spot_img

Formaður SÍK ósáttur við framlög til Kvikmyndasjóðs í fjárlagafrumvarpi

Hilmar Sigurðsson formaður SÍK.
Hilmar Sigurðsson formaður SÍK.

Hilmar Sigurðsson formaður SÍK segir um 500 milljónir vanta í Kvikmyndasjóð “til að geta gert það sem við getum talið eðlilegt framboð á íslensku efni í öllum miðlum.” Þetta kemur fram í spjalli hans við DV, sem spyr á móti hvort þjóðin hafi efni á því að vera að nota skattana sína í slíka lúxusvöru – og afhverju mega lögmál markaðarins ekki ráða í kvikmyndaiðnaðinum?

Hilmar svarar:

,,Við erum á málsvæði sem er 320 þúsund manna og þar af leiðandi er mjög lítill fjöldi mögulegra neytenda. Það er mjög dýrt að gera kvikmynd, það er risaverkefni sem tugir ef ekki hundruð manna koma að. Þetta er dýrt listform og ef að stóru Evrópulöndin, eins og Frakkland og Þýskaland, sem telja 60 til 90 milljónir manna, hafa komist að þeirri niðurstöðu að þau geta ekki gert kvikmyndir á eigin tungumáli án opinberrar þátttöku, þá hlýtur það að segja sig sjálft að við getum ekki gert það hérna heima. Jú, jú, það er auðvelt að segja að við eigum að láta markaðinn ráða en ef við viljum gera kvikmyndir á íslensku þá þarf að koma til opinbert framlag. Þá ertu komin í menninguna, tungumálið, hvað kostar okkur að halda þessu tungumáli? Þá getur þú farið að ræða um það: viljum við halda þessu tungumáli, hvers virði er tungumálið? Þá erum við komin út í þessa umræðu.“ (Sjá nánar hér: Fjárlagafrumvarpið vonbrigði fyrir kvikmyndagerðamenn – DV.)

Hilmar tjáir sig jafnframt á Facebook síðu sinni í máli og myndum.

Það er auðvelt að kalla það hækkun að skera fyrst niður um 40% (um 400 m kr.) í fyrra og hækka svo ári síðar um 100 m til að standa við samkomulag frá 2010. (Þó það nú væri!) Þessar 700 m sem voru settar í samninginn árið 2011 og birtast núna í fjárlagafrumvarpi næsta árs sem 725 m, samsvara um 815 m króna á núvirði. Við erum ekki einu sinni þar. Sjóðurinn ætti að vera um 1.200 m króna miðað við markmið og samkomulag frá 2006 við sömu ríkisstjórnaflokka og nú stjórna. Línuritið (sjá mynd hér að neðan) sýnir mjög skýrt hversu langt frá þessum markmiðum við erum. Fuss!

raunframlög kvikmyndasjóður 2006-2015

Og Hilmar bendir einnig á hvernig framlög til kvikmyndaframleiðslu sitja eftir meðan sambærilegir samkeppnissjóðir fá aukna innspýtingu:

Það er athyglisvert að skoða þróun þriggja samkeppnissjóða sem fá opinbert framlag. Það er alveg ljóst hvaða sjóður situr eftir. Ég fagna því að bæði Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður séu elfdir en er ekki eðlilegt að láta þróunina ganga álíka yfir þessa sjóði alla?

þróun samkeppnissjóða 2009-2015

Og Hilmar er hvergi hættur. Í eftirfarandi færslu ber hann saman nokkra liði sem heyra undir Mennta- og menningarmálaráðuneyti:

Það tekur á bilinu 5-7 ár að klára eitt stykki kvikmynd. Áætlanir eru gerðar til langs tíma og þá er mikilvægt að umhverfi sé stöðugt. Hér má sjá rússíbanareið Kvikmyndasjóðs á sex ára tímabili og samanburð nokkurra valinna liða undir Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

þróun framlaga 2010-2015

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR