Hrafn Jónsson: Íslenski kvikmyndaveturinn

Hrafn Jónsson kvikmyndagerðarmaður skrifar pistil í Kjarnann þar sem hann leggur útaf erindi íslenskra sjónvarpsstöðva við Íslendinga. Hann segir sjónvarpsstöðvarnar þurfa að vanda sig betur við val á efni og sérstaklega þurfi að huga að hlut kvenna.

Hrafn segir meðal annars:

Íslenskar sjónvarpsstöðvar hafa vissulega staðið sig ágætlega í að framleiða frétta- og menningarþætti en minna af því að framleiða menninguna sjálfa. Þessa stundina er ekki einn einasti leikinn íslenskur sjónvarpsþáttur á dagskrá. Ekki einn. Sú ástæða fyrir þessari menningarlegu eyðimörk sem oftast er nefnd er hversu dýrt leikið efni sé í framleiðslu. Samt er hægt að kasta mörg hundruð milljónum í fullkomlega bilað magn af einkasamningum við erlendar stöðvar svo hægt sé að sýna Glæpahneigð, Chicago Fire og House of Cards sem allir sem hafa áhuga á eru annað hvort búnir að hala niður eða streyma af Netflix – og ef að Barnaby leysir eina gátu til viðbótar þá sver ég að ég saga af mér fótinn.

Vandamálið ristir dýpra en tómi sparibaukurinn. Það hefur verið mikið gert úr uppgangi íslenskrar kvikmyndagerðar síðustu ár. Íslenska kvikmyndavorið – að hér sé að myndast hópur af einhverju hæfasta kvikmyndagerðarfólki veraldar sem hefur starfað við fjöldan allan af stórum erlendum verkefnum sem tekin hafa verið upp í faðmi einstakrar íslenskrar náttúru. Þjóðernisbrjóst okkar blæs svo út þegar við sjáum glitta í Mývatn í Game of Thrones eða Langjökul í Interstellar. Þetta er álíka góður mælikvarði á heilbrigði íslenskrar kvikmyndamenningar og að segja að íslenskt heilbrigðiskerfi sé í fínu standi af því að íslenskir læknar standi sig svo vel í að lappa upp á norska olíuverkamenn í Stavangri.

Hrafn leggur ennfremur útaf frægum pistli Friðriks Erlingssonar og segir svo:

Ég trúi því að RÚV sé mikilvægt fyrirbæri sem sé vel þess virði að vernda. En RÚV, líkt og KMÍ, verður samt að gera betur; framleiða meira, þróa meira, opna fyrir fleiri sjónarhorn. Skapa menningu – ekki bara flokka hana ofan í spólugeymslu. Ef ekki þá er hætta á að stofnunin breytist í þá tímaskekktu risaeðlu sem sumir vilja kalla hana. Ég er tilbúinn að fórna þúsund þáttum af Sturm der liebe fyrir einn leikinn íslenskan sem hefur eitthvað að segja.

En hver veit, kannski á Baltasar eftir að bjarga okkur öllum með milljarðaseríunni Ófærð. Ég vona að hún fjalli ekki bara um karlkyns rannsóknarlögreglumann á fertugsaldri sem rannsakar dularfullt morðmál í afskekktu bæjarfélagi þar sem ekki er allt sem sýnist, uppfullu af litríkum persónum með leyndarmál. Því að þá fer Friðrik Erlingsson að gráta.

Sjá nánar hér: Íslenski kvikmyndaveturinn | Kjarninn.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR