Gert ráð fyrir starfslaunum til kvikmyndahöfunda í nýju frumvarpi, frumvarp um sjónvarpssjóð rætt á Alþingi

Í nýju frumvarpi sem Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra hefur lagt fram, er meðal annars gert ráð fyrir starfslaunum til kvikmyndahöfunda. Frumvarpsdrög eru nú í samráðsgátt. Þá stendur yfir umræða á Alþingi um sérstakan sjónvarpssjóð innan kvikmyndasjóðs.

Drög að breytingum á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009, hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Breytingar fela í sér fjölgun launasjóða sem starfslaun eru veitt úr og fjölgun árlegra úthlutunarmánaða. Meðal annars er lagt til að Launasjóði kvikmyndahöfunda verði bætt við og er gert ráð fyrir 100 mánaðarlaunum í honum. Frumvarpið felur í sér að fjárfesting í listamannalaunum vaxi úr 978 milljónum króna í 1678 milljónir á árunum 2025-2028. Frumvarpið má lesa hér: Frv_Listamannalaun_drög_150324_sg.

Umræður um sjónvarpssjóð á Alþingi

Frumvarp um breytingar á kvikmyndalögum, sem aðallega lúta að sérstökum sjóði sem styður lokafjármögnun leikinna sjónvarpsverka, er nú til umræðu á Alþingi. Frumvarpið má lesa hér.

Þar er gert ráð fyrir að tveir nýjir málsliðir bætist við 1. málsgrein 6. greinar kvikmyndalaga og eru þeir svohljóðandi: Í því skyni veitir Kvikmyndasjóður styrki sem geta m.a. falið í sér kröfu um endurheimt að uppfylltum skilyrðum sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Endurheimtir styrkir skulu renna til Kvikmyndasjóðs.

Í greinargerð, sem birtist undir frumvarpstexta má lesa nánar um hugsunina að baki breytingunum.

Hér má síðan skoða umræður á Alþingi um breytingar á kvikmyndalögum: https://www.althingi.is/altext/upptokur/lidur/?lidur=lid20240312T163830

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR