spot_img

Benedikt við SVT: Menn ættu ekki bara að brosa þegar þeir fengju verðlaun

Benedikt Erlingsson þakkar fyrir Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2014.
Benedikt Erlingsson þakkar fyrir Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2014.

Benedikt Erlingsson, kvikmyndaleikstjóri, kvaðst standa við hvert orð í þakkarræðu sinni í viðtali við sænska ríkissjónvarpið, SVT. Menn ættu ekki bara að brosa þegar þeir fengju verðlaun. Benedikt segir að mögulega hafi hann þó eyðilagt kvöldið fyrir íslenskum stjórnmálamönnum. Þetta kemur fram á vef RÚV, en þar segir ennfremur:

Ræða Benedikts eftir að kvikmynd hans, Hross í oss, fékk kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs hefur vakið mikla athygli. Þar hvatti hann meðal annars gesti hátíðarinnar til að gefa sig á tal við íslenska ráðherra í veislunni og gagnrýna 42 prósenta niðurskurð stjórnvalda til íslenska kvikmyndaiðnaðarins. Hann sagði enn fremur að kvikmyndirnar sem gerðar væru í dag væru sagnaarfur framtíðarinnar.

Kjarninn greindi frá því að Benedikt og Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, hefðu rætt ræðuna á „vestfirsku“ eftir verðlaunahátíðina „Hann gerði athugasemdir við ræðuna mína, hann hefur jú málfrelsi eins og ég hef málfrelsi. Eru stjórnmálamenn ekki annars með harðan skráp?“

Benedikt var síðan spurður út í ræðuna í sérþætti sænska ríkisútvarpsins, SVT, um verðlaun Norðurlandaráðs. Hann var meðal inntur eftir því hvort þetta hefði ekki verið ósanngjarnt af honum í ljósi þess að íslensku stjórnmálamennirnir fengu ekki tækifæri til að svara fyrir sig. Benedikt sagði þá hafa önnur úrræði til þess – menn ættu ekki bara að brosa þegar þeir fengju verðlaun. „Menn ætluðu eftir hrun að leggja áherslu á listir, þekkingariðnað og nýsköpun en sú ríkisstjórn sem er nú við völd hefur umbylt þessu öllu. Hún vill ekki skattleggja útgerðina og ríka fólkið og fjármagna þannig menningu og þekkingu. Ríkisstjórnin skilur alveg hvernig menning virkar  – þetta snýst bara um pólitík.“

Benedikt var þá spurður hvort hann fengi stjórnmálamenn í lið með sér með því að tala svona til þeirra. „Eins og menntamálaráðherrann sagði [Illugi Gunnarsson] þá hafa allir málfrelsi þannig að ég held að þeir virði það. Og þetta verður kannski líka til þess að það fer fram umræða um þetta mál. Ég hef kannski eyðilagt veisluna fyrir stjórnmálamönnunum en þeir verða bara lifa með því. Ég trúi því að þeir þoli það alveg.“

Leikstjórinn var að lokum spurður hvaða þýðingu þessi verðlaun Norðurlandaráðs hefðu fyrir hann. „Þau hafa eiginlega bjargað lífi mínu – efnahagslega. Nú get ég fjármagnað næsta handrit.  Kvikmyndasjóði leist vel á handritið en sjóðurinn var þá tómur. Ég var því að farinn að leita mér að annarri vinnu.  Ég á þrjú börn og það er dýrt áhugamál að gera kvikmyndir. En nú hef ég fengið tækifæri, það kemur handrit og svo sjáum við til.“

(RÚV hefur nú birt leiðréttingu við fyrri frétt sína: Leiðrétting: Þátturinn var framleiddur af SVT, sænska ríkissjónvarpinu,  Um samnorræna framleiðslu er þó að ræða og er þátturinn sýndur á öllum norrænu ríkisstöðvunum. Þátturinn með Benedikt verður sýndur á RÚV næstkomandi miðvikudag klukkan 22:20.)

Benedikt svarar fyrir verðlaunaræðu á SVT | RÚV.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR