Skjaldborg II: Lágstemmdur bíómorgun

skjaldborg-2014-blöðrur-crop

Hundrað manns kveikja í meira en fjörtíu kínverskum luktarblöðrum á strönd á Vestfjörðum á bjartri sumarnótt og horfa á þá fljúga út í fjarskann. Augnablikin verða ekkert mikið magískari en einmitt þarna, þar sem rauðar luktirnar fljúga framhjá voldugum fjöllunum og bíódrukkið fólkið horfir á, komið undir beran himinn. Strandpartí langt inní nóttina á þessari sömu vestfirsku strönd var ansi eftirminnilegt líka.

bookswithremouladeEn svo voru auðvitað allir vaknaðir í bíó á slaginu tíu þrjátíu morguninn eftir. Tja, svo framarlega sem „allir“ flokkast sem teigjanlegt hugtak. En góðu fréttirnar eru kannski þær helstar að íslensku myndirnar eru búnar að vera töluvert betri í dag en í gær. Morguninn byrjaði með Bókum með remúlaði – afskaplega sjarmerandi karakterportretti af grænlenskum bóksala og kúnnunum hans. Það er smá Tomma og Jenna stemmning í upphafi þegar við sjáum ekki saman í Gerdu framan af – myndavélin nær henni ekki upp að höfði. En fljótlega birtist hún öll og það kæmi ekki á óvart að búðin hennar, sem selur líka pylsur, ís og friggadellur, væri hjartað í smáþorpinu Tasiilaq. Gerda lítur altént miklu frekar á búðina sem samfélagsþjónustu en bisness, enda er sáralitla peninga upp úr krafsinu að hafa.

rot-vandansRót vandans: Ísland og loftslagsbreytingar var næst á dagskrá. Þetta hefði getað verið snúið efni fyrir heimildamynd – mikið af vísindum og hugmyndum og talandi hausum – en myndin leysir þetta með myndrænum og skemmtilegum hætti og nær að vera hin fínasta hugvekja. Kaldhæðinn sögumaður gefur myndinni bæði mikilvæga vigt og léttleika og myndin er gagnrýnin á síbyljuna um að umhverfisverndin sé á ábyrgð hvers og eins – þetta er nefnilega verkefni sem við þurfum að vinna saman.

valsariValsmaður fram í rauðan dauðann er byggð á Lemúrsgrein um markmann Íslandsmeistara Vals sem lést af sárum sínum eftir kappleik á fjórða áratug síðustu aldar – en var fótósjoppaður inná liðsmyndina engu að síður. Þetta er skemmtileg draugasaga og vel unnið úr því litla myndefni sem til staðar er – en merkilegt nokk hefði myndin vel mátt vera lengri (hún er bara rúmar átta mínútur) og vinna betur og meira með argentínska rammann sem henni er gefinn. Ég meina, það hefði til dæmis mátt skrifa Maradona einhvern veginn inní þetta. En það er gaman að því að Lemúrinn sé farinn að búa til bíómyndir, enda einhver skemmtilegasta vefsíða landsins og óteljandi sögur þar inni sem væru tilvaldar heimildamyndefni.

themoreyouknowthemoreyouknowSíðasta myndin fyrir hádegi var svo The More You Know, The More You Know. Myndin fjallar um erlendan gest á Djúpavogi og hugleiðingar hans um bæjarfélagið og ýmislegt annað. Myndin er ofboðslega vel tekin og er í raun essayju-mynd að hætti Chris Marker (og það má kannski að einhverju leyti segja um Valsmanninn áðurnefnda). Hugleiðingar ferðalangsins Max Lambs stýra því hverju myndavélin leitar eftir og kannski helst að maður hefði viljað að hann hefði látið hugann reika ennþá víðar.

En svo kom hádegið og þá var kominn tími á sundsprett til þess að þvo gærdaginn af sér eftir þennan lágstemmda en skemmtilega bíómorgun. Það var ennþá meira bíó eftir hádegi – en það er efni í næsta pistil.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR