Hrönn Sveinsdóttir í dómnefnd Europa Cinemas á næstu Berlínarhátíð

Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastýra Bíó Paradísar.
Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastýra Bíó Paradísar.

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar, hefur verið valin í dómnefnd Europa Cinemas á næstu Berlinale – alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín. Hátíðin, sem fram fer 6. – 16. febrúar næstkomandi er einn af stærstu kvikmyndaviðburðum Evrópu og heimsins.

Europa Cinemas hefur frá árinu 2003 veitt ákveðnum kvikmyndum viðurkenningu til þess að efla kynningu, dreifingu og aðsókn á evrópskum verðlaunamyndum í kvikmyndahúsum um alla Evrópu. Viðurkennningin, sem veitt er á vegum sérstakrar dómnefndar sem skipuð er meðlimum samtakanna, fer til einnar evrópskrar kvikmyndar á fimm stærstu kvikmyndahátíðum í Evrópu: Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Berlín (Panorama), á Director’s Fortnight á kvikmyndahátíðinni í Cannes, East of the West og aðalkeppnisflokknum (Official Competition) á Karlovy Vary hátíðinni og Giornate Degli Autori á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

Verðlaunin eru veitt á mjög dýrmætu augnabliki, því stökkpallur evrópskra kvikmynda er á kvikmyndahátíðum til þess að þær öðlist viðurkenningar og athygli dreifingaraðila víðsvegar um heim.

„Þetta er frábær viðurkenning,  því það er eftir því tekið hversu mikilvægt og metnaðarfullt starf fer fram hér í Bíó Paradís. Dagskrárgerðin hér í bíóinu hefur svo sannarlega sótt í sig veðrið og hafa evrópskrar verðlaunakvikmyndir verið sýndar hér í bíónu ásamt gríðarlega öflugri sérdagskrá. Þetta er mikil stuðningsyfiryfirlýsing frá Europa Cinemas við starfsemi fyrsta og eina listræna kvikmyndahússins á Íslandi, Bíó Paradísar. Við fögnum þessu mjög, að dagskrárgerðin okkar sé að vekja athygli erlendis og að alþjóðlegir aðilar horfi til okkar í því samhengi að veita evrópskri kvikmynd sérstaka viðurkenningu á Berlínarhátíð“, segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR