Skjaldborg III: Sápukúlan

Margir halda að Skjaldborg sé heimildamyndahátíð. Svo er ekki, þetta er gott strandpartí.
Margir halda að Skjaldborg sé heimildamyndahátíð. Svo er ekki, þetta er gott strandpartí.

Þegar þið lesið þetta verður líklega komið mánudagskvöld. En núna er samt bara sunnudagshádegi hér á Skjaldborg – enda er Skjaldborg á sveiflukenndu tímabelti og þar er ennþá sunnudagshádegi þótt það sé kominn mánudagur alls staðar annars staðar.

Og eftir sunnudagshádegið var komið að síðustu fimm myndum hátíðarinnar. Ein þeirra, Salóme, vann Einarinn, hin glæsilegu áhorfendaverðlaun hátíðarinnar (úr ormétnum viði og fleiru fíneríi) – og þeirri vegsemd fylgir auðvitað líka að hún fær sérstaka grein um sig hér á Klapptré seinna í kvöld.

fjallabraedur1Um þrjár af hinum fjórum er í sjálfu sér ekki mikið að segja. Fjallabræður er fínasta mynd um samnefnda hljómsveit – en hún er líka afskaplega dæmigerð sem slík. Dass af skemmtilegri tónlist, stemmningsskot af hljómsveitarmeðlimum að segja eitthvað sniðugt og bonda. Það er gaman að horfa á hana og maður sér að þetta er gott partí. En þetta er partí sem maður er að horfa á en er ekki staddur í – það vantar galdurinn sem prýðir allra bestu tónlistarmyndirnar, þar sem maður er kominn hálfa leið í partíið þótt maður sé bara staddur í bíó.

crime-into-the-futureCrime Into the Future og Jöklarinn eiga það svo sammerkt að fjalla um afskaplega forvitnileg viðfangsefni – án þess að vera neitt sérstaklega forvitnilegar bíómyndir. Framtíðarglæpurinn sem um er rætt í fyrri myndinni er á samvisku Frakka, sem hafa lengi gert tilraunir með kjarnorkuvopn í nýlendum sínum í Pólýnesíu – og þar með sett allar framtíðarhorfur um líf á eyjunum í alvarlega hættu. En þetta lærum við mestallt á fyrstu mínútunum, restinni eyðir myndin dálítið í að endurtyggja sömu skilaboðin ofan í mann frekar jöklarinnen að kafa dýpra í söguna. Maður er búinn að ná þessu eftir kortér en svo heldur myndin bara áfram. Jöklarinn líður hins vegar helst fyrir það að aðalpersónan er löngu látinn. Sá hét Þórður frá Dagverðará og virðist hafa verið íslenska kotbóndaútgáfan af Munchausen barón – hann kann óteljandi lygasögur og sjálf ævi hans virðist jafnvel vera ein stór lygi. Samt virðist kallinn hafa verið heilsteyptari og ærlegri en flestir sambræður hans – bara á sinn hátt. En þetta litla myndefni sem til er af honum virðist ekki duga til að halda uppi heilli bíómynd. Heimildamyndagerðarmenn kunna alls konar trikk til að bregðast við skorti á myndefni þegar fjallað er um fortíðina – en staðreyndin er bara sú að sum trikkin virka og önnur ekki. Hér virka vissulega sum trikkin vel en mörg önnur falla flöt.

aumingja_plakat_2014Lokamyndin var svo Aumingja Ísland, ern eftir aldri. Þetta er í raun samstarfsverkefni fegðanna Ara Alexanders Ergis Magnússonar og Magnúsar Jónssonar, en Magnús heitinn gerði heimildamyndina Ern eftir aldri í tilefni ellefuhundrað ára afmælis Íslandsbyggðar árið 1974. Sú var afskaplega umdeild og fékkst lengi vel hvergi sýnd. Ari hefur nú tekið mynd föður síns og mixað henni saman við Aumingja Ísland, hans sýn á efnahagshrunið og bæði eftirköst þess og fyrirboða. En eftir áhorfið veit ég það helst að mig langar að sjá Ern eftir aldri í heild sinni við fyrsta tækifæri – enda eru allar senurnar úr henni hreint magnaðar, þetta er drepfyndin og skörp þjóðfélagsádeila.

Hér fáum við, sem munum mörg fyrst eftir Bryndísi Schram úr Stundinni okkar, sjá hana fara með alls konar kúnstuga tölfræði um Íslendinga en þessi gamla fegurðardrottning er nútíma fjallkona myndarinnar. Ég veit ekki hver leikur hina fjallkonuna, þessa í þjóðbúningnum, en hún hefur ýmislegt um málið að segja líka. Myndin minnir um sumt á Ge9n Hauks Más Helgasonar í því hvernig hún notfærir sér uppstillingar til þess að miðla raunveruleikanum – en annars ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þessa mynd sem ég hef aðeins séð brot af og benda ykkur frekar á mjög upplýsandi og forvitnilega grein sem birtist hér um myndina síðasta haust.

Vandamálið myndarinnar sem við sáum á Skjaldborg er hins vegar að nýju atriðin sem Ari tekur upp eru miklu misjafnari. Stundum eru þau bráðskemmtileg – sérstaklega þegar þau eiga í nokkuð beinu samtali við gömlu myndina. En sum atriðin eru tóm steypa sem ættu heima í einhverri allt annarri bíómynd – og annað gæti átt heima í þessari ef tengingarnar væru sterkari og skarpari. Myndin er alls um 80 mínútur sem stendur og var kláruð rétt fyrir hátíð – ég er ekkert frá því að það væri hægt að gera ansi mergjaða 50 mínútna mynd úr þessu efni, því stundum er minna svo sannarlega meira.

Og stundum er auðvitað fegurðin í litlu hlutunum. Eins og að vera ráðinn þjálfari í limbókeppni rétt fyrir mót. Og í því að hjálpa Viktor Kossakovsky að blása sápukúlu í skrúðgöngu á leið í lokapartíið. Svo ég tali ekki um að borða kebab í flatbrauði á tröppum félagsheimilisins í lok hátíðar, áður en maður labbar í síðasta skiptið þetta árið í gegnum vestfirska sumarnóttina heim að sofa.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR