SNERTING vinnur áhorfendaverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Tromsø

Kvikmynd Baltasars Kormáks, Snerting, hlaut áhorfendaverðlaun alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Tromsø á dögunum.

Þetta er í annað sinn sem kvikmynd eftir Baltasar hlýtur áhorfendaverðlaun hátíðarinnar. Verðlaunin hlaut hann áður fyrir Djúpið árið 2003.

„Baltasar Kormákur er yfirburða sögumaður og hér hefur hann enn eina ferðina skapað undurfagra kvikmynd. Snerting er falleg ástarsaga og það er auðvelt að skilja hvers vegna hún sigraði hjörtu áhorfenda,“ segir Astrid Aure dagskrárstjóri hátíðarinnar.

„Það leikur enginn vafi á því að íslenskar kvikmyndir njóta mikilla vinsælda á TIFF. Við vitum að stór hluti hátíðargesta leitar sérstaklega eftir íslenskum kvikmyndum ár hvert og sumir leggja sig jafnvel fram við að sjá allar þær íslensku myndir sem eru í boði,“ segir Lisa Hoen stjórnandi hátíðarinnar.

Snerting er fimmta íslenska kvikmyndin til að hljóta áhorfendaverðlaun hátíðarinnar. Baltasar er annar leikstjórinn til að hljóta verðlaunin tvisvar, en áður hafði Benedikt Erlingsson unnið þau fyrir Kona fer í stríð (2019) og Hross í oss (2014).

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR