Kanadíski kvikmyndaleikstjórinn David Cronenberg verður heiðursgestur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík (RIFF) sem fer fram í tólfta sinn dagana 24. september til 4. október næstkomandi.
Cronenberg mun taka á móti heiðursverðlaunum hátíðarinnar fyrir æviframlag sitt til kvikmyndalistarinnar. Hann verður jafnframt gestur á Bransadögum RIFF og stendur fyrir meistaraspjalli sem er opið öllum. Þá mun hann ræða við upprennandi kvikmyndagerðarmenn í Reykjavík Talent Lab og einnig verða valdar myndir eftir hann sýndar á hátíðinni.
Cronenberg er einn fremsti kvikmyndaleikstjóri samtímans og hefur hlotið verðlaun á helstu kvikmyndahátíðum í heimi, svo sem dómnefndarverðlaun í Cannes og Silfurbjörninn í Berlín. Árið 2002 hlaut hann heiðursverðlaunin Carrosse d’O fyrir æviframlag sitt til kvikmyndalistarinnar á kvikmyndahátíðinni í Cannes.
Hann er hrollvekjumeistari sem hefur verið nefndur konungur líkamlegs hryllings eða barón blóðsins. Kvikmyndir hans ögra, fara gegn hefðbundnum frásagnarstíl og fara iðulega undir skinnið á áhorfendur. Þær fjalla oft á myrkan hátt um eðli mannsins og er líkaminn algengt umfjöllunarefni.
Á meðal kvikmynda eftir hann eru Rabid, Videodrome, Dead Ringers, Crash, Naked Lunch, A History of Violence og Eastern Promises. Ein þekktasta kvikmynd hans er The Fly frá árinu 1986 með Jeff Goldblum í ógleymanlegu hlutverki vísindamanns sem breytist í flugu.
Nýjasta kvikmynd Cronenbergs, Maps to the Stars, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í fyrra og skartar þeim Julianne Moore, Mia Wasikowska, John Cusack og Robert Pattinson. Um er að ræða fyrstu kvikmyndina sem hinn 72ja ára Cronenberg tekur upp í Bandaríkjunum.