spot_img

RÚV hluti af nýju samstarfi átta evrópskra sjónvarpsstöðva um framleiðslu þáttaraða

Almannastöðvar Norðurlandanna og þriggja annarra Evrópuríkja hafa gert með sér samkomulag um sameiginlega fjármögnun þáttaraða undir heitinu New8. RÚV er hluti af verkefninu.

Nordic Film and TV News segir frá.

Stöðvarnar sem mynda New8 samstarfið eru hinar norrænu DR, SVT, NRK, Yle og RÚV, VRT í Belgíu, NPO í Hollandi og ZDF í Þýskalandi. Norrænu stöðvarnar höfðu 2018 gert með sér bandalag um slíka framleiðslu undir heitinu Nordic 12, þar sem þar sem 12 norrænar þáttaraðir eru samframleiddar árlega og þeim dreift á öllum Norðurlöndunum. Yfir 60 norrænar þáttaraðir hafa verið fjármagnaðar í gegnum Nordic 12 samstarfið og má þar nefna Carmen Curlers, State of Happiness, Paradise, Thin Blue Line og Pabbahelgar.

New8 verkefnið er til þriggja ára í upphafi. Gert er ráð fyrir að framleiddar verði átta þáttaraðir á tímabilinu og verður hverju verkefni tryggð dreifing á Norðurlöndum sem og í Þýskalandi, Austurríki, Sviss, Hollandi og Belgíu.

Að sögn Hans-Jørgen Osnes, yfirmanns alþjóðlegrar fjármögnunar leikinna þáttaraða hjá NRK í Noregi, mun New8 vera óháð N12 þó að margir titlar í N12 pakkanum verði einnig hluti af New8. „Það verður líka mögulegt fyrir seríu að vera New8 en ekki N12 sería,“ bætti hann við.

Aðspurður um útfærslu á New8 fjármögnuninni, sagði Osnes að samstarfið muni fylgja N12 líkaninu, þar sem verkefnin eru valin af einstökum dagskrárstjórum sem á frumstigi bjóða framleiðanda hvers verkefnis að afla fjármögnunar í gegnum þetta bandalag almannastöðvanna. Ef framleiðandinn velur slíka leið tryggir það verkefninu dreifingu á starfssvæðum samstarfsaðilanna og samframleiðslan er samþykkt á fyrirfram umsömdu verði.

Varðandi forkaupin frá hverjum dagskrárstjóra sagði Osnes að þau miðast við fjölda íbúa viðkomandi lands og í takt við markaðsverð verkefna af svipaðri gerð.

Þar sem samið er um réttindi fyrir N12 titlana til 12 mánaða á Norðurlöndum, mun New8 þáttaröð njóta góðs af örlítið lengri nýtingartíma og réttindi verða ögn mismunandi eftir svæðum, segir Osnes.

Aðspurður hvort ZDF Studios muni hafa forkaups sölurétt að verkefnum New8, sagði framkvæmdastjóri NRK að framleiðendur muni hafa „fullt frelsi til að velja alþjóðlegan dreifingaraðila fyrir þáttaröð sína.”

„Þetta er frábært tækifæri til að sameina krafta með því að ganga til samstarfs við ZDF, NPO og VRT til viðbótar við Nordic 12 samstarfið,“ sagði Birgir Sigfússon yfirmaður fjölmiðla og framleiðslu hjá RÚV.

“Við viljum efla norrænt og evrópskt samstarf um gerð, dreifingu og fjármögnun gæðaþátta. Þess vegna erum við mjög ánægð með að hafa tekist að skapa staðbundna stöðu á markaði sem einkennist af alþjóðlegum streymisþjónustum,” sagði Henriette Marienlund, forstöðumaður leikins efnis hjá DR.

Sænskur kollegi hennar, Anna Croneman hjá SVT, sagði einnig: „Norrænu almannastöðvarnar hafa átt farsælt samstarf lengi og á þessum umbrotatímum viljum við færa þetta vinnulag á næsta stig. Við hjá SVT erum ótrúlega ánægð með að taka höndum saman með jafn öflugum samstarfsaðilum eins og ZDF, VRT og NPO til að geta boðið áhorfendum okkar upp á enn meira og vandaðra leikið sjónvarpsefni.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR