi skemmtun í allan vetur fyrir leikhúsrotturnar sem fylla salinn alla sunnudaga kl. 18. Umsjónarmaður og aðalleikari er Guðjón Davíð Karlsson. Bragi Hinriksson leikstýrir.

Sketsaþættirnir Drekasvæðið fara annan umgang á nýju ári. Höfundar eru þeir sömu og áður, Bragi Valdimar Skúlason og Guðmundur Pálsson ásamt Kristófer Dignus sem jafnframt leikstýrir.

Bíómyndir

Hross í oss, Hrútar, Rokland, Afinn, París norðursins og Falskur fugl eru allar á vetrardagskránni svo nýjar og nýlegar bíómyndar séu nefndar. Þá sýnir RÚV nokkrar eldri íslenskar bíómyndir sem hafa verið endurbættar með stafrænni tækni. Hrafninn flýgur, mynd Hrafns Gunnlaugssonar, sem síðast var sýnd í sjónvarpi fyrir 20 árum, verður í fyrsta sinn sýnd í nýrri, endurbættri útgáfu. Með allt á hreinu hefur loksins verið endurbætt og verður sýnd í vetur sem og Gullsandur, sem hefur ekki komið fyrir sjónir almennings síðan hún var frumsýnd í bíó 1984.

Sérstök dagskrá með myndum eftir sögum Laxness

Í desember eru 60 ár frá því að Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Af því tilefni sýnir RÚV allar kvikmyndir og þáttaraðir sem gerðar hafa verið eftir sögum hans. Þarna verða þáttaraðirnar Brekkukotsannáll og Paradísarheimt og bíómyndirnar Atómstöðin, Salka Valka, Kristnihald undir jökli og Ungfrúin góða og húsið. Í tengslum við myndirnar verða stuttir þættir með gömlum mynd- og hljóðbrotum þar sem Laxness ræðir um verk sín.

Óperan Ragnheiður

Ennfremur verður um jólaleytið sýnd upptaka RÚV af verðlaunaóperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson.

Nánari upplýsingar er að finna hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR