Skjaldborg I: Skjaldbaka ríður asna

Nokkrir Skjaldborgargestir brugðu sér á sjóinn.
Nokkrir Skjaldborgargestir brugðu sér á sjóinn.

Skjaldborg byrjaði í fyrradag í frábæru veðri sem stöku sinnum var rofið af þokuslæðum. Ég missti samt af opnunarmyndinni út af því ég var fastur í stórkostlegu matarboði þar sem sagðar voru sögur af fyrsta dæmda íslenska dópsmyglaranum og fleira góðu fólki – þetta var raunar matarboð sem var stútfullt af efni í góðar heimildarmyndir sem bíða þess bara að vera filmaðar.

Það var raunar ágætlega í takt við hugmyndafræði heiðursgestsins Viktors Kossakovsky, hvers mynd ég var að missa af. Hann talaði um það í dag að hann skilji ekkert að Íslendingar séu ekki að gera fleiri bíómyndir – honum finnst að það þurfi helst að gera heimildarmyndir um allt fólkið sem hann hefur hitt hérna – og bara um alla Íslendinga, þeir séu nefnilega svo skrítnir og skringilegir.

En þótt ég hafi misst af Andfætlingamyndinni Vivan las Antipodas þá biðu tvær myndir Rússans bíógesta í dag. Önnur þeirra var Belovy, sem fjallar um Belovy-systkinin – tvo sérlundaða gamlingja sem örlögin hafa fært það hlutverk að búa saman á nýjan leik á efri árum. Mikhail er svona passslega leiðinleg fyllibytta sem einstöku sinnum á þó sína ljóðrænu og heimspekilegu spretti – en það er hins vegar systirin Anna sem í raun á myndina með húð og hári þar sem hún reytir að sér alþýðufróðleik og dansar við lágvært undirspil eigin raddar. Fyrir utan það að bjarga broddgelti frá heimilishundinum og dæsa yfir liðleskjunni bróður sínum.

Hin myndin var þó óneitanlega eftirminnilegri, Miðvikudagur 19.07.61. Dagsetningin er fæðingardagur Kossakovskys sjálfs – en um leið afmælisdagur 70 annarra Pétursborgarbúa. Og Kossakovsky tekur viðtal við þá alla (en auk þessara 70 fæddust 31 til viðbótar þennan dag í Pétursborg – hinir eru annað hvort látnir eða fluttir, merkilegt nokk flestir til Vladivostok eða Tsjad). Með þessu bregður hann upp forvitnilegum þverskurði af heilli borg, enda hafa þessi Miðvikudagsbörn fæðst í allar mögulegar aðstæður – en þetta er mynd um hversdagsfegurðina, enda kannski fátt hversdaglega en miðvikudagar. Það er kannski ágætt að hugsa sér sýningu af portrettljósmyndum og ímynda sér svo hvernig bíómyndin yrði – hún yrði einhvern veginn svona. Kossakovsky er ótrúlega fundvís á hverstaksfegurð sem kjarnar manneskjurnar í fáeinum römmum – fæstar aðalpersónurnar fá meira en 1-2 mínútur á tjaldinu. Vissulega dettur maður stundum út – svona rétt eins og þegar maður þvælist um í mannþröng og sumar manneskjur vekja athyglina á meðan aðrar hverfa í fjöldann.

Að tárast og fæðast

Eftirminnilegustu senurnar eru þó óneitanlega tvær fæðingarsenur. Fæðingarsenur flestra bíómynda eru oftast frekar snyrtilegar en þarna eru barnsfæðingar sýndar í sinni blóðugustu fegurð – og ég gat ekki annað en spurt Kossakovsky um það hvernig hann gat sannfært konurnar um að leyfa honum að kvikmynda svona viðkvæma lífsreynslu. „Ef þú ætlar að þykjast verða almennilegur leikstjóri þá þarftu að geta sannfært kanínu um að ríða asna. Og sannfært þau bæði um að þeim líki reynslan vel.“ Þetta svar hafði Kossakovsky eftir fyrrum lærimeistara sínum sem skammaði hann þegar hann kom afsakandi til baka án þess að hafa fengið samþykki fyrir tökunum sem hann þurfti.

En senurnar tóku líka á Kossakovsky sjálfan. Önnur senan sýnir fæðingu sem leit út fyrir að enda með barnsdauða – og þegar móðirin leit beint í augu leikstjórans og spurði hann hvernig barninu liði þá gat hann ekki svarað, myndavélin skalf og augun voru full af tárum. Í gegnum stefnumót okkar áhorfenda við leikstjórann er raunar nokkuð ljóst að tökurnar græta hann ósjaldan – og ef hann myndi vilja bæta ellefta boðorðinu við heimildamyndaboðorðin sín tíu þá gæti það verið eitthvað á þessa leið: „Ekki kvikmynda neitt sem gæti ekki grætt þig.“

Misjöfn uppskera

Heiðursgesturinn var óneitanlega í forgrunni þennan fyrsta heila dag Skjaldborgarhátíðarinnar – íslensku myndirnar munu eiga tjaldið í dag sunnudag. Það voru þó fjórar sýndar í gær.

utiadakaSú besta var líklega vegamyndin Úti að aka – þar sem rithöfundarnir Einar Kárason og Ólafur Gunnarsson slást í hóp með forleggjaranum Jóhanni Páli Valdimarssyni og bifvélavirkja nokkrum í ferð yfir Bandaríkin þver og endalöng á handónýtum Cadillac-kagga. Einhverjir kannast örugglega við um bók þeirra félaga um ferðina en Jóhann Páll súmmerar myndina raunar ágætlega upp þegar hann talar um gráa fiðringinn – þessi mynd er akkúrat það, grái fiðringurinn, karlagrobb og tattú af fáklæddum konum. Og það virkar af því það er einfaldlega tekið alla leið. Ólafur er með tattú af hinni fáklæddu Ljúdmílu á öðrum handleggnum – hann stefnir á að fá sér sambærilegt flúr á hinn handlegginn í lok ferðar. Sumsé, risastórar steikur, myndir af fáklæddum konum og kaggar – 50 ára gömul karlmennskuminni geymd í formalíni bernskudrauma. Svo er einnig forvitinilegt að velta fyrir sér þessum fyrirheitnu Bandaríkjum sem birtast í myndinni – líklega var þetta síðasta kynslóðin sem beinlínis sá Bandaríkin sem fyrirheitna landið – við sem á eftir komum sjáum Ameríku frekar einfaldlega sem fasta, heimsveldið hvers menning tröllríður öllu hvað sem okkur kann svosem að þykja um það. Myndin er þó alls ekki fullkominn og kannski er helsti galli hennar að hér vantar lengst af upp á að þeir félagar kynnist kynlegum kvistum á leiðinni – sem gefur bestu ferðasögunum lókal krydd. Það lagast þó aðeins undir lokin þegar þeir koma til Los Angeles og hitta nokkra sálufélaga – og svo er svívirðilegi bílasalinn sem seldi þeim ónýta Kadilakkinn klassísk persóna – þótt hann sjáist aldrei sjálfur.

Finnbogi Pétursson.
Finnbogi Pétursson.

Finnbogi Pétursson var hins vegar afskaplega litlaus mynd um samnefndan listamann. Við komumst aldrei nálægt persónu Finnboga í myndinni og henni tekst heldur ekki að kveikja neinn sérstakan áhuga á list hans. Finnbogi fær vissulega að tjá sig í myndinni en það er mest um tæknileg útfærsluatriði, það er helst að áhugi manns kvikni þegar maður sér hann kenna í Listaháskólanum.

Úr Börnum hafsins.
Úr Börnum hafsins.

Á eftir henni var svo sýnd Börn hafsins – mynd um tailenska sjávarsígauna (sægauni?) sem gátu veitt hvað sem er í kafi og með spjót. Myndin er vönduð í framleiðslu og sagan er stórmerkileg – en hún er kannski aðeins ofpródúseruð – og er kannski fræðslumynd frekar en heimildamynd, raddir sægaunana heyrast ekki að ráði. En það er hins vegar alveg göldrótt að sjá hvernig þeir breytast nánast í mennsk sjávardýr þegar þeir eru komnir í djúpið með spjótin sín.

Loks ber að geta myndarinnar sem við vöknuðum við (ja, sum okkar – það er oft átak að vakna fyrir morgunbíó á laugardegi), Vertíð. Hún fjallar um listahátíðarvertíðina íslensku og sýnir svipmyndir frá fjórum mismunandi íslenskum listahátíðum árið 2012. Það eru skemmtilegar senur frá öllum hátíðunum en mögulega hefði verið sniðugra að einbeita sér að einni hátíð og kafa dýpra þar, þannig að áhorfendur fengju virkilega tilfinningu fyrir hátíðinni – og raunar er eins og myndin nái ekki almennilega takti fyrr en í þriðju og fjórðu hátíðinni.

En ég er staddur á þeirri fimmtu og þótt það væri gaman að skrifa meira er ég í þessum töluðum orðum að missa af byrjuninni á strandpartíi við Sjóræningjahúsið. En svo framarlega sem það endar ekki með ósköpum verður örugglega eitthvað meira að frétta héðan úr firði heilags Patreks á morgun.

Leiðrétting 30.3.2015: Sjávarsígaunarnir í Börnum hafsins voru upphaflega sagðir filippseyskir, en þeir eru taílenskir.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR