Ragnar Bragason í viðtali: Viðtökur á Íslandi skipta mestu máli

Ragnar Bragason.
Ragnar Bragason.

Pressan birtir viðtal við Ragnar Bragason þar sem hann ræðir um Málmhaus, næstu verkefni sín og hvort Jón Gnarr snúi aftur í kvikmyndageirann eða haldi áfram í pólitíkinni. Þá kemur hann einnig inná stöðuna í íslenskri kvikmyndagerð.

Úr viðtalinu:

Hvernig er að þínu mati staðan í íslenskri kvikmyndagerð bráðum fjórum áratugum eftir að greinin varð til fyrir alvöru?

„Staðan í íslenskri kvikmyndagerð er blanda af jákvæðum og neikvæðum þáttum þessa stundina. Hið jákvæða er að það er mikill uppgangur og gerjun, við erum að stíga stór framfaraskref og bransinn hefur aldrei verið stærri. Mikið af spennandi myndum er í framleiðslu en það er skelfilegt til þess að hugsa að núverandi ríkisstjórn hyggist skera niður fjárfestingu í greininni um 42% milli ára nú um áramót.“

Gangi sá niðurskurður eftir, hverjar verða afleiðingarnar?

„Það gæti verið banahögg fyrir marga og ég óttast mikinn flótta úr greininni í framhaldinu. Það er ekki hægt að halda úti skapandi grein sem verður sífellt fyrir svona miklum sveiflum. Fjárlagafrumvarpið nýja er hreint óskiljanlegt út frá þeirri staðreynd að ríkið er að verða af miklum beinum tekjum í ríkissjóð og á næsta ári er verið að strauja yfir meira en 200 ársverk. Þetta reikningsdæmi er ekki með neinu móti hægt að láta ganga upp. Jafnframt þýðir þetta að við verðum af miklum verðmætum, bæði efnahagslegum og menningarlegum.“

Dregur úr framleiðslu á myndefni gangi áformin fram?

„Já, tilfinnanlega. Það má gera ráð fyrir að stórum verkum, kvikmyndum og sjónvarpsseríum fækki um þrjár til fjórar á árs grundvelli sem er mjög mikið á okkar litla markaði. Einnig verða færri heimildarmyndir framleiddar og nýliðun minni en fyrir vikið. Færri komast að og lítið svigrúm verður fyrir nýja listamenn, en ég trúi enn að þingið sjái að sér og hverfi frá þessum vanhugsuðu áformum,“ segir Ragnar um stöðuna framundan.

Sjá nánar hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR