spot_img

Viðhorf | Hnífurinn í kúnni

Friðrik Erlingsson rithöfundur og handritshöfundur.
Friðrik Erlingsson fyrrverandi handritshöfundur.

Af Vísindavefnum:

Þetta orðatiltæki er notað til að lýsa aðstæðum þar sem allt situr fast eða þar sem ágreiningsatriði hamlar frekari framgöngu einhvers. – Líkingin gæti verið dregin af slátrun kúa og vísar þá til þess er sláturhnífurinn festist.”

Að tala tæpitungulaust

Íslenska umræðuhefðin birtist í allri sinni litríku mynd í viðbrögðum við pistli mínum um íslenska sjónvarpsþáttagerð, sumir ‘fóru í manninn’ eins og sagt er, aðrir voru málefnalegir og nokkrir fögnuðu því að umræða um málefnið færi af stað.

Ég gaf mér það leyfi að tala tæpitungulaust út frá mínu sjónarhorni um verk manna, en ekki um þá sjálfa. Þeir höfundar sem hafa tekið orð mín sem persónulegri árás verða að skilja að verk þeirra eru ekki hafin yfir gagnrýni – og það voru verkin sem ég gagnrýndi – þótt slíkt hafi löngum tíðkast í íslenskri kvikmyndagerð, að kollegunum sé hlíft við því hvað hinum raunverulega finnst.

Við verðum að láta af slíkri kurteisi, því hún hamlar því sem við öll óskum eftir: framförum í íslenskri kvikmyndagerð. Ég ber ekki kala í brjósti til nokkurs manns í þessum bransa, en ég vil fá að segja það sem mér finnst um verk þeirra, engu að síður, og vænti þess sama þegar kemur að mínum verkum, ef þau verða þá einhver.

Spyrjum að leikslokum

Þó svo að gerð ‘dýrustu sjónvarpsþáttaraðar Íslandssögunnar’ sé nú í uppsiglingu, þá get ég því miður ekki orðið mjög uppnæmur yfir því að miklu sé til kostað. Það er endanleg útkoma sem öllu skiptir, þótt auðvitað sé gott, frá vissu sjónarhorni, að hagkerfið fái sitt.

Orðalagið um dýrasta ‘eitthvað’ Íslandssögunnar minnir óþægilega mikið á hallelújakórinn í kringum byggingu Kárahnjúkavirkjunar, sem átti að vera svo frábær vegna þess að framkvæmdin var svo dýr. Þetta orðalag var kokkað upp hjá PR-liðum framkvæmdarinnar til að mikla hana í augum lýðsins.

Hvort sem það er nú virkjun eða sjónvarpsþáttaröð, þá er spurt að leikslokum: Virkar hún? Geri hún það er allt gott og vel. Geri hún það hins vegar ekki, verða menn að spyrja hvað hafi farið úrskeiðis. Og því dýrari framkvæmd sem misheppnast, þeim mun harðar hlýtur maður að ganga á eftir því hvað menn hafi eiginlega verið að gera við alla þessa peninga. Fóru þeir í þyrluskot eða endurskrif á þriðja act?

Teymisvinna

Í nokkrum athugasemdum hefur sú spurning komið fram hvers vegna handritshöfundar vinni ekki meira saman í teymi að verkefnum. Allir þeir sem hafa starfað við handritsgerð vita að handritshöfundur er, því miður, ekki sérlega dýr póstur í kvikmynda- eða sjónvarpsþáttagerð. Kostnaður við handritateymi ætti ekki að sliga nokkurt framleiðslufyrirtæki hér á landi sem vill standa undir nafni, jafnvel þótt launin yrðu mannsæmandi.

Nokkur farsæl teymi handritshöfunda hafa skilað frá sér góðu efni t.d. í sketsaþáttum og nokkrum sjónvarpsþáttum. Teymisvinna með ritstjóra hefur líka farið fram í þeim handritavinnustofum sem haldnar hafa verið á vegum Samtaka kvikmyndaleikstjóra og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, þar sem allir höfundar sem þátt tóku, hafa undantekningarlaust fagnað því að fá tækifæri til að leggja verk sín undir kollegana og vinna um leið að þeirra verkum. Allir þátttakendur sem ég veit um hafa talið sig hafa lært gríðarlega mikið, þá einu helgi sem þessar vinnustofur hafa jafnan verið haldnar.

Er íslensk náttúra það eina sérstaka sem íslensk kvikmyndagerð getur boðið uppá?

Maður skyldi ætla að allir íslenskir handritshöfundar þekki muninn á ‘plot-driven’ sögu og ‘character-driven’ sögu. En samt eru það fyrst og fremst plottin sem eru allsráðandi, og þar að auki plott sem eru svo útþvæld sem raun ber vitni. Hvernig stendur á því?

Lítið fjármagn innanlands og erfiðleikar við að sækja erlent fjármagn til framleiðslunnar er vissulega hluti skýringarinnar, því það er eðlilegt að menn séu hræddir við að leggja fram sögu sem ekki hefur skýrt og vel þekkt plott, sem allir geta fellt sig við að fjárfesta í. ‘Maður drepur mann’ í stórborg er ekki lengur spennandi, en ‘drepi maður mann’ í hrikalegri íslenskri náttúru – er þá eitthvað nýtt og öðruvísi á ferðinni, eitthvað sem gerir erlendan meðframleiðanda spenntan fyrir þátttöku? Er íslensk náttúra þá – enn sem fyrr – það eina sérstaka sem íslensk kvikmyndagerð getur boðið uppá?

Því miður þá verður ‘maður drepur mann’ ekkert merkilegri saga þótt umhverfið sé hrikalegt. Það gildir það sama og um tæknibrellurnar; þær bæta ekki söguna.

Kunnum við bara að spila G,C,D?

Jón Kalman Stefánsson, rithöfundur, sagði í einhverju viðtali að það væri ekki efni sögunnar sem öllu máli skipti, heldur hvernig hún væri sögð. Hér stendur einmitt hnífurinn í kúnni þegar kemur að íslenskri sjónvarpsþáttagerð, þar sem plottið virðist allsráðandi og persónan aðeins hlaupagikkur þess.

Ef við yfirfærum þetta yfir á íslensku tónlistarsenuna, þá væri það eins og flestar íslenskar hljómsveitir væru að semja lög sem byggðu nær eingöngu á rokkfrasanum góðkunna, G,C,D.

Ný sögugerð

Íslenskir kvikmyndagerðarmenn verða að móta nýja sögugerð, sérstaklega fyrir sjónvarpsþætti. Nú, þegar flestir virðast kunna á plottin, er kominn tími til að snúa sér að persónunni, kominn tími til að fjölga hljómum í lagasmíðunum.

Ný sögugerð í íslenskri kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu verður að byggja á persónudrifnum sögum. En ný sögugerð kemur ekki af sjálfu sér, einhvers staðar þarf einhver að taka ákvörðun um að fylgja nýrri stefnu. Það stendur engum nær en íslenskum kvikmyndagerðarmönnum sjálfum að leggja niður fyrir sér þau drög, ræða saman opinskátt og hreinskilið um hvað mætti gera með öðrum hætti og hvað ætti alls ekki að gera. Og ekki síst, hvernig eigi að hrinda nýrri sögugerð í framkvæmd.

Í þessum efnum þarf að móta langtímastefnu að framtíðarmarkmiði. Og hið allra brýnasta er að bransinn tali saman af hreinskilni. Hver veit nema að hér á landi sé hópur handritshöfunda með áhuga á sama söguefni – án þess að vita einu sinni hver af öðrum. Hvað myndum við sjá ef þessi hópur hittist til að vinna saman að því að þróa þetta söguefni – og fengi til þess bæði frið og fjármagn?

Samvinna í stað samkeppni

Ég vil hvetja menn til samvinnu í stað samkeppni, samræðu í stað rifrildis um aukaatriði, að menn móti sér framtíðarmarkmið fyrir nýja sögugerð og hefji svo örugga vegferð að því markmiði.

Hættum þessari viðkvæmni fyrir gagnrýni; ef menn eru á annað borð sáttir við sín verk, þá ætti ekki neinu máli að skipta hvað einhverjum öðrum finnst um þau. Hins vegar gæti verið að eitthvað megi læra af gagnrýni, a.m.k. gæti þar verið um að ræða sjónarhorn sem á fullan rétt á sér, þótt menn séu ekki sammála því.

Það er ekkert fengið með því að vera á sama máli, en samræðan er hins vegar nauðsyn.

Það eru vafalaust til betri leiðir en Danska leiðin, margumtalaða, en það er hreint ekki óeðlilegt að líta til þeirra og spyrja hvort við getum lært eitthvað af þeirri vegferð sem þeir hafa svo farsællega gengið.

Sem áhugamaður um sjónvarpsþáttaraðir vil ég að íslenskt efni uppfylli lágmarkskröfur um gæði. Á meðan það er svo sjaldgæft, sem raun ber vitni, hlýt ég, sem almennur sjónvarpsáhorfandi að láta skoðun mína í ljós.

Friðrik Erlingsson
Friðrik Erlingsson
Friðrik Erlingsson er fyrrverandi handritshöfundur.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR