Gagnrýni | La grande bellezza

Með La Grande Belleza er Sorrentino óbeint að spyrja stórra spurninga, eins og hvað skiptir raunverulega máli í lífi okkar og hvaða gildi hefur listin?
Með La Grande Belleza er Sorrentino óbeint að spyrja stórra spurninga, eins og hvað skiptir raunverulega máli í lífi okkar og hvaða gildi hefur listin?

[column col=”1/2″][message_box title=”Bíó Paradís | LA GRANDE BELLEZZA” color=”blue”] [usr 4] Leikstjóri: Paolo Sorrentino
Handrit: Paolo Sorrentino
Aðalhlutverk: Toni Servillo, Carlo Verdone, Sabrina Ferilli
Lengd 142 mín.
[/message_box][/column]Ítalski leikstjórinn Paolo Sorrentino er kominn aftur til heimalands síns eftir stutta viðdvöl í Bandaríkjunum með mynd sinni This Must Be the Place. Að þessu sinni er það myndin La Grande Belleza eða Fegurðin mikla sem má í senn lýsa sem nokkurs konar óðs til Rómarborgar sem og skoðun á lífi listamanns sem endurskoðar ævi sína í ellinni. Sorrentino er hérna að vissu leyti að vitna til Federico Fellini þar sem efniviði myndarinnar mætti lýsa sem blöndu af 8 ½ (aðalpersónan, rithöfundurinn Jep Gambardella (frábærlega leikinn af Toni Servillo), er að rifja upp og eiga við konurnar í lífi sínu alveg eins og aðalpersóna myndar Fellini) og La Dolce Vita (báðar myndir lýsa að einhverju leyti partílífi hástéttarfólks í Rómarborg).

La Grande Belleza er mynd sem erfitt er að lýsa í stuttu máli þar sem hún tekur á svo miklu. Það er enginn eiginlegur söguþráður í henni heldur er hún frekar eins og röð af atriðum og hliðarsögum sem eru allar tengdar saman af aðalpersónunni. Stemningin í myndinni fer víða og myndin er hálfgerð gamanmynd í einni senu (það eru margar partísenur í myndinni sem eru vægast sagt mjög kómískar og öfgakenndar) og tregafullt drama í þeirri næstu.

Þetta er mynd sem sannarlega nýtir alla þætti kvikmyndamiðilsins til að segja sögu sína. Metnaðurinn hjá Sorrentino er gríðarlegur, þar sem hann er í raun að reyna að gera margt í einu með þessari mynd. Hann tekur hér á frægðinni, listinni, trúnni, ástinni og fleiri stórum þemum og setur þau öll í einn hrærigraut sem ná þó að mynda ótrúlega heild, þótt honum takist kannski ekki alltaf jafn vel upp.

Myndin er oft tilgerðarleg og jafnvel ruglingsleg, en tilgerðin er yfirleitt viljandi þar sem myndin fjallar á vissan hátt um tilgerð. Vert er að minnast á eftirminnilega senu þar sem ein vinkona Jep hreykir sér yfir því að hún sé nú að gera eitthvað með líf sitt, hafi skrifað margar bækur og þvíumlíkt, en Jep hraunar þá yfir hana með því að segja að allt það góða sem hún hafi gert hafi verið fjármagnað af stjórnmálaflokk og hún sé í raun alveg jafn ómerkileg og allir hinir, þar með talinn sjálfur Jep. Við erum öll jafn tilgerðarleg.

Með La Grande Belleza er Sorrentino óbeint að spyrja stórra spurninga, eins og hvað skiptir raunverulega máli í lífi okkar og hvaða gildi hefur listin? Myndina mætti kalla einhvers konar epískan hrærigraut af vangaveltum um lífið og tilveruna, listina og ástina. Hver er hin mikla fegurð; listin, ástin eða eitthvað annað? Sorrentino kemur ekki með nein endanleg svör heldur leyfir áhorfandanum að dæma.

Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson er mikill kvikmyndaunnandi og er með meistaragráðu í samanburðarbókmenntum. Hann stefnir á að gerast frægur kvikmyndaleikstjóri einn góðan veðurdag.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR