Hagsmunafélög kvikmyndaiðnaðarins, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Samtök kvikmyndaleikstjóra og Félag kvikmyndagerðarmanna, birta í dag heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu þar sem vakin er athygli á þeim afleiðingum sem fyrirhugaður niðurskurður á framlögum til kvikmyndagerðar muni muni hafa í för með sér, þar á meðal missir um 200 starfa í greininni auk þess sem erlend fjárfesting dragist saman um mörg hundruð milljónir króna.
Í auglýsingunni segir meðal annars:
„Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 liggur fyrir að Kvikmyndasjóður verði skorinn niður um 445 m króna frá þeim 1.070 m króna sem voru áætlaðar. Árið 2010 var Kvikmyndasjóður skorinn niður um 35% frá áætlun. Kvikmyndagerðin þarf á langtíma stöðugleika að halda til áframhaldandi vaxtar. og verðmætasköpunar og öflugur samkeppnissjóður sem fjárfestir grunnframlag í íslenskum kvikmyndaverkum er aðgöngumiði að öðru fjármagni.“
Með vísun til bókar Dr. Ágústs Einarssonar, Hagræn áhrif kvikmyndalistar, er bent á að kvikmyndagerðin fimmfaldi fjárfestingu hins opinbera í meðförum sínum og skapi þannig dýrmæt störf, verðmætan gjaldeyri og greiði fjárfestinguna með ríflegri ávöxtun til baka á framleiðslutíma kvikmyndaverkanna. Hagnaður hins opinbera sé því umtalsverður af því að fjárfesta í þessari vaxandi atvinnugrein og allir fái þannig notið íslenskrar menningar á íslenskri tungu.