Sex íslenskar myndir á Nordisk Panorama

Svandís Dóra Einarsdóttir og Guðrún Gísladóttir í Tvíliðaleik eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur.
Svandís Dóra Einarsdóttir og Guðrún Gísladóttir í Tvíliðaleik eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur.

Sex íslenskar stutt- og heimildamyndir taka þátt í Nordisk Panorama sem fram fer í Malmö 18.-23. september. Þær eru Hvað er svona merkilegt við það? eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur, I Want to be Weird eftir Brynju Dögg Friðriksdóttur, The Pride of Strathmoor eftir Einar Baldvin Árnason, Þú og ég eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, Tvíliðaleikur eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttir og Zelos eftir Þórönnu Sigurðardóttur.

Hvað er svona merkilegt við það? er heimildamynd sem fjallar um um kvennaframboðin sem birtust á stjórnmálasviðinu á níunda áratug síðustu aldar í kjölfar hinna róttæku kvennabaráttu áratugarins á undan. Hvað er svona merkilegt við það? mun taka þátt í keppni heimildamynda.

I Want to be Weird er heimildamynd sem fjallar um Kitty Von-Sometime, sem er bresk listakona sem hefur verið búsett á Íslandi í sjö ár. Hún er hvað þekktust fyrir The Weird Girls Project, sem er röð verka eða myndbandsþátta þar sem konur eru í forgrunni. Hver þáttur er einstakur og byggist upp af ákveðinni hugmyndafræði. Kitty fær hóp kvenna með sér í hvern þátt en markmið verkanna er meðal annars að styrkja sjálfstraust og líkamsímynd kvenna og hvetja þær til að sleppa fram af sér beislinu. I Want to be Weird tekur þátt í keppni heimildamynda.

The Pride of Strathmoor er teiknuð stuttmynd sem gerist árið 1927 og fjallar um prestinn John Deitman. Í myndinni er fylgst með ofsóknum Deitman í garð þeldökkra íbúa Strathmoor í Georgíufylki og hvernig hann missir jafnt og þétt tökin á eigin geðheilsu. The Pride of Strathmoor mun taka þátt í keppni stuttmynda.

Þú og ég er stuttmynd sem fjallar um einstæða móður sem hittir mann á kaldri vetrarnóttu. Þegar hún býður honum heim til sín reynist hann ekki vera eins heillandi og hann virtist í fyrstu. Brátt ríkir upplausn á heimilinu, ung dóttir móðurinnar vaknar og hlutverkaskipti eiga sér stað milli mæðgnanna. Þú og ég tekur þátt í keppni stuttmynda.

Tvíliðaleikur er stuttmynd sem segir frá lesbíu í miðaldrakrísu sem ákveður að fylgja hjartanu og bregða út af daglegri rútínu sinni en verður fyrir vonbrigðum með ákvörðun sína. Tvíliðaleikur mun taka þátt í New Nordic Voices keppninni.

Zelos er stuttmynd sem fjallar um móður sem er gífurleg keppnismanneskja. Hún er í stöðugri keppni á öllum sviðum lífsins við gallalausa vinkonu sína og ákveður því að panta sér klón til að verða enn samkeppnishæfari. Hún sér fljótt eftir ákvörðun sinni þegar klónið sjálft reynist vera ósigrandi keppinautur. Zelos tekur þátt í New Nordic Voices keppninni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR