spot_img

Gagnrýni | Oh Boy!

Bíó Paradís | Oh Boy!
[usr 3,5] Leikstjóri: Jan Ole Gerster
Handrit: Jan Ole Gerster
Aðalhlutverk: Tom Schilling, Marc Hosemann, Friederike Kempter
Lengd: 83 mín.
Þýskaland, 2012

Þetta er svona mynd sem manni ætti að leiðast en einhvernveginn gerist það ekki alveg.

Niko er dálítið þjakaður af tilvist sinni og dálítið að kikna undir tilgangsspurningunni sem hann klunkast áfram með eins og fótajárn. Í einn dag og eina nótt sjáum við hann sveima. Norðurland er horfið og hann á hvergi heima. Hann er hættur í námi en lifir á peningum föðurs síns, það hefur gert honum sveimið kleift því það er eiginlega ekkert að hjá honum nema leti og leiði. Rauður þráður er leitin að kaffibolla sem stöðugt gengur honum úr greipum, sem og glíma við ferkantað fólk í einhverskonar valdastöðum – þetta rímar reyndar ágætlega við þann innri vanda sem hrjáir hann; flóttann frá afstöðu til nokkurs hlutar – nema þá að koma sér í burtu sem fyrst.

Eins og ég sagði, þetta er svona mynd sem manni ætti að leiðast. Ástæðan fyrir því að það gerist ekki að ráði eru tvær.

gerster-oh boy
Jan Ole Gerster leikstjóri þakkar fyrir Lolu-verðlaunin.

Annarsvegar leikarinn sem fer með aðalhlutverkið, Tom Schilling. Hann er mest allan tímann þannig í framan að maður sér eitthvað vænlegt í honum og svo kann hann að láta mann spyrja hvað hann ætli að gera næst. Hinsvegar vel heppnuð og frekar áreynslulaus stemmning. Berlín er sögusviðið, fallega römmuð inn og lýst, í svart/hvítu, það er gert af kærleika og nostursemi.

Þetta mun vera frumraun Gerster og raunar lokaverkefni hans úr kvikmyndaskóla í Berlín. Var auk þess verðlaunuð í bak og fyrir á Lolu-verðlaun Þjóðverja sem er þeirra helsti kvikmyndaprís. Lofar góðu um framhaldið, í raun er ýmislegt áhugavert í gangi hjá nýrri kynslóð þýskra kvikmyndagerðarmanna eins og sjá mátti á Þýskum dögum í Bíó Paradís í vor, ég nefni myndir eins og Dicke Mädchen eftir Axel Ranisch og Töte mich eftir Emily Atef auk Kaptn Oscar eftir Tom Lass sem er um margt svipuð.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR