„Paradís: Trú“, „To the Wonder“ og Rússneskir dagar í Bíó Paradís

Fimm nýjar rússneskar myndir verða sýndar í Bíó Paradís dagana 26. – 31. október, þar á meðal Siberia Mon Amour sem vakið hefur mikla athygli að undanförnu. Allar myndirnar verða með enskum texta. Nánari upplýsingar um myndirnar má finna hér.

Tvær nýjar myndir verða frumsýndar á föstudag; annarsvegar önnur myndin í Paradísarþríleik Ulrich Seidl, Paradís: Trú og hinsvegar nýjasta mynd Terrence Malick To the Wonder.

Paradís: Trú

Paradís: Trú fjallar um Önnu Mariu, konu á sextugsaldri sem hefur helgað líf sitt Jesú. Hún eyðir sumarfríum sínum í að boða trú, til að bjarga Austurríki og í hennar daglegu pílagrímsförum í Vínarborg, gengur hún hús úr húsi með styttu af Maríu Mey. En einn daginn, birtist eiginmaður hennar aftur í líf hennar en hann er Egypskur múslimi sem bundinn er í hjólastól, en endurkoma hans flækir líf hennar enn frekar. Myndin er önnur mynd í Paradísarþríleik austurríska leikstjórans Ulrich Seidl, en fyrsta myndin Paradís: Ást fjallar um systur Önnu Mariu sem ferðast til Kenýa sem kynlífsferðamaður. Sú mynd er enn í sýningum.

To the Wonder

To the Wonder er nýjasta mynd leikstjórans og handritshöfundarins Terrence Malick sem gerði m.a Badlands, Days of Heaven, The Thin Red Line og nú síðast The Tree of Life. Í aðalhlutverkum eru þau Ben Affleck, Olga Kurylenko, Javier Bardem og Rachel McAdams og er óhætt að segja að þau sýni öll á sér nýjar hliðar í túlkun sinni á óvenjulegum persónum við óvenjulegar aðstæður.

Hér segir frá þeim Neil og Marinu sem hittast fyrst í París og verða yfir sig ástfangin hvort af öðru. Svo fer að Neil býður Marinu að koma með sér á heimaslóðir sínar Í Oklahoma þar sem sérkennileg vandræði byrja fljótlega að láta á sér kræla. Við kynnumst prestinum Quintana sem strögglar í trúnni og þegar vinkona Neils úr fortíðinni blandast inn í málin tekur atburðarásin óvenjulega stefnu sem spurning er hvort leiði til góðs eða ills …

To the Wonder var tilnefnd til Gullna ljónsins á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR