Þetta kemur fram á vef Kvikmyndamiðstöðvar og þar segir einnig:
Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný skylda innlendra og erlendra streymisveitna, með starfsemi á Íslandi, til að greiða svokallað menningarframlag. Menningarframlag verði í formi skatts sem nemi 5% af heildartekjum streymisveitna af sölu áskrifta á Íslandi.
Áætlað er að frumvarpið muni skila tekjum sem renni í ríkissjóð, sbr. 37. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Til að unnt verði að ná því markmiði sem að er stefnt með frumvarpinu miðast tillagan við þá grundvallarforsendu að framlag ríkisins í Kvikmyndasjóð verði hækkað sem þeirri upphæð nemur, með ákvörðun Alþingis sem ákveður skiptingu fjárheimilda til málefnasviða og málaflokka í fjárlögum ár hvert.
Gert er ráð fyrir að áhrif frumvarpsins verði mest á streymisveitur sem fjárfesta lítið eða takmarkað í nýju, íslensku efni.
Að lokinni birtingu í samráðsgátt verður farið yfir umsagnir og ábendingar sem þar berast. Að því loknu verður frumvarpið fullunnið og lagt fram á Alþingi á haustþingi 2025.













