spot_img

Hafsteinn Gunnar og Dóri DNA ræða AFTURELDINGU

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson og Halldór Laxness Halldórsson (Dóri DNA) ræddu við Síðdegisútvarpið á Rás 2 um þáttaröðina Aftureldingu, en sýningar hefjast á páskadag á RÚV.

Stiklu þáttanna má sjá hér.

Á vef RÚV segir:

Afturelding er glæný leikin sjónvarpsþáttaröð eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson og Dóra DNA. Þættirnir fjalla um útbrunna handboltastjörnu frá níunda áratugnum sem tekur við þjálfun kvennaliðs Aftureldingar eftir margra ára óreglu. Á gömlu heimaslóðum sínum þarf hann að horfast í augu við breytta tíma, fjarlæga dóttur sína, veðmálabrask og síðast en ekki síst kynslóð kvenna sem kallar ekki allt ömmu sína. Á meðal leikenda í þáttunum eru Ingvar E. Sigurðsson, Svandís Dóra Einarsdóttir og Saga Garðarsdóttir. Hafsteinn og Dóri sögðu frá þáttunum í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Karlhetjan og kvenhetjurnar

„Þetta fjallar um gamlan landsliðsfyrirliða sem má muna sinn fífil fegri. Það er dálítið síðan glæstum ferli hans lauk og hann er ekki í neitt sérstaklega góðum málum þegar við kynnumst honum,“ segir Hafsteinn um söguhetjuna. „Það er verið að bjóða honum kvennaliðið og það er algjörlega fyrir neðan hans virðingu. Hann langar allra helst að ganga burt en hann neyðist til að taka við þessu liði. Þetta fjallar um hans leið til að endurheimta mannorðið og glæsta tíma.“

En söguhetjutitlinum deilir þjálfarinn með tveimur kvenhetjum, landsliðskonu á sínu síðasta ári í atvinnumennsku sem Svandís Dóra leikur og svo skyttunni sem fær óvænt tækifæri sem Saga Garðarsdóttir túlkar í þáttunum.

Hittust í partíi og ákváðu að gera þætti um handbolta

„Ef við eigum að hraðsjóða er þetta saga af því að við tökum þessar hetjur níunda áratugarins, og þetta þarf ekki að vera handbolti heldur getur verið hvaða leikari eða hetja níunda áratugarins sem er, og við plöntum henni fyrir framan nútímakonur, sérstaklega eftir #metoo, og við sjáum hvað gerist,“ segir hann.

Þeir félagar fengu hugmyndina þegar þeir hittust í partíi og það kom í ljós að þeir voru báðir skotnir í að gera sjónvarpsefni um handbolta. „Svo settumst við niður og spunnum þetta eins og þráð. Þetta er algjörlega okkar.“

Mosfellsbær sterkur karakter í þáttunum

Þeir leituðu líka til annarra höfunda, meðal annars Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, Jörunds Ragnarssonar og Katrínar Björgvinsdóttur. „Þetta hefur verið í þróun lengi og við höfum leyft mörgum að lesa, kommenta og hafa áhrif. Svo höfum við verið að elta það sem gerist í samfélaginu, þetta er svolítið annað samfélag en það var fyrir sjö árum.“

Mosfellsbær varð fyrir valinu því þeim fannst hann vera óplægður akur á skjánum og hvíta tjaldinu. „Þetta er pínu sveit en samt í borg og hefur þetta smábæjar-element. Þetta er skemmtilegur sjónrænn árekstur. Þarna er geggjuð náttúra, misfallegar byggingar,“ segir Hafsteinn Gunnar. „Þetta gefur þáttaröðinni mjög sterkan karakter.“

Endurskrifað 20 sinnum

Serían er í senn brosleg og átakanleg, fyndin og dramatísk á köflum. Og Hafsteinn Gunnar er vongóður um að hún eigi eftir að falla vel í kramið hjá þjóðinni. „Ég ætla að segja fullum fetum að þetta sé best skrifaða íslenska sjónvarpsþáttasería sem hefur verið á skjám fólks hér á landi. Og fólk getur bara skorað mig á hólm ef það er ekki sammála.“

Dóri tekur undir en bætir því við að það sé alls ekki bara þeim tveimur að þakka. „Það er ekki af því að við erum svo klókir heldur hafa margir komið að þessu, þetta hefur verið endurskrifað 19-20 sinnum.“

Margt kunnuglegt í sögunni

Margt af því sem gerist í sögunni hljómar kunnuglega. Í fyrsta þættinum er til dæmis verðlaunapeningur auglýstur til kaups á Bland.is. Mörgum er auðvitað minnistætt þegar Sigfús Sigurðsson handboltamaður veðsetti silfurmedalíuna frá Ólympíuleikunum í Peking vegna fjárhagsvandræða.

„Við erum að spegla samfélagið og reyna að segja stærri sögu í gegnum þennan litla heim sem við erum að skapa,“ segir Hafsteinn að lokum.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR