Ummæli Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra um að kannski verði hægt að flýta streymisframlaginu þannig að það komi inn í Kvikmyndasjóð á næsta ári, koma spánskt fyrir sjónir. Þau hljóma eins og tilraun til að stinga dúsu uppí bransann.
Er hugmyndin að koma lögunum í gegn í hvelli? Eða er planið að veita sem nemur áætluðu streymisframlagi inn í Kvikmyndasjóð á næsta ári?
Með seinni kostinum yrði komið í veg fyrir að fjórða niðurskurðarár Kvikmyndasjóðs í röð yrði að veruleika. Væntanlega myndi sú fjárveiting ekki lúta því regluverki sem gert er ráð fyrir í frumvarpsdrögunum, enda það regluverk ekki fyrir hendi. Yrðu þá styrkirnir væntanlega veittir í samræmi við reglur um Kvikmyndasjóð.
Yrði fyrri kosturinn fyrir valinu væri staðan dálítið öðruvísi.
Um hvað snúast fyrirhuguð lög um menningarframlag streymisveita?
Í 1. grein frumvarpsins segir: “Markmið laganna er að efla íslenska menningu og íslenska tungu með því að hvetja til framleiðslu og auka stuðning við framleiðslu kvikmynda, sjónvarpsþátta og heimildamynda, sem eru á íslensku eða hafa aðra íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun.”
Í þessu samhengi eru tvær greinar frumvarpsins sem skipta mestu máli. Annarsvegar 4. grein þar sem gert er ráð fyrir að streymisveitur geti valið hvort þær greiði 5% af veltu í formi beinnar fjárfestingar í efni eða sem gjald í Kvikmyndasjóð. Hinsvegar 5. grein þar sem segir að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð um Kvikmyndasjóð ákvæði sem tryggi að streymisveitur geti sótt um úthlutun fjármuna úr hinum nýja styrktarflokki sjóðsins.
Hér er því verið að gera ráð fyrir að annaðhvort standi streymisveiturnar fyrir framleiðslu á íslensku efni sjálfar (geta væntanlega útvistað framleiðslu eftir sínum hentugleika) eða geti sótt fé í þennan styrktarflokk til að gera efni á sínum forsendum, innan rammans.
Streymisframlag ekki aukning í Kvikmyndasjóð, heldur sérmál
Ekkert er fjallað um aðkomu sjálfstæðra íslenskra framleiðenda í frumvarpsdrögunum, hvorki um þátttöku þeirra í verkefnum né hvort þeir eigi möguleika á að sækja um í þennan styrktarflokk.
Aðeins sjálfstæðir innlendir framleiðendur geta sótt um styrki úr Kvikmyndasjóði.
Menningarframlag streymisveita er því ekki einhverskonar aukning í Kvikmyndasjóð, sem veitir fé til sjálfstæðra framleiðenda eingöngu, en snýst þó um aukningu íslensks efnis, sem út af fyrir sig er gott mál.
Í umsögnum sínum um frumvarpið gera SÍK og SKL, hagsmunasamtök allra framleiðenda og leikstjóra á Íslandi, þetta að umtalsefni.
Efni lúti stjórn skapandi höfunda á Íslandi og styrkir renni til sjálfstæðra framleiðenda
Í umsögn SÍK, sem fagnar frumvarpinu í meginatriðum, er áréttað mikilvægi þess að stjórnvöld standi vörð um sjálfstæða framleiðslu með vísan til að þess að sjálfstæðum framleiðendum, sem hafa kvikmyndagerð að meginstarfi, sé einum heimilt að sækja um í Kvikmyndasjóð en forsendur þar að baki séu grundvallarsjónarmið um lýðræði og menningarlega fjölbreytni fyrir almenning.
Í samantekt á umsögn SKL segir að mikilvægt sé að grundvallarmarkmiði frumvarpsins sé haldið til haga, sem snúi að því að framleiða kvikmyndir og sjónvarpsefni sem „komi úr íslensku samfélagi, skapað af höfundum og leikstjórum á Íslandi sem segi sögur sprottnar úr okkar menningu.“ Samtökin vara við því að streymisveitur fái að hafa þau áhrif á frumvarpið að menningarframlagið verði nýtt til að framleiða efni undir þeirra „eigin hatti“ sem ekki lúti skapandi stjórn íslenskra kvikmyndahöfunda. Samtökin hvetja jafnframt ráðuneytið til að girða fyrir þann möguleika að streymisrisar geti nýtt menningarframlagið til að láta innlend dótturfélög framleiða efni sem sé að grunni til erlent efni og njóti ekki skapandi stjórnar íslenskra höfunda og kvikmyndagerðarfólks. Benda samtökin á að það sé ekki markmiðið með menningarframlaginu, heldur skuli það styðja ótvírætt við íslenska kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð og þar skipti íslenskt sköpunarvald og höfundarödd miklu máli.
Allar umsagnir má skoða hér og samantekt á þeim öllum er hér. Ljóst er til dæmis af umsögn Motion Picture Association (MPA, hagsmunasamtök bandaríska kvikmyndaiðnaðarins) að þar vilja menn ganga lengra í að koma til móts við hagsmuni streymisveita og gera margar athugasemdir við flesta þætti frumvarpsins. Í umsögn Sýnar (Stöð 2 ofl.) koma einnig fram þau sjónarmið að sjónvarpsstöðvarnar eigi að geta sótt um í sjóðinn allan).
Dönsku lögin heimila ekki streymisveitum að sækja um
Frumvarpið virðist smíðað að danskri fyrirmynd, enda orðalag um ýmislegt svipað. Lögin dönsku má lesa hér, þau tóku gildi í júlí 2024.
Í dönsku lögunum er þó ekkert að finna um að heimila megi streymisveitum að sækja um styrki af menningarframlagi. Í 6. grein er meðal annars kveðið á um að menningarframlaginu verði úthlutað bæði til verka sem heyra undir svokallaðan almannaþjónustusjóð (public service-puljen, þarna er átt við sjónvarp í almannaþágu) og til að styðja við aðra danska kvikmyndagerð. Segir einnig að ráðherra geti sett frekari reglur um innbyrðis skiptingu milli þessara liða.
Skilgreiningin á íslensku efni og glufan framhjá henni
Í 4. lið 3. greinar íslensku frumvarpsdraganna er að finna skilgreiningu á hvað telst íslenskt efni. Þar segir:
Allt er þetta skýrt. Að minnsta kosti 75% verður að vera á íslensku. Sem þýðir auðvitað í praxís að oftast verður allt á íslensku.
Í 1. grein segir hinsvegar á eftir klausu um eflingu íslenskrar menningar og tungu, að myndir verði að vera á íslensku “eða hafa aðra íslenska menningarlega og samfélagslega skírskotun.” Svipað segir í 5. grein: “Menningarframlag, að frádregnum kostnaði við umsýslu og eftirlit, renni í tiltekinn styrkjaflokk Kvikmyndasjóðs sem hafi að markmiði að styðja við framleiðslu á kvikmyndum, sjónvarpsþáttaröðum og heimildamyndum sem eru á íslensku eða hafa aðra íslenska, menningarlega og samfélagslega skírskotun.
Þetta undirstrikaða opnar á mjög víða túlkun. Auðvelt er að sjá fyrir sér myndir eða þætti um ameríska ferðalanga sem bregða sér til Íslands (Hallmark hefur til dæmis gert nokkrar slíkar myndir á Íslandi undanfarin ár), eða efni af ýmsu öðru tagi (sjá til dæmis Heart of Stone (Netflix), The Secret Life of Walter Mitty, þáttaröðina A Murder at the End of the World eða þá ljómandi fínu sjónvarpsmynd The Girl in the Café (2005). Þetta eru semsagt verk þar sem íslensku umhverfi (menning, samfélag) bregður fyrir en persónur eru erlendar. Verk af þessu tagi geta ekki talist íslensk á nokkurn hátt og því ekki hluti af markmiðum lagasetningar um streymisframlag.
Vonandi verða þessar undirstrikuðu klausur ekki í lokatexta frumvarpsins, enda eru þær í mótsögn við 3. grein. Þetta er hinsvegar nefnt hér með vísun til svipaðs orðalags í reglugerð um endurgreiðslur, þar sem fyrsta skilyrðið er að “viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri og kynna sögu lands og náttúru”. Náttúruklausan hefur verið langmest tekin, enda er Ísland oftast brúkað sem staðgengill fyrir aðra staði. Það er ekkert að því í sjálfu sér, en þetta undirstrikar bara mikilvægi þess að lagasetning sé skýr svo allir viti að hverju þeir ganga og ekki sé boðið uppá glufur framhjá markmiðum lagasetningarinnar.