Viðhorf | Bransinn bíður fjárlaga – búist við miklum niðurskurði

kmí-rúv-logosStóra spurningin sem hangir yfir bransanum þessa dagana snýr að fjárlögum komandi árs. Verða fjárfestingar í kvikmyndagerð skornar niður? Þessum spurningum fæst svarað (að einhverju leyti) á morgun, þriðjudaginn 1. október, þegar fjárlög verða lögð fram. Orðrómur hefur verið á kreiki um niðurskurð og í því sambandi hefur heyrst að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar verði afnumin. Framlag úr fjárfestingaráætlun til kvikmyndasjóðs nam 470 milljónum króna á þessu ári og gert var ráð fyrir sömu upphæð næstu tvö ár.

Verði þetta að veruleika þýðir það um 44% niðurskurð á fjárfestingu í kvikmyndagerð, sem er mun hærra hlutfall en niðurskurðurinn varð á fyrstu árunum eftir hunið.

Þá er einnig eftir spurningin hvort klipið verði enn frekar af útvarpsgjaldinu. Það hefur auðvitað bein áhrif á bransann því auk eigin framleiðslu er RÚV uppálagt að verja 10% af þjónustutekjum sínum (útvarpsgjaldinu) til kaupa á efni frá sjálfstæðum framleiðendum.

SÍK, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, hefur tekið saman minnisblað þar sem áhrif slíks niðurskurðar eru tíunduð. Forsendur minnisblaðsins eru skýrslan „Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk“ (Ólafur Arnarson og fl. 2010) og niðurstöður úr bók Ágústar Einarssonar, „Hagræn áhrif kvikmyndalistar“ (2011, Bifröst útgáfa). Í stuttu máli segir í minnisblaðinu að beint tap ríkissjóðs yrði hátt í 200 milljónir króna af slíkum niðurskurði og að 214 ársverk myndu tapast.

Punktarnir eru hér:

Lækkun kvikmyndasjóðs um 470 m króna:

1. Um 214 ársverk hverfa úr greininni
Framlag kvikmyndasjóðs nemur 12,86% af framleiðslukostnaði 112 kvikmyndaverka skv. skýrslunni „Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk“. 470 m króna framlag þýðir því brúttó framleiðsluveltu upp á 3.655 m króna. Að frádregnu hlutfalli erlendra meðframleiðenda þýðir þetta innanlands veltu upp á 1.837 m króna. Hlutfall launakostnaðar í greininni er 72,75% skv. sömu könnun sem svara til launakostnaðar upp á 1.413 m króna. Að frádregnum 30% launatengdum kostnaði og meðallaun upp á 550.000 kr á mánuði, samsvarar þessi upphæð 214 ársverkum.
2. Hið opinbera verður af tekjum sem nemur um 650 m króna
Af launakostnaði upp á 1.837 m króna nemur tryggingagjald (7,69%) 141,3 m kr., tekjuskattur 430,1 m kr. (21,9% meðaltals skatthlutfall) eða samtals 544,4 m króna. Af veltu að frádregnum launakostnaði, samtals 688 m króna, er virðisaukaskattur varlega metin um 103 m króna (15% hlutfall). Samtals nema þessir þrír liðir 648 m króna. Ekki er tekið tillit til áhrifa á aðra hluti kvikmyndagreinarinnar eins og dreifingu, sýningar, leigur og önnur starfsemi, frekar en óbeinni og afleiddri starfsemi. Sé tekið tillit til hlutfalla þeirra skv. „Hagræn áhrif í kvikmyndagerð“ hækkar tala virðisaukaskatts umtalsvert, auk áhrifa á tekjuskatta og tryggingagjald til hækkunar.
3. Erlendar tekjur til kvikmyndaframleiðslu lækka um 505 m króna
Byggt á hlutfalli erlendra sjóða og fjárfestinga í fjármögnun á íslenskum kvikmyndaverkum skv. skýrslunni „Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk“. Erlendir sjóðir og fjárfesting námu um 14% af fjármögnun 112 íslenskra kvikmyndaverka á árunum 2006-2009. Þess utan var fjármögnun erlendra meðframleiðenda um 31% af framleiðslukostnaði verkanna, eða um 1.129 m króna.
4. Tekjutap myndast strax á framleiðslutímanum
Skýrslan „Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk“ sýnir skýrt fram á að opinbert framlag til framleiðslu kvikmyndaverka á Íslandi eru greidd til baka á framleiðslutíma verkanna og því mun niðurskurður á kvikmyndasjóði koma strax fram í greininni.
5. Framlag Kvikmyndasjóðs er aðgöngumiði að erlendu fjármagni fyrir framleiðslu á efni á íslensku.
Ekki er hægt að sækja í erlenda kvikmyndasjóði og fá erlenda meðframleiðendur án þess að fyrir hendi sé framlag frá kvikmyndasjóði og er það því „aðgöngumiði“ að því fjármagni. Samkvæmt skýrslunni „Hverjir fjármagna íslensk kvikmyndaverk“ nema þessir tveir erlendu liðir um 45% af
framleiðslukostnaði 112 íslenskra kvikmyndaverka á árunum 2006-2009.
6. Kvikmyndagreinin fimmfaldar opinbert fjármagn í meðförum framleiðenda og getur gert enn betur.
Skv. „Hagræn áhrif kvikmyndalistar“, Ágúst Einarsson, Bifröst 2011, þá getur kvikmyndagreinin unnið úr allt að 10 milljarða árlegu framlagi með áðurnefndri niðurstöðu.
7. Margfeldisáhrif starfa í kvikmyndagreininni er 2,94
Skv. skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ, 2006.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR