Tilnefningar til Menningarverðlauna DV 2016 kynntar

menningarverðlaun dv logoTilnefningar til Menningarverðlauna DV voru kynntar í dag. Bíómyndirnar Hrútar og Fúsi, heimildamyndirnar Hvað er svona merkilegt við það? og Öldin hennar og kvikmyndahúsið Bíó Paradís fá tilnefningar í flokki kvikmyndalistar.

Dómnefnd kvikmyndaverðlaunanna skipa Vera Sölvadóttir (formaður), Valur Gunnarsson og Ísold Uggadóttir. Tilnefningarnar fá eftirtaldar umsagnir þeirra:

Fúsi
Gunnar Jónsson og Ilmur Kristjánsdóttir eru eitt hjartnæmasta par íslenskrar kvikmyndasögu. Dagur Kári hefur náð fullum tökum á list sinni, þá ekki síst handritaskrifunum, og varla er feilnótu að finna. Hver sena er listilega vel skrifuð og samræðurnar eru í senn bæði sannar og skemmtilegar, og tala aldrei niður til áhorfandans heldur leiða hann áfram. Mynd sem gerir út á það sammannlega frekar en séríslenska.

Bíó Paradís – heimili kvikmyndanna
Heimili kvikmyndanna stendur svo sannarlega undir nafni. Hefur aukið breiddina í kvikmyndaúrvali hérlendis til muna undanfarin fimm ár og aldrei verið betri en nú eftir að Stockfish hátíðinni var hleypt af stokkunum. Þýskir dagar, japanskir, pólskir og rússneskir, barnasýningar og nemendafræðsla, svartir sunnudagar og íslensk klassík. Loksins fá Íslendingar að sjá það besta, og ekki bara það vinsælasta, sem sýnt er úti í heimi.

Hrútar
Áhrifamikil mynd sem fjallar um íslenskan veruleika á ljóðrænan og jafnframt raunsæislegan hátt. Leikstjóra tekst að gera erfitt viðfangsefnið bæði fallegt og mannlegt. Grímur Hákonarson sýnir hér næmni sína myndrænt sem og í vinnu sinni með leikurum myndarinnar. Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson sýna hvor um sig stórleik og túlka breyskleika mannsins á trúverðugan hátt. Grímur er sannarlega á heimavelli og hann hefur sýnt að hann á fullt erindi út í heim með þessa séríslensku mynd.

Öldin hennar
Sögu íslenskra kvenna og baráttu þeirra fyrir samfélagslegu jafnrétti eru loks gerð rækileg skil í örþáttum Hrafnhildar Gunnarsdóttur sem unnir voru í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Þættirnir hafa einstakt heimildagildi fyrir íslenska menningar-, samfélags- og stjórnmálasögu, þar sem metnaðarfull rannsóknar- og heimildavinna býr að baki.

Hvað er svona merkilegt við það?
Í þessari kraftmiklu heimildarmynd varpar Halla Kristín Einarsdóttir leikstjóri ljósi á skrautlega og gróskumikla kvennabaráttu níunda og tíunda áratugarins. Með húmor og hnyttni að vopni tryggja leikstýran Halla Kristín og framleiðandi Hrafnhildur Gunnarsdóttir, að saga íslenskra kvenna sé ekki aðeins áhugaverð, heldur einnig stórskemmtileg. Byltingarandi tímabilsins er fangaður með einstökum hætti í þessu mikilvæga innleggi inn í íslenska kvennasögu.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR