Bíó Paradís stendur fyrir kvikmyndafræðslu fyrir börn og unglinga sex vikur í senn á hvorri önn skólaársins en sýningar eru á þriðjudögum og fimmtudögum á skólatíma. Tilgangurinn með sýningunum er að veita börnum og unglingum möguleika á að kynnast kvikmyndum sem hafa alþjóðlega gæðastimpla, eru ýmist klassískar perlur frá öllum skeiðum kvikmyndasögunnar eða eru lykilkvikmyndir sem hafa skapað sér sess innan kvikmyndasögunnar.
Á undan hverri sýningu er haldinn fyrirlestur til að auðvelda áhorfendum að greina kvikmyndina ásamt hugmyndum að ritgerðum og umsögnum barnanna um kvikmyndirnar.
,,Áhuginn hefur vaxið og kennarar eru fljótir að grípa tækifærin. Það eru tæp fjögur ár síðan átakinu var hleypt af stokkunum og margir grunnskólanemendur hafa lagt leið sína í Bíó Paradís til að fá fræðslu um kvikmyndir sem eru lykilmyndir kvikmyndasögunnar,”
segir Oddný Sen verkefnisstjóri í spjalli við Kvikmyndir.is.
,,Með þessu átaki er leitast við að nemendur fái að kynnast lykilkvikmyndaverkum, en einnig að skoða kvikmyndir í tengslum við þjóðfélagsmál, ýmis konar félagsleg vandamál, þroska og sköpun.”. segir Oddný.
Leitast verður við að skoða margvísleg temu eins og unglingsárin, tengsl nútíma kvikmynda við kvikmyndasöguna, úrvinnslu tilfinninga, félagsleg tengsl, samfélagsleg tengsl, einelti, listsköpun, sjónarhorn og uppsetningu svo fátt eitt sé nefnt.
Þegar Oddný er spurð hvort kvikmyndaáhugi barna og unglinga hafi breyst á undanförnum áratugum þá vill hún meina að svo sé ekki.
,,Vinsælustu myndirnar eru enn hasarmyndir með tæknibrellum, sem vitaskuld geta verið stórskemmtileg afþreying og vampírur eru jafn vinsælar og árið 1922. En það er ekki gott ef það er aðeins horft á slíkt gagnrýnislaust og án þess að hafa annan samanburð sem við reynum að veita í Bíó Paradís.” segir Oddný.
Hér er hægt að kynna sér grunnskólasýningar á haustönn 2014.
Hér er hægt að kynna sér dagskrá ætlaða framhaldsskólum í Bíó Paradís