Leitað að leikurum vegna „Hjartasteins“ Guðmundar Arnars

hjartasteinn-promo-landscapeFramleiðslufyrirtækið Join Motion Pictures leitar nú að ungum leikurum fyrir kvikmyndina Hjartasteinn eftir Guðmund Arnar Guðmundsson sem áætlað er að fari í tökur í ágúst á næsta ári. Strákar á aldrinum 11-17 ára og stelpur á aldrinum 12-17 eru hvött til að sækja um en áheyrnarprufur verða haldnar í nóvember.

Áhugasömum er bent á að sækja um með því að senda 1-3 nýlegar ljósmyndir og eftirfarandi upplýsingar: fullt nafn, aldur og hæð, að auki símanúmer og nafn forráðamanns á netfangið casting@joinmotionpictures.com fyrir 15. nóvember. Nánari upplýsingar má finna á
 Facebook síðu myndarinnar þar sem hægt verður að fylgjast með verkefninu.

Hjartasteinn gerist yfir sumar í litlu sjávarþorpi á Íslandi og fjallar um sterka vináttu tveggja drengja sem eru að taka sín fyrstu skref inn í unglingsárin og uppgötva ástina. Þór er hrifinn af Betu, sætu stelpunni í þorpinu, en þorir ekki að sýna áhuga sinn. Kristján besti vinur Þórs á auðvelt með að tala við stelpur og þegar hann kemur auga á erfiðleika Þórs, ákveður hann að koma vini sínum til aðstoðar. Þegar málin þróast Þór í hag skapast óvænt spenna á milli drengjanna sem leiðir til óafturkræfra atburða.

Guððmundur Arnar Guðmundsson tekur við verðlaunum fyrir mynd sína Hvalfjörður á Hamptons hátíðinni í Bandaríkjunum 2013.
Guððmundur Arnar Guðmundsson tekur við verðlaunum fyrir mynd sína Hvalfjörður á Hamptons hátíðinni í Bandaríkjunum 2013.

Guðmundur Arnar Guðmundsson er bæði handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar. Hjartasteinn er fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd en fyrr á árinu hlaut verkefnið Warnier Posta verðlaunin á samframleiðslumarkaði Kvikmyndahátíðar Hollands og einnig hlaut Guðmundur þann heiður að vera valinn með Hjartastein í fjögurra mánaða leikstjórnarsmiðju Cannes kvikmyndahátíðarinnar. Í Hjartasteini sækir Guðmundur innblástur í sína eigin reynslu frá því að hann ólst upp að hluta í sjávarþorpi út á landi og er umhugað um að birta bíógestum á öllum aldri margslunginn reynsluheim unglinga í stórbrotnu umhverfi Íslands.

Guðmundur er þekktur fyrir stuttmyndirnar Hvalfjörður og Ártún sem unnið hafa til fjölda verðlauna á virtum hátíðum víða um heim en Hvalfjörður er t.a.m. tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðalaunanna 2014 sem veitt verða í desember næstkomandi.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR