104 innsend verk í Edduna

EddulogoFrestur til að skila inn verkum í Edduna 2015, uppskeruhátíð Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar (ÍKSA), rann út í síðustu viku. Alls voru 104 verk send inn í keppnina. Að auki voru nöfn 265 einstaklinga, sem unnu við öll þessi kvikmynda- og sjónvarpsverk, send inn í fagverðlaun Eddunnar. Gjaldgeng voru verk sem voru frumsýnd opinberlega á tímabilinu 1. janúar 2014 til 31. desember 2014.

Aukning í barnaefni

Af innsendum verkum eru sjónvarpsverk alls 69 talsins. Innsendar kvikmyndir eru níu, tólf heimildamyndir og sex stuttmyndir. Fjöldi innsendinga er svipaður og síðustu ár en þó vekur sérstaka athygli að innsendum verkum í flokkinn Barna- og unglingaefni hefur fjölgað í alls tólf, miðað við fimm verk í fyrra, og hefur aldrei verið jafn mikill.

Breytingar á starfsreglum

Tvær breytingar á starfsreglum Eddunnar voru ákveðnar á fundi Fagráðs Eddunnar í haust. Annars vegar sú að ef innsend verk í flokk eru fleiri en tuttugu, þá yrðu tilnefningarnar fimm en ef innsendingarnar væru færri en tuttugu yrðu tilnefningarnar þrjár. Áður miðaðist fjöldi tilnefninga við 10 innsendingar.

Hins vegar var ákveðið að skipta verðlaunaflokknum: Menningar- og lífsstílsþáttur upp í tvo verðlaunaflokka, þ.e. annars vegar Menningarþáttur ársins og hins vegar Lífsstílsþáttur ársins.

Tilnefningar kunngjörðar í byrjun febrúar

Fjórar forvalsnefndir taka nú til starfa við að horfa á öll innsend verk og velja þau sem tilnefnd verða í öllum 24 verðlaunaflokkum Eddunnar. Tilkynnt verður um tilnefningarnar 3. febrúar og í kjölfarið hefst kosning Akademíumeðlima á milli tilnefndra verka.

Eddan fer fram 21. febrúar

Úrslit kosningarinnar verða kynnt á Edduhátíðinni 2015 sem að þessu sinni verður haldin laugardaginn 21. febrúar í Silfurbergi í Hörpu og sýnd beint og í opinni dagskrá á Stöð 2.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR