„Hvalfjörður“, „Borgríki“ og „Hreint hjarta“ á dagskrá Sjónvarpsins um páskana

Séra Kristinn Friðfinsson er viðfangsefni verðlaunaheimildamyndarinnar Hreint hjarta eftir Grím Hákonarson.
Séra Kristinn Friðfinsson er viðfangsefni verðlaunaheimildamyndarinnar Hreint hjarta eftir Grím Hákonarson.

Sjónvarpið stendur sig ágætlega í að sýna íslenskar kvikmyndir yfir páskahátíðina. Klapptré hefur þegar sagt frá sjónvarpsmyndinni Ó blessuð vertu sumarsól eftir Lars Emil Árnason sem sýnd verður í tveimur hlutum á páskadag og annan í páskum. Einnig hefur verið sagt frá sýningum á heimildamyndabálknum Draumurinn um veginn eftir Erlend Sveinsson sem sýndur verður alla páskahátíðina.

Hvalfjörður, hin margverðlaunaða stuttmynd Guðmunar Arnars Guðmundssonar verður sýnd í Sjónvarpinu á skírdagskvöld.
Hvalfjörður, hin margverðlaunaða stuttmynd Guðmunar Arnars Guðmundssonar verður sýnd í Sjónvarpinu á skírdagskvöld.

Í kvöld skírdag, verður hin margverðlaunaða stuttmynd Guðmundar Arnars Guðmundssonar, Hvalfjörður, sýnd kl. 21:50. Myndin sýnir sterkt samband tveggja bræðra sem búa á litlum sveitabæ ásamt foreldrum sínum. Við skyggnumst inn í heim þeirra frá sjónarhorni yngri bróðurins og fylgjum honum í gegnum örlagaríka daga sem marka þáttaskil í lífi bræðranna. Með aðalhlutverk faraÁgúst Örn B. Wigum og Einar Jóhann Valsson. Atriði í myndinni eru ekki við hæfi ungra barna.

Borgríki, mynd Ólafs Jóhannessonar frá 2011, sýnd að kvöldi skírdags.
Borgríki, mynd Ólafs Jóhannessonar frá 2011, sýnd að kvöldi skírdags.

Þá er einnig á dagskrá í kvöld kl. 22:10 kvikmynd Ólafs Jóhannessonar, Borgríki. Þetta er reykvísk glæpasaga sem segir frá serbneskum bifvélavirkja sem missir ófætt barn sitt í árás þegar meðlimir íslensks glæpahrings ráðast inn á heimili hans. Hefndaraðgerðir hans varpa ljósi á spillingu innan íslensku lögreglunnar. Meðal leikenda eru Jonathan Pryce, Ingvar Eggert Sigurðsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir. Atriði í myndinni eru ekki við hæfi barna.

Föstudaginn langa kl. 21:05 verður sýnd heimildamynd Gríms Hákonarsonar, Hreint hjarta Myndin fjallar um Kristinn Á. Friðfinnsson, prest í Selfossprestakalli. Kristinn er litríkur persónuleiki sem þykir umdeildur í starfi á sama tíma og hann leitast við að þjónusta sóknarbörnin sem best.  Myndin vann áhorfendaverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar 2012.

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR