spot_img

Skarphéðinn: Meira fé til ódýrari innlendra þáttaraða

Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV segir Nordic Film and TV News að RÚV muni á næstunni verja meira fé til ódýrari þáttaraða sem beint sé að áhorfendum innanlands.

Nordic Film and TV News bað dagskrárstjóra norrænu almannastöðvanna að svara nokkrum spurningum um fjármagn til leikinna þáttaraða, stefnu varðandi samkeppnishæfni og hvar hægt er að bæta úr.

Svör Skarphéðins fara hér á eftir.

Nordic Film and TV News: Hverjar eru núverandi fjárveitingar ykkar til innlendra þáttaraða og hvernig eru horfurnar fyrir árið 2024?

Skarphéðinn: Fjárfestingar í innlendum þáttaröðum hafa verið allt að þriðjungur af heildarfjárveitingu okkar og við munum reyna að halda þessu hlutfalli svo lengi sem það er fjárhagslega skynsamlegt að verja opinberu fé til svo kostnaðarsamra verkefna.

Gleymum því ekki að áhuginn á leiknum þáttaröðum hefur ekkert minnkað. Allavega ekki á Íslandi. Helstu áskoranirnar snúast um aukinn kostnað og skort á alþjóðlegri fjármögnun og dreifingu. Frekar en að draga úr þessari fjárfestingu viljum við nálgast slíkar áskoranir sem tækifæri til að breyta stefnu okkar með því að verja meira fé til ódýrari þáttaraða sem beint er að íslenskum áhorfendum. Við erum svo sannarlega byrjuð að gera tilraunir með slík verkefni með vænlegum árangri.

Þar sem ég er bjartsýnn og hef mikla trú á inlendri framleiðslu og alþjóðlegu hungri – sérstaklega meðal yngri aldurshópa – gagnvart nýju og öðruvísi efni, vil ég trúa því að þáttaraðir af þessu tagi hafi alþjóðlega skírskotun þegar upp er staðið.

Nordic Film and TV News: Hver er stefnan varðandi samkeppnishæfni?

Skarphéðinn: Að vera frumlegur og óútreiknanlegur en á sama tíma að reyna að aðlagast.

Nordic Film and TV News: Hvað finnst þér að bransinn ætti að gera eða gæti gert til að styrkja sig á þessum krefjandi tímum?

Skarphéðinn: Bransinn gæti verið opinn og hugrakkur og treyst áhuga áhorfenda og stanslausri leit þeirra að frumlegum og ófyrirsjáanlegum sögum, óháð uppruna og tungumáli.​

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR