Önnur bíómynd Hafsteins Gunnars Sigurðssonar, París norðursins, verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary sem fram fer í Tékklandi 4.-12. júlí næstkomandi.
Myndinni er svo lýst:
Hugi hefur fundið skjól frá flækjum lífsins í litlu, kyrrlátu þorpi úti á landi, sækir AA fundi, lærir portúgölsku og kann ágætlega við sig í fásinninu. Þegar hann fær símhringingu frá föður sínum sem boðar komu sína er hið einfalda líf skyndilega í uppnámi.
Fyrsta mynd Hafsteins, Á annan veg, hefur verið sýnd á yfir 50 hátíðum um allan heim og var endurgerð í Bandaríkjunum undir heitinu Prince Avalanche.
Karlovy Vary er í hópi virtustu kvikmyndahátíða heims. Í fyrra hlaut Ólafur Darri Ólafsson verðlaun þar sem besti leikarinn fyrir XL og 2007 hlaut Mýrin aðalverðlaun hátíðarinnar, Kristallshnöttinn, sem besta mynd.