spot_img

Fjöldi viðburða á Stockfish, frítt inn

Fjöldi viðburða fer fram á Stockfish hátíðinni dagana 19. febrúar til 1. mars. Frítt er inn á alla fyrirlestra og málstofur hátíðarinnar.

Pavel Jech skólastjóri FAMU.
Pavel Jech skólastjóri FAMU.

FAMU – Pavel Jech masterclass og handritavinnustofa í Bíó Paradís

Föstudaginn 20. febrúar kl. 20:00 í Bíó Paradís

Pavel Jech skólameistari FAMU kvikmyndaskólans í Prag verður bæði með vinnustofu og fyrirlestur/masterclass á hátíðinni:

„Tíu brandarar sem munu kenna þér allt sem þú þarft að vita um handritaskrif“ er yfirskrift fyrirlesturs/masterclass hans föstudaginn 20. febrúar kl. 20:00 í samstarfi við Midpoint braut FAMU skólans. Handritavinnustofa hans verður helgina 20.-21. febrúar  og munu framleiðandi og handritshöfundur / leikstjóri með fyrstu eða aðra mynd í þróun sækja vinnustofuna og voru fjögur verkefni valin til þátttökunnar. Lögð er áhersla á að reyndir aðilar vinni með þeim sem eru skemmra á veg komin á ferlinum.  Fyrirlesturinn er opinn öllum áhugasömum um skapandi skrif.

FAMU tékkneski kvikmyndaskólinn í Prag er einn frægasti kvikmyndaskóli heims og þaðan hafa útskrifast leikstjórar á borð við Miloš Forman, Agnieszka Holland, Emir Kusturica, Věra Chytilová, Jiří Menzel, Goran Paskaljević og Jan Hřebejk – og íslenskir kvikmyndagerðarmenn á borð við Grím Hákonarson, Börk Gunnarsson, Hauk Má Helgason, Hjálmar Einarsson og Þorgeir Þorgeirsson heitinn hafa verið við skólann

Gagnrýnendamálstofa

Þriðjudaginn 24. febrúar kl. 12:00 í Bíó Paradís.

Hver er staða kvikmyndagagnrýni í dag? Er internetið bölvun eða blessun? Við fáum nokkra valinkunna gagnrýnendur til að ræða þau mál – innlenda sem og erlenda – og fáum bæði innsýn inn í störf reyndra kvikmyndarýna á borð við Peter van Bueren sem og ungra gagnrýnenda sem eru að byrja. Simran Hans kemur fyrir hönd Nisi masa, samtaka sem sjá um að hjálpa ungum gagnrýnendum og ungum kvikmyndagerðarmönnum að koma sér á framfæri.

Evrópa fjárfestir í íslenskri kvikmyndagerð

Föstudaginn 27. febrúar kl. 12.15 í Bíó Paradís.

Í janúar síðastliðnum voru liðin 25 ár síðan Íslendingar byrjuðu að taka þátt í Eurimages, kvikmyndasjóði Evrópuráðsins. Auk þess hefur Media-áætlun Evrópusambandsins verið hornsteinn í fjármögnun, þróun og dreifingu íslenskra kvikmynda og komið að stuðningi við framleiðslu á íslensku leiknu sjónvarpsefni.

Af því tilefni verður haldinn fyrirlestur þar sem Hilmar Sigurðsson, formaður ÍKSA, fer yfir sögu evrópsks fjármagns í íslensku kvikmyndaefni og hvernig Creative Europe áætlunin nýtist íslenskum kvikmyndaframleiðendum í fjármögnun sinna verka.

Uppgötvun úr fortíðinni:  Nico á Íslandi

Miðvikudaginn 25. febrúar kl 20:30 og sunnudaginn 1. mars kl. 18:00 í Bíó Paradís.

Hin ljóðræna kvikmynd Sárið inní okkur (The Inner Scar) var tekin upp í eyðimörkum hér og þar um heiminn fyrir rúmum 40 árum síðan – þar á meðal á Íslandi. Það sem meira er – hin goðsagnakennda rokkdíva Nico er þar í aðalhlutverki. Uppgötvanir úr fortíðina verða fastur liður á hátíðinni svo lengi sem fjársjóðskortin leiða okkur á rétta braut.

bouchareb-blethyn-benediktSamstarf leikstjóra og leikkonu – masterclass

Mánudaginn 23. febrúar kl 16:00 – 17:30 í Bíó Paradís.

Þau Rachid Bouchareb, leikstjóri og Brenda Blethyn, leikkona hafa unnið saman í tveimur myndum á síðasta áratug. Í bæði skiptin var hann leikstjóri og hún aðalleikkona. Þau ræða það samstarf og hvað þarf til þess að það virki í masterclass á hátíðinni. Benedikt Erlingsson stýrir umræðum.

Christine Vachon framleiðandi.
Christine Vachon framleiðandi.

Úr öskustónni á Óskarinn

Laugardaginn 28. febrúar klukkan 15:00 í Bíó Paradís.

Kvikmyndagerðarkonan Christine Vachon hefur áralanga reynslu af því að framleiða óháðar bandarískar kvikmyndir sem margar hafa sópað til sín verðlaunum, myndir eins og Still Alice, Far From Heaven og Boys Don‘t Cry. Hún mun flytja fyrirlesturinn „From Shoestrings to the Oscars“ þar sem hún fjallar um þær hindranir sem framleiðendur óháðra mynda þurfa að yfirstíga. Eftir myndina verður myndin Safe sýnd. Fyrirlesturinn er í boði Bandaríska sendiráðsins.

Sigurður Sverrir Pálsson myndar Land og syni sumarið 1979.
Sigurður Sverrir Pálsson myndar Land og syni sumarið 1979.

Bíóklassík: Sigurður Sverrir Pálsson heiðraður

Þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag 24.-26. febrúar kl. 18:00 í Bíó Paradís

Íslenski kvikmyndatökumaðurinn Sigurður Sverrir verður í brennidepli í flokknum Bíóklassík –  en þrjár myndir hans verða sýndar á hátíðinni 24.-26. febrúar; Land og synir, Tár úr steini og Kaldaljós. Sigurður Sverrir mun sjálfur ræða ferilinn og svara spurningum í lok hverrar sýningar og mun Ásgrímur Sverrisson stjórna umræðum.

Norskir kvikmyndagerðarmenn í kastljósi

Þrír norskir leikstjórar, Bent Hamer, Eskil Vogt og Unni Straume verða sérstakir gestir hátíðar og sýnd verður ein mynd eftir hvert þeirra á hátíðinni auk þess sem þau verða sjálf viðstödd sýningar mynda sinna og svara spurningum áhorfenda eftir sýningar. Sýndar verða myndirnar 1001 Grams eftir Bent Hamer, Blind eftir Eskil Vogt og REMAKE.me eftir Unni Straume. Bent og Eskil verða viðstaddir setningu Stockfish – evrópskrar kvikmyndahátíðar næstkomandi fimmtudag 19. febrúar og verða myndir þeirra sýndar 20., 21. og 24. febrúar. Unni verður viðstödd síðari hluta hátíðarinnar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR