Zentropa kærir dönsk símafyrirtæki vegna niðurhals

Peter Aalbæk Jensen framleiðandi hjá Zentropa í Danmörku.
Peter Aalbæk Jensen framleiðandi hjá Zentropa í Danmörku.

Hinn skeleggi framleiðandi Peter Aalbæk Jensen hjá Zentropa framleiðslufyrirtækinu í Danmörku, hefur lagt fram kæru á hendur dönskum símafélögum vegna aðkomu þeirra að niðurhali kvikmynda.

Í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér og má lesa á vef Zentropa segir meðal annars að fyrirtæki hans hafi orðið fyrir ránum og að dönsk fjarskiptafyrirtæki hafi aðstoðað með því að gera þjófunum kleift að fremja verknaðinn.

Aalbæk Jensen segir að fimm myndum Zentropa hafi verið hlaðið niður allt að níu milljón sinnum á þriggja mánaða tímabili, 1. júní til 1. september 2014. Sú tala sé varlega áætluð því ekki sé hægt að fylgjast með öllu niðurhali. Þá séu sumar myndanna fáanlegar gegn greiðslu á löglegum niðurhalsvefjum en það komi ekki í veg fyrir þjófnaðinn.

Aalbæk Jensen segir einnig:

Ég ásaka einnig dönsku fjarskiptafyrirtækin um að vera þátttakendur í meðferð stolinnar vöru. Þau hafa miklar tekjur af sölu netþjónustu og eru því meðsek í dreifingu illa fengins efnis þar sem þau hafa einnig tekjur af því.

Aðkoma fjarskiptafyrirtækja að niðurhali án greiðslu er í brennipunkti hjá eigendum höfundarréttar þessi misserin, líkt og sjá má til dæmis af þessari grein Hilmars Sigurðssonar formanns SÍK, sem og umfjöllun Kjarnans um málið fyrr á árinu.

Sjá nánar hér: Zentropa politianmelder teleselskaberne.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR