Viðhorf | Lögum kynjahallann

Nú þegar framundan er endurnýjun kvikmyndasamnings stjórnvalda og bransans blasir við að þar verði kveðið á um jafnvægi í styrkveitingum milli kynja. Til þess þarf ekki kynjakvóta heldur skýra stefnu sem fylgt verði eftir með gjörðum sem snúast um að jafnvægi ríki milli kynja yfir tiltekið tímabil. Um þetta á bransinn að sameinast.

Nálgun Önnu Serner hjá Sænsku kvikmyndastofnuninni er skynsamleg. Þegar hún tók við fyrir um fjórum árum var í gildi kynjakvótaplan þar sem stefnt skyldi að 40-60 skiptingu, körlum í hag. Þá var hlutfall kvenna í leikstjórastól um fjórðungur. Serner segir réttilega að slíkt plan sé della, enda ekkert til sem heitir „jafnrétti að hluta“. Um leið virðist hún gera sér grein fyrir takmörkunum kynjakvóta, þó vissulega megi færa rök fyrir þeim sem tækis til að laga ófremdarástand þegar engar aðrar leiðir virðast færar.

En hið góða er að Anna Serner hefur einmitt sýnt fram á aðrar leiðir og betri. Í staðinn fyrir kynjakvóta setur hún fram stefnu sem er nokkurnveginn á þessa leið:

  • Stefnt skal að jafnvægi milli kynja í styrkjum yfir hvert fimm ára tímabil.
  • Hlutföll geta verið breytileg í báðar áttir innan hvers árs.
  • Miða skal við jafnvægi í lykilpóstum; leikstjóra, handritshöfunda og framleiðenda.
  • Einnig hefur Serner veitt konum hærri styrki „vegna þess að þær virðast eiga í meiri erfiðleikum með að fá fé annarsstaðar frá vegna þess að fjárfestar treysta þeim ekki.”

Allt eru þetta góðar hugmyndir, síðastnefnda atriðið er sjálfsagt að skoða til tiltekins tíma meðan verið er að breyta viðhorfum.

Kostirnir við þessa stefnu sem Serner lýsir eru:

  • Hún virkar sem öflugur hvati til þeirra kvenna sem hafa af ýmsum ástæðum ekki fundið leið inn.
  • Hún sendir skýr skilaboð til framleiðslufyrirtækja um að leggja aukna áherslu á verkefni kvenna.
  • Hún gætir jafnræðis milli umsækjenda óháð kyni.
  • Hún er sveigjanleg og gefur sjóðnum þannig rými til að leggja umfram allt áherslu á gæði umsókna.
  • Hún forðast pytti kynjakvótans sem leggur meiri áherslu á kyn umsækjanda en gildi verkefnanna sem sækja um styrki.

Krafan um jafnvægi milli kynja í styrkveitingum er eðlileg og réttmæt, bæði vegna þess að brýnt er að sýnir og viðhorf beggja kynja komi fram í kvikmyndagerðinni sem og annarsstaðar í listum og menningu, en einnig vegna þess að hér er um almannafé að ræða.

Kynjahallinn sem verið hefur er óviðunandi. Vandinn virðist fyrst og fremst felast í því að konur hafa átt erfitt með að komast „inná völlinn“ ef svo má segja og þessi leið mun senda skýr skilaboð til þeirra og alls bransans um að nú fái þær sín sjálfsögðu tækifæri. Auðvelt er að benda á skjótan árangur af stefnu Serners og Sænsku kvikmyndastofnunarinnar, aðeins þrjú ár tók að ná markmiðum. Ekkert bendir til annars en að svipað gæti orðið uppá teningnum hér.

Engin ástæða er til að ætla að konur í hópi kvikmyndagerðarmanna nái ekki að koma fram með frambærilegar myndir. Þær verða auðvitað ekki allar góðar, frekar en myndir karla en eins og Dögg Mósesdóttir formaður WIFT bendir réttilega á: „Íslenska ríkið hefur nú eytt 87% af fjármagni Kvikmyndasjóðs í að gera misgóðar kvikmyndir eftir karla, má ekki nýta þetta opinbera fé í að gera misgóðar kvikmyndir eftir konur líka?“

Drífum þetta prógramm í gang og lögum þetta.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR