Þýskir kvikmyndadagar hefjast í kvöld

Zwei Leben
Juliane Köhler í Zwei Leben.

Þýskir kvikmyndadagar verða í Bíó Paradís 13.-23. mars og er það í fjórða sinn. Að þessu sinni verða á boðstólnum sex nýjar og nýlegar myndir og sem fyrri daginn þverskurður af því besta sem þýsk kvikmyndalist hefur upp á að bjóða.

Opnunarmyndin Zwei Leben (Tvö líf) var framlag þjóðverja til Óskarsverðlaunanna.Sögusviðið er Evrópa 1990 þar sem Berlínarmúrinn er nýfallinn. Katrine er stríðsbarn, alin upp í Austur Þýskalandi en hefur búið í Noregi síðustu 20 ár. Þar lifir hún hamingjusömu lífi ásamt móður sinni, eiginmanni, dóttur og barnabarni. Katrine er beðin um að vitna í máli gegn norska ríkinu fyrir hönd stríðsbarna, en hún neitar. Smám saman birtist vefur leyndarmála, þar á meðal sannleikur sem ristir djúpt. Kvikmyndin fjallar um mikilvægt og viðkvæmt málefni í norskri sögu, hvernig komið var fram við norskar konur sem áttu í ástarsambandi við þýska hermenn eftir seinni heimstyrjöldina.

Tore Tanzt eða Nothing Bad Can Happen eftir Karin Gebbe fjallar um jesúpönkara sem lendir í klóm á harðskeyttum fjölskylduföður sem lifir á hjólahýsasvæði, þar sem hann stjórnar fjölskyldunni af hörku. Gebbe hlaut verðlaun sem besti ungi leikstjórinn á kvikmyndahátíðinni í Bæheimi 2014 fyrir þessa fyrstu mynd sína.

wetlandsWetlands sló í gegn á nýliðinni Sundance hátíð. Táningurinn Helen er með líkamsvessa á heilanum og lýsir sjálfri sér sem píku heilsufræði tilraunastöð. Eftir rakstursslys á þessum heilagasta stað líkamans endar hún á sjúkrahúsi þar sem hún skautar um ganga og rifjar upp rannsóknir sínar á sviði sjálfsfróunar. Meðan á spítaladvölinni stendur heillar hún myndarlega karlhjúkku með klámfengnu tali sínu og leggur á ráðin við að koma foreldrum sínum saman á ný. Líkt og söguhetja bókarinnar sem myndin byggir á, fylgir Helen í votlendinu engum hefðbundnum reglum með glettni á lofti. Á sama tíma er þessi mynd einlægnin uppmáluð.

Ich Fühl Mich Disco (I Feel Like Disco) eftir Axel Ranisch (sem sýndi Stórar stelpur (Dicke Mädchen) á hátíðinni í fyrra) segir af Florian Herbst líður best þegar faðir hans er ekki heima. Þá getur hann dansað um húsið með móður sinni, klætt sig í klikkaða búninga og gleymt öllum sínum áhyggjum. Faðirinn Hanno Herbst veit ekki hvað hann á að gera við son sinn, sem hefur tvær vinstri hendur, allt of stóra bumbu og hefur hvorki áhuga á íþróttum né stelpum. En það er ekki það versta! Móðirin sem hafði með mýkt stjórnað heimilinu og haldið friðinn þar sem hún verndaði son sinn og eiginmann frá hvor öðrum hverfur úr lífi þeirra. Þennan hræðilega morgun hrynur spilaborgin. Faðir og sonur sitja eftir ráðalausir en finna hægt og rólega hvað þeir eiga sameiginlegt.

Forget Me Not er verðlaunuð heimildamynd eftir kvikmyndagerðarmanninn David Sieveking þar sem fylgst er með umönnun Alzheimerssjúkrar móður hans. Foreldrar Davids tóku þátt í stúdentauppreisninni á sjöunda áratugnum og lifðu eftir gildum hippatímans. Fjölskyldan þarf nú að takast á við afleiðingar sjúkdómsins og finna samstöðu á nýjan leik. Vergiss Mein Nicht vann gagnrýnendaverðlaunin á Locarno kvikmyndahátíðinni 2012.

Finsterworld er marglaga ógleymanlegt ferðalag um súrrealískt Þýskaland, þar sem áhorfandinn fylgist með ýmsum ólíkum karakterum. Lögregluþjóni sem vill bara gott knús, heimildamyndagerðakonunni Franzisku sem er óhæf um að finna áhugaverða sögu, snyrtifræðingnum Claude sem stríðir við fótablæti, Sandberg fjölskyldunni sem neitar að sitja í þýskum bíl, nemanda sem er óhugasamur um skólaferð í útrýmingarbúðir og skógarbúa sem má ekkert aumt sjá. Öll tengjast þau í landi þar sem sólin skín stanslaust og allir eru fallegir, kurteisir, njóta velgengni eða eru hamingjusamir á yfirborðinu. Stórmerkileg mynd sem tekur á djúpstæðri krísu Þýskalands í leit að nýrri sjálfsmynd. Myndin er jafnframt fyrsta leikna kvikmynd heimildamyndagerðarkonunnar Frauke Finsterwalder.

Myndirnar verða sýndar á þýsku með enskum texta. Sýningartímar verða nánar auglýstir síðar.

Nánar má fræðast um myndirnar og skoða stiklur hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR